Grindadráp er veiðiaðferð sem beitt er við veiðar á grindhvölum (marsvínum) í Færeyjum. Flestir Færeyingar telja grindadráp mikilvægan hluta af menningu sinni. Þessi veiðiaðferð hefur verið notuð að minnsta kosti frá 11. öld. Hvalveiðiráð Færeyinga hefur eftirlit með veiðunum en ekki Alþjóðahvalveiðiráðið. Um 950 grindhvalir eru veiddir árlega, aðallega að sumarlagi. Veiðarnar, sem kallast á færeysku grindadráp, eru ekki gerðar til að selja hvalaafurðir heldur eru skipulagðar þannig að allir geta tekið þátt. Dýraverndunarsinnar hafa gagnrýnt veiðarnar og segja þær grimmúðugar og ónauðsynlegar.

Bátar á Suðurey í Færeyjum reka hvali upp á land 8. ágúst 2012
Röð af nýveiddum grindhvölum í fjörunni í Hvalbæ á Suðurey í Færeyjum 11. ágúst 2002.
Þorpið í Hvalvík á Straumey er vel þekktur veiðistaður fyrir grindhvali.

Framkvæmd grindadráps

breyta

Þegar vart var við torfur grindhvala var hrópað grindaboð og sendaboðar voru sendir til allra íbúa á eyjunni. Á sama tíma var kveiktur eldur til að koma boðum um grindina til nágrannaeyja og þar var sama kerfi notað til koma fréttum til allra íbúa á þeim eyjum. Veiðiaðferðin er þannig að það þurfti mjög marga báta og fólk til að króa af og reka grindhvalahjörð að landi. Boð um grindhvalaveiðar nútímans fara fram með nútíma fjarskiptatækni svo sem gegnum farsíma og síma. Veiðimennirnir króa fyrst hvalina af með því að mynda hálfhring með bátum. Bátarnir reka síðan grindhvalahjörðina hægt upp inn í flóa eða fjarðarbotn.

Grindadráp á Íslandi

breyta

Árið 1781 skrifaði Jón Eiríksson grein í tímarit Hins íslenska lærdómslistafélags um marsvínarekstur en þar lýsti hann hnísuveiðum í Middelfart á Fjóni og hvatti Íslendinga til hvalveiða. [1]

Þann 10. september 1809 stóð Þórður Jónsson hreppstjóri fyrir því að hvalavaða var rekin á land á Akranesi. Magnús Stephensen skrifar að um 1000 hvalir hafi verið drepnir, en taldi þá ekki vera marsvín, heldur af einhverri stærri tegund sem hann þekkti ekki. Þórður fékk dannebrogsorðu fyrir vikið.[2]

Fyrsta grindadráp í Reykjavík var 17. september 1823 en þá voru 450 marsvín rekin á land vestur í hafnarkrikanum þar sem Slippurinn er núna.

Í ágúst 1875 voru rekin á land í Njarðvíkum 207 marsvín og 22 höfrungar.[3]

Þann 15. júlí 1957 var marsvínavaða rekin á land við dráttarbrautina í Njarðvík og voru 105 marsvín drepin. Færeyingar búsettir í Njarðvík stjórnuðu veiðunum og óðu sumir þeirra allt í axlir í sjó fram við að drepa hvalina. Nokkrum árum áður voru hvalir reknir á land á sama stað og skornir þar í fjörunni.

Þann 30. ágúst 1966 fundu sjómenn á tveim trillubátum marsvínavöðu með á annað hundrað dýrum á Sundunum út af Reykjavík og ráku þau til lands. Fleiri trillubátar og hraðbátar bættust í för og eftir tveggja klukkustunda eltingarleik tókst að reka þrjú marsvín á land við Laugarnestanga en þar skipti marsvínavaðan sér í tvo hópa og fór til hafs.[4]

Síðsumars árið 1982 rak stóra marsvínavöðu líklega um og yfir 300 dýr upp að landi við Rif á Snæfellsnesi. Heimamenn komu megninu af vöðunni aftur á haf út en um 40 dýr drápust.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. Jón Eiríksson: Um marsvína rekstr
  2. „Bréf Magnúsar Stephensen um hvalarekstur á Akranesi“. Þjóðskjalasafn Íslands. apríl 2017. Sótt 6.5.2022.
  3. Ellert K. Schram (18. september 1927). „Marsvínarekstur í Njarðvíkum fyrir 52 árum“. Lesbók Morgunblaðsins: 295–296.
  4. „Á annað hundrað grindhvalir á ytri höfninni“. Morgunblaðið: 28. 31. ágúst 1966.
  5. 22 dýrahræ rekur á land í Trékyllisvík á Ströndum

Heimildir

breyta
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Grindadráp“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. júlí 2008.
  • Öldin okkar 1951-60 bls. 149

Tenglar

breyta