Skalla-Grímur Kveld-Úlfsson

Skalla-Grímur Kveld-Úlfsson eða Skallagrímur Kveldúlfsson eða Grímur Úlfsson var landnámsmaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslum. Frá honum segir í Landnámabók og Egils sögu. Hann var orðinn sköllóttur um 25 ára aldur og var því jafnan kallaður Skalla-Grímur.

Grímur var sonur Úlfs (Kveld-Úlfs), sonar Brunda-Bjálfa og konu hans Salbjargar Berðlu-Káradóttur. Þeir feðgar, Kveld-Úlfur og Skalla-Grímur, fóru til Íslands eftir að Haraldur hárfagri lét drepa Þórólf Kveld-Úlfsson vegna rógburðar Hildiríðarsona og vildi ekki bæta vígið. Þeir voru vinir Ingólfs Arnarsonar og höfðu haft spurnir af landnámi hans á Íslandi. Þeir sigldu hvor á sínu skipi. Kveld-Úlfur dó í hafi og varpaði stýrimaður hans, Grímur háleyski Þórisson, kistu hans fyrir borð samkvæmt fyrirmælum hans en sigldi síðan inn í Borgarfjörð og lenti skipinu þar.

Skalla-Grímur lenti skipi sínu við Knarrarnes á Mýrum. Hann kannaði svo landið „og var þar mýrlendi mikið og skógar víðir, langt á milli fjalls og fjöru. En er þeir fóru inn með firðinum, komu þeir á nes það, er þeir fundu álftir; það kölluðu þeir Álftanes.“ Grímur nam svo Mýrasýslu alla og Borgarfjörð suður til Andakílsár. Kista Kveld-Úlfs fannst rekin í Borgarfirði og reisti Skalla-Grímur bæ sinn skammt þar frá og kallaði Borg og fjörðinn Borgarfjörð. Menn þeirra feðga og frændur fengu svo land í landnámi hans.

Kona Skalla-Gríms var Bera Yngvarsdóttir og börn þeirra voru Þórólfur, Egill, Sæunn amma Björns Hítdælakappa og Þórunn kona Geirs auðga, sonar Ketils blunds landnámsmanns í Þrándarholti.

Tenglar

breyta
  • „Landnámabók. Af snerpa.is“.
  • „Egils saga. Af snerpa.is“.