Grímur Thomsen

Grímur Thomsen (15. maí 182027. nóvember 1896) var íslenskt skáld, bókmenntafræðingur, þingmaður og bóndi.

Grímur Thomsen
Grímur Thomsen
Grímur Thomsen
Fæddur Grímur Þorgrímsson
15. maí 1820
Bessastöðum, Álftanesi
Látinn 27. nóvember 1896 (76 ára)
Bessastöðum, Álftanesi
Búseta Á Bessastöðum í æsku, í Kaupmannahöfn og sunnar í Evrópu 1837–1867, á Bessastöðum eftir það.
Þekktur fyrir Fyrir ljóð sín
Þjóðerni Íslendingur
Starf/staða Skáld, bókmenntafræðingur, legationsráð, þingmaður og bóndi.
Titill Dr. phil.
Maki Jakobína Jónsdóttir (af Reykjahlíðarætt) frá Reykjahlíð við Mývatn og síðar Hólmum í Reyðarfirði
Foreldrar Þorgrímur Tómasson (Thomsen) og Ingibjörg Jónsdóttir
Háskóli Kaupmannahafnarháskóli

Æska og námBreyta

Grímur var fæddur og uppalinn á Bessastöðum en foreldrar hans voru Þorgrímur Tómasson gullsmiður (kallaði sig Thomsen), skólaráðsmaður þar og kona hans Ingibjörg Jónsdóttir, systir Gríms Jónssonar[1], amtmanns á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Grímur lærði í heimaskóla hjá séra Árna Helgasyni í Görðum á Álftanesi. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi 17 ára 1837 sigldi hann til Kaupmannahafnar og innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla. Árið 1841 tók Grímur þátt í samkeppni um samningu ritgerðar um franskar bókmenntir og stöðu þeirra í samtímanum og hlaut önnur verðlaun fyrir ritgerðina. Hann lauk meistaraprófi í samtímabókmenntum frá Hafnarháskóla 1845, ritgerð hans fjallaði um Byron lávarð. Níu árum seinna var honum veitt doktorsnafnbót við Kaupmannahafnarháskóla með konungsúrskurði fyrir ritgerðina um Byron.

StörfBreyta

Í Kaupmannahöfn kom Grímur að útgáfu Nýrra félagsrita ásamt Jóni Sigurðssyni.

Grímur starfaði árum saman í utanríkisþjónustu Dana og dvaldist meðal annars í Frankfurt, París, Brüssel og London. Hlaut hann nafnbótina legationsráð, sem hann afsalaði sér eftir að hann fluttist heim til Íslands. [2] Hann fluttist 1867 alfarinn til Íslands og settist að á Bessastöðum, sem hann keypti af konungi í skiptum fyrir Belgsholt í Borgarfirði. Grímur sat lengi á Alþingi og rak bú á Bessastöðum til dauðadags. Hann lést á Bessastöðum 27. nóvember 1896 í sama herbergi og hann fæddist í 76 árum fyrr.[3]

Grímur sótti sér gjarnan yrkisefni í fortíðina að hætti rómantískra skálda og þótti nokkuð forn í hugsun

Áhrif Gríms á DaniBreyta

Sagt er að Grímur hafi fyrstur manna vakið athygli Dana á Byron lávarði, því að áður en Grímur skrifaði ritgerð sína um hann, áttu Danir ekkert rit að gagni um hann. Hann vakti einnig fyrstur eftirtekt Dana á Johan Ludvig Runeberg og útvegaði honum riddarakross hjá Halli ráðgjafa. En merkast var þó það, að Grímur kenndi Dönum að meta H.C. Andersen og ævintýri hans. Áður en Grímur skrifaði um hann hafði Andersen ort og ritað ævintýri í nær heilan mannsaldur og borið það eitt úr býtum, að Danir höfðu skammað hann jafnt og þétt sem fábjána og hálfvita. [4]

EinkahagirBreyta

Á meðal afkomenda Þorgríms Tómassonar gullsmiðs er honum eignuð þessi vísa:[5]

Dætur á ég tvær.
Giftar eru þær
skíthælum tveim.
Svei báðum þeim.
En dreng á ég líka,
dável gáfaðan.
Guð blessi hann.

