Hákon gamli

Konungur Noregs, Grænlands og Íslands (f. 1204 – d.1263)
(Endurbeint frá Hákon 4.)

Hákon gamli Hákonarson eða Hákon 4. (1204 - 16. desember 1263) var konungur Noregs frá 1217 til dauðadags. Á valdatíð hans lauk loks borgarastyrjöldunum sem höfðu mótað sögu Noregs í heila öld. Ennfremur komust Ísland og Grænland undir norsk yfirráð á ríkisstjórnarárum hans.

Skjaldarmerki Ætt Sverris konungs Konungur Noregs
Ætt Sverris konungs
Hákon gamli
Hákon gamli
Ríkisár 1217 - 16. desember 1263
SkírnarnafnHákon Hákonarson
Fæddur1204
 Folkenborg
Dáinn16. desember 1263
 Kirkwall á Orkneyjum
GröfDómkirkjan í Björgvin
Konungsfjölskyldan
Faðir Hákon harmdauði
Móðir Inga frá Varteigi
DrottningMargrét Skúladóttir
BörnHákon ungi
Kristín
Magnús lagabætir

Uppruni

breyta

Hann var sonur Ingu frá Varteigi, en hún sagði hann vera óskilgetinn son Hákonar 3., sem var látinn þegar drengurinn fæddist en hafði heimsótt Varteig árið áður og þá tekið Ingu sem frillu. Eftir dauða hans mátti segja að Noregur væri í raun tvö ríki, birkibeinaríkið í Vestur-Noregi og Þrændalögum og baglaríkið við Óslófjörð og í Austur-Noregi. Hákon Hákonarson fæddist á miðju valdasvæði bagla og þegar hann var tveggja ára flúði sveit birkibeina með hann og móður hans til Þrándheims á skíðum og lenti í miklum hrakningum á leiðinni.

Konungur Noregs

breyta
 
Birkibeinar flýja með Hákon til Þrándheims.

Hákon ólst svo upp í Þrándheimi undir verndarvæng Inga Bárðarsonar birkibeinakonungs, sem viðurkenndi hann sem konungsson. Ingi lést árið 1217 og þar sem hann var barnlaus stóð valið um konungsefni þá á milli Hákonar og Skúla Bárðarsonar, hálfbróður Inga konungs. Birkibeinaherinn studdi Hákon og Inga móðir hans tókst á hendur járnburð til að sanna að hann væri sonur Hákonar Sverrissonar. Úr varð að Hákon var valinn konungur en þar sem hann var aðeins þrettán ára var Skúli, sem var tæplega þrítugur, gerður að ríkisstjóra og jarli og fékk þriðjung landsins að léni.

Seinna sama ár lést baglakonungurinn Filippus Símonarson án þess að skilja eftir sig erfingja. Varð þá samkomulag um að Hákon skyldi verða konungur alls landsins. Ekki voru allir baglar þó sáttir við það og börðust áfram gegn birkibeinum. Árið 1223 var haldin ráðstefna allra helstu manna landsins, biskupa og veraldlegra höfðingja, til þess að skera úr um hver væri réttur konungur Noregs, en nokkrir gerðu tilkall til krúnunnar. Kirkjunnar menn voru eindregið á bandi Hákonar þótt hann væri óskilgetinn og varð úr að hann var úrskurðaður hinn eini rétti konungur.

Þó héldu ýmsir þeirra sem tilkall höfðu gert til krúnunnar áfram andófi allt til 1227, þegar Knútur sonur Hákonar galins samdi frið við konung og giftist Ingiríði dóttur Skúla jarls skömmu síðar. Hákon var þó ekki krýndur konungur fyrr en 29. júlí 1247.

Hákon og Skúli jarl

breyta

Framan af valdatíð Hákonar voru raunveruleg völd í höndum Skúla Bárðarsonar og hann réði yfir þriðjungi ríkisins, fyrstu árin svæðinu umhverfis Óslófjörðinn en frá 1223 hafði hann Þrændalög og átti aðalaðsetur í Niðarósi. Þegar Hákon þroskaðist tók hann smátt og smátt sjálfur völdin og það leiddi til árekstra við Skúla. Til að reyna að slá á deilurnar var ákveðið 1225 að Hákon skyldi giftast Margréti, dóttur Skúla, en það dugði ekki til.

