Hvanneyri
Hvanneyri er þéttbýlis- skóla- og kirkjustaður í Andakíl í Borgarbyggð. Á staðnum var lengi stórbýli og taldist jörðin 60 hundruð. Þar hefur Bændaskólinn á Hvanneyri verið starfræktur frá 1889, þegar stofnaður var búnaðarskóli fyrir suðuramtið. Hvanneyrarhverfið samanstóð af höfuðbólinu Hvanneyri og þegar búnaðarskólinn var stofnaður voru jarðir og hjáleigur lagðar undir skólann. Voru þetta Svíri, Ásgarður, Tungutún, Bárustaðir, Staðarhóll, Kista og Hamrakot. Árið 1907 urðu breytingar á starfi skólans, námið varð fjölþættara og bóknám aukið og hét hann eftir það Bændaskólinn á Hvanneyri. Framhaldsnám í búvísindum hófst þar svo 1947 og myndaðist þar þéttbýli í kjölfarið. Bútæknideild Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins hefur haft þar aðsetur og aðstöðu síðan 1965 og í dag er á staðnum Landbúnaðarháskóli Íslands og er aðal lífæð staðarins. Á Hvanneyri áttu 307 lögheimili þann 1. janúar 2019.
Saga
breytaHvanneyri er talin vera landnámsjörð Skalla-Gríms Kveld-Úlfssonar en hann nam land milli Borgarhrauns og Hafnarfjalls. Hann gaf síðar Grími hinum háleyska land milli Grímsár og Andakílsár og bjó hann á Hvanneyri.
Kirkja var fyrst sett á Hvanneyri á 12. öld en hún er í dag bændakirkja og því í eigu Landbúnaðarháskólans. Kirkjan stóð á Kirkjuhól en árið 1903 fauk hún og lenti norðan við kirkjugarðinn. Því var ákveðið að færa kirkjuna og var hún sett á þann stað sem sú gamla lenti. Núverandi kirkja var vígð árið 1905.
Árið 1943 var Landsmót ungmennafélaganna haldið á Ásgarðsfit.
Náttúrufar
breytaMeðfram Hvítá liggja Hvanneyrarengjar sem fengu næringu úr ánni með áveitum. Þaðan kom lengi vel allur heyafli Hvanneyrarbúsins, eða þangað til farið var að rækta tún suður í mýrunum upp úr 1940. Meðfram engjunum liggur ás nokkur og snýr Kinnin, brekka, í átt að ánni. Ás þessi markar syðri hluta Borgarfjarðarsamhverfunnar en það eru hallandi jarðlög. Sunnan Hvítár halla jarðlögin til suðausturs en norðan ár til norðvesturs. Klapparholt þetta hindrar afrennsli af mýrunum fyrir sunnan.
Fuglalíf
breytaFuglalífið á Hvanneyri er mjög fjölbreytt. Þar er verndarsvæði blesgæsarinnar á Íslandi en þær hafa viðkomu á túnum staðarins bæði vor og haust.
Byggðin
breytaÍbúðarhús staðarins eru dreifð um svæðið sem og nemendagarðar, heimavist og skólahús sem tilheyra Landbúnaðarháskólanum. Hús Hvanna er vestarlega og hýsir það ýmis fyrirtæki, s.s. Búnaðarsamband Vesturlands, Vesturlandsskóga, Landssamband kúabænda og önnur landbúnaðartengd fyrirtæki. Að auki er þar að finna Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar (áður Andakílsskóla) og leikskólann Andabæ. Við skólann er að finna stóran knattspyrnuvöll og sparkvöll.
Heimildir
breyta- „Vesturland.is - Afþreying og staðir“. Sótt 27. júlí 2010.
- Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, A-G. Örn og Örlygur.
- Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.