Þetta þykir heldur ósanngjarnt í garð þeirra bræðra Markúsar og Ásmundur Jónssona, eiginmanna Kristínar og Guðrúnar dætra Þorgríms, sem voru báðir sómamenn, greinilega er þetta ort í stríðni.

Grímur reyndist Þorgrími alldýr í rekstri meðan á námi hans stóð og olli foreldrum sínum áhyggjum fyrir sakir eyðslusemi og námsvals. Þorgrímur studdi son sinn rausnarlega til náms í Kaupmannahöfn, en þeir peningar nægðu Grími engan veginn og hann hleypti sér í miklar skuldir. Gekk Finnur Magnússon prófessor oft í ábyrgð fyrir hann til að forða honum frá skuldafangelsi eða brottrekstri úr skóla og þurfti síðan að rukka Þorgrím, þannig að Þorgrímur fékk stundum háa bakreikninga vegna skulda Gríms. Grímur mun hins vegar hafa þótt aðhaldssamur í landsfjármálum þegar hann sat á þingi á efri árum (18691892).

Grímur skráði sig á öðru ári til þess að róa foreldra sína í lögfræðinám sem þótti skynsamlegt fyrir framagjarna menn. En hann sinnti lögfræðinni lítið og lagði í staðinn allt kapp á að læra bókmenntafræði, sem ekki þótti gefa miklar framavonir. Grímur stóð sig samt vel í lífsbaráttunni.

KvennamálBreyta

[3] Þegar Grímur var við nám og leigði úti í bæ, bjó í næsta herbergi jafnaldra hans,stúlka frá Fredericia á Jótlandi, Anna Magdalene Kragh [6] (3. júní 1819–28. mars 1903) sem var við kennaranám. Þeim Grími varð ágætlega til vina. Magdalene lauk námi sumarið 1842 og réð sig þá sem kennari til prófasts Hans Conrad Thoresen [7] á Sunnmæri í Noregi, sem var ekkill með fimm ung börn. Hún fann fljótlega að hún var vanfær. Í þá daga þótti ekki fínt að eiga barn utan hjónabands. Prófastur reyndist henni vel og þau fóru til Kaupmannahafnar þar sem Magdalene fæddi son vorið 1843. Barnið var skírt Peter Axel, sem var síðar breytt í Axel Peter Jensen og drengnum var komið í fóstur. Síðar sama ár gengu Magdalena og Thoresen í hjónaband. Þau fluttu til Bergen og eignuðust fjögur börn saman. Grímur hefur spurst fyrir um Magdalenu og hóf hann bréfaskipti við hana um 1850. Það varð til þess að Grímur tók að sér að greiða fyrir framfærslu drengsins og varð upp úr því mikil vinátta við Thoresen hjónin, sem entist meðan þau lifðu. Telja margir að Grímur hafi verið faðir drengsins [8] þó aldrei kynnti hann drenginn sem slíkan. Þegar Axel Peter var stálpaður sigldi hann til Íslands að frumkvæði Gríms og heimsótti Ingibjörgu á Bessastaði og systur Gríms í Odda á Rangárvöllum. Ingibjörg sem var orðin blind tók í hendur drengsins og á að hafa sagt Þetta eru hendurnar hans Gríms míns. Drengurinn lærði til sjóliðsforingja og var í sjóhernum um skeið, en gekk síðan í verslunarflotann og bar beinin ungur í Kína.

Í Bergen kynntist Magdalena leikskáldunum og leikhússtjórunum Henrik Ibsen og Bjørnstjerne Bjørnson. Hún þýddi leikrit fyrir Bjørnson, en Ibsen giftist stjúpdóttur hennar, Súsönnu. Eftir að hún var orðin ekkja fékkst hún við skriftir, skrifaði m.a. leikrit og ferðabækur frá Noregi. Varð hún þekkt og virt fyrir skrif sín.

