Félix Faure

7. forseti Frakklands (1841-1899)

Félix Faure (30. janúar 1841 – 16. febrúar 1899) var franskur stjórnmálamaður sem var forseti Frakklands frá 1895 til dauðadags.

Félix Faure
Forseti Frakklands
Í embætti
17. janúar 1895 – 16. febrúar 1899
ForsætisráðherraCharles Dupuy
Alexandre Ribot
Léon Bourgeois
Jules Méline
Henri Brisson
Charles Dupuy
ForveriJean Casimir-Perier
EftirmaðurÉmile Loubet
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. janúar 1841
París, Frakklandi
Látinn16. febrúar 1899 (58 ára) Élysée-höll, París, Frakklandi
DánarorsökHeilablóðfall
StjórnmálaflokkurHófsamir lýðveldissinnar
MakiBerthe Belluot
TrúarbrögðKaþólskur
BörnLucie Faure, Antoinette Faure
StarfSútari, kaupmaður, stjórnmálamaður

Faure kom úr millistéttarfjölskyldu og átti fyrir sér feril sem sútari. Hann varð ríkur á því að versla með leður. Hann hóf smám saman stjórnmálaferil, fyrst í héraðsstjórnmálum borgarinnar Le Havre en síðan sem fulltrúi Neðra-Signuhéraðs á franska fulltrúaþinginu þar sem hann gekk í hóp hófsamra lýðveldissinna.

Faure var gerður flotamálaráðherra árið 1894 í ríkisstjórn Charles Dupuy og var nokkrum mánuðum síðar kjörinn forseti franska lýðveldisins eftir afsögn Jean Casimir-Periers. Í kosningunum vann hann sigur með stuðningi konungssina og hófsamra lýðveldissinna gegn miðvinstrimanninum Henri Brisson.

Forsetatíð Faure einkenndist af Dreyfusmálinu, sem skipti Frökkum í tvær fylkingar með eða á móti Alfred Dreyfus. Varnarritið J’accuse eftir Émile Zola sem gagnrýndi meðferðina á Dreyfus var í formi opins bréfs sem var stílað sérstaklega á Faure forseta. Faure var sjálfur andsnúinn því að mál Dreyfusar yrði tekið upp á ný þar sem honum þótti það ekki samræmast lögum, en dagbækur hans sýna þó fram á að Faure var sjálfur sannfærður um sakleysi Dreyfusar.

Faure lést í embætti eftir fjögur ár á forsetastól. Af þeim fjórum forsetum Frakklands sem hafa látist í embætti er Faure sá eini sem lést í forsetabústaðnum í Élysée-höll. Faure lést úr heilablóðfalli í faðmi hjákonu sinnar, Marguerite Steinheil, aðeins klæddur vestinu einu saman.[1][2] Franskir fjölmiðlar komust svo að orði að Faure hefði látist úr því að „fórna of miklu til Venusar“, þ.e.a.s. ofkeyrt sig í ástarleik með hjákonunni. Aðrir vísuðu því á bug og héldu því fram að Faure hefði dáið af eðlilegum orsökum.[3] Georges Clemenceau sagði um Faure eftir dauða hans að „hann vildi vera Sesar en var í lokin bara Pompeius.“[4] (Il voulait être César, il ne fut que Pompée.) Hér lék Clemenceau sér með orð því „Pompée“, frönsk stöfun á nafni Pompeiusar, getur einnig þýtt „pumpaður“ eða, í óeiginlegri merkingu, „tottaður“.

Tilvísanir

breyta
  1. Christophe Deloire, Christophe Dubois, Sexus Politicus, Albin Michel, 2006, bls. 56.
  2. Frédéric Lewino et Gwendoline Dos Santos (16. febrúar 2012). „1899 : une fellation présidentielle à l'Élysée“. Le Point..
  3. Christian Delporte, Michael Palmer, Denis Ruellan „Presse à scandale, scandale de presse“. books.google.com. Sótt 17. janúar 2018., bls. 51.
  4. Jean-Michel Renault, Censure et caricatures : les images interdites et de combat de l'histoire de la presse en France et dans le monde, Pat à Pan, 2006, 238 bls.


Fyrirrennari
Jean Casimir-Perier
Forseti Frakklands
17. janúar 189516. febrúar 1899
Eftirmaður
Émile Loubet


   Þessi Frakklandsgrein sem tengist æviágripi og stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.