Skúli var gerður að hertoga árið 1237 og um leið ákvað Hákon að hann ætti ekki lengur að stýra Þrændalögum, heldur skyldi hann hafa þriðjung hverrar sýslu landsins. Þannig hafði hann ekki lengur yfirráð í einum landshluta og það veikti stöðu hans. Samkomulag þeirra tengdafeðga versnaði stöðugt og árið 1239 tók Skúli sér konungsnafn á Eyraþingi og hóf stríð gegn Hákoni. Hann reyndi að fá hinn tengdason sinn, Knút Hákonarson, til liðs við sig en hann stóð með konungi og fékk jarlsnafnbót að launum. Hákon vann sigur á Skúla í orrustu við Ósló 1240 og seinna sama ár var Skúli veginn í Niðarósi. Uppreisn Skúla er almennt talin endalok borgarastyrjaldanna í Noregi og ef til vill má segja að víg Snorra Sturlusonar í Reykholti 1241 hafi verið lokapunkturinn en hann var stuðningsmaður Skúla jarls.

Útþenslustefna

breyta

Eftir 1240 ríkti friður í Noregi og konungdæmið efldist mjög. Hákoni var umhugað að efla ítök sín og bæta samband við önnur lönd og sendi í því skyni sendimenn með gjafir til ýmissa landa, jafnvel með fálka til Túnis, og gifti Kristínu dóttur sína Filippus bróður Alfons 10. Kastilíukonungs árið 1258. Hann vildi stækka og efla ríkið og það gerði hann meðal annars með því að fá Grænlendinga til að sverja sér land og þegna 1261 og síðan Íslendinga 1262.

Það dugði Hákoni þó ekki og árið 1263 safnaði hann saman stórum flota og fór í herferð til Skotlands til að tryggja yfirráð sín yfir Suðureyjum en Alexander 3. Skotakonungur var þá farinn að seilast þar til valda. Hákoni tókst að ná yfirráðum á eyjunum á ný og sendi líka herlið inn í Skotland sjálft. Alexander dró samningaviðræður á langinn því að hann vissi að Hákoni mundi ganga illa að halda flotanum saman til lengri tíma. Hluti norska flotans barðist við skosk herskip við Large og héldu bæði Skotar og Norðmenn því fram að þeir hefðu haft sigur. Að lokum gafst Hákon upp í bili og hélt til Orkneyja til að hafa þar vetursetu en mestallur flotinn fór til Noregs. Hákon dó svo í Orkneyjum um miðjan desember 1263. Yngsti og eini eftirlifandi sonur hans, Magnús lagabætir, tók þá við ríkjum og samdi brátt frið við Skota.

Helsta heimildin um ævi Hákonar er Hákonar saga Hákonarsonar, rituð af Sturlu Þórðarsyni sagnaritara skömmu eftir dauða hans.

Fjölskylda

breyta

Hákon eignaðist fjögur börn með Margréti drottningu. Elsti sonurinn, Ólafur, dó þriggja ára. Næstur var Hákon ungi, sem varð meðkonungur föður síns 1240, þá átta ára, en dó 1257. Kristín giftist til Kastilíu en dó þar skömmu síðar. Eina barnið sem lifði föður sinn var Magnús lagabætir.

Frilla Hákonar var Kanga hin unga og með henni átti hann Sigurð, sem dó 1254, og Sesselju, sem giftist fyrst Gregoríusi Andréssyni og svo Haraldi Ólafssyni konungi á Mön og Suðureyjum, undirkonungi föður hennar. Þau drukknuðu bæði þegar skip þeirra fórst við strönd Wales þegar þau sigldu heim eftir brúðkaup sitt í Noregi 1248.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Ingi Bárðarson
Noregskonungur
(1217 – 1263)
Eftirmaður:
Magnús lagabætir