Meðan á starfsferli Gríms erlendis stóð vitjaði hann öðru hverju átthaganna, meðal annars sumarið 1866. Þá var Þuríður nokkur Þorgeirsdóttir vinnukona í Pálshúsi í Reykjavík. Hún ól dóttur 19. maí 1867 og sagði sínu nánasta skylduliði að Grímur Thomsen væri barnsfaðir hennar, þótt Jón Ólafsson, ógiftur maður á Sýruparti á Akranesi, væri lýstur faðir stúlkunnar í kirkjubókum. Ekki er hins vegar vitað til að Grímur hafi haft nein afskipti af Sigurlaugu og hið meinta faðerni fór lengi leynt. Þuríður móðir barnsins dó aðeins fertug að aldri, úr veikindum, en hafði verið mjög heilsulaus um nokkurn tíma áður. Hún var á þeim tíma vinnukona hjá Grími Thomsen á Bessastöðum, en þar lést hún 24. maí 1870. [9]

Séra Jón Þorsteinsson var lengi prestur í Reykjahlíð og átti mörg börn á árunum 1808 til 1835. Eru niðjar hans kallaðir Reykjahlíðarætt. Á gamals aldri flutti hann til sonar síns séra Hallgríms Jónssonar prests á Hólmum í Reyðarfirði og tók með sér yngsta barnið Jakobínu Jónsdóttur (30. nóv. 1835–30. jan. 1919). Kona Hallgríms var heilsulítil og gengdi Jakobína ráðskonustörfum fyrir bróður sinn. Jakobína skrifaðist á við systur sína Sólveigu, sem var kvænt Jóni Sigurðssyni, alþingismanni á Gautlöndum í Mývatnssveit. Hafa mörg bréfa þeirra verið birt í bókum Finns Sigmundssonar [10] og eins hefur Ríkisútvarpið flutt þætti þar sem lesið er úr þessum bréfum. 1865 fór Jakobína til Reykjavíkur og í Reykjavík naut hún meðal annars kennslu hjá Ágústu Johnson dóttur Gríms amtmanns, en Ágústa og Grímur Thomsen voru systkinabörn.

Þegar Grímur var sestur að á Bessastöðum þótti honum kominn tími til að festa ráð sitt. Hann skrifaði Jakobínu bónorðsbréf, en undirtektir hennar voru dræmar og skrifaði hún Sólveigu og bað um ráð. Grímur sá að það þurfti að fylga málinu eftir af festu, svo hann tók sér far með skipi til Reyðarfjarðar og bar upp erindið augliti til auglitis með þeim árangri að Jakobína játaðist honum. Séra Hallgrímur gaf þau saman skömmu síðar. Þetta var árið 1870 og Grímur var fimmtugur og Jakobína þrjátíu og fimm ára. Hjónabandið var farsælt. Þau eignuðust engin börn, en sum systkinabörn þeirra dvöldust langdvölum hjá þeim.

Stríðni GrímsBreyta

Í júní 1884 gekk Þóra Ágústa Ásmundsdóttir, dóttir Guðrúnar systur Gríms, að eiga séra Guðmund Helgason frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi. Athöfnin fór fram í Garðakirkju á Álftanesi. Grímur hélt ræðu í brúðkaupsveislunni og sagði að samanlagt væru brúðhjónin þrjár álnir (þ.e. sex fet) og af því væri brúðguminn fimm fet og ellefu þumlungar. Af því mætti ráða hve brúðurin væri há. [5]

Sögusagnir af Grími og hinni belgísku tunguBreyta

Grímur átti tal við háttsettan mann frá Belgíu. Sá fór að spyrja um ýmislegt frá Íslandi og meðal annars hvaða mál Íslendingar töluðu. Grímur svaraði því til að það væri íslenska, hin gamla norræna tunga Eddukvæðanna. , segir hinn, þið menntamennirnir. En hvaða mál talar skrílinn? Þá svaraði Grímur: Skríllinn. Hann talar auðvitað belgísku.

Nokkur af ritum GrímsBreyta

[11]

 • Grímur Thomsen (1842). Folk, Publikum, Offentlig Mening. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1842). Om den nyfranske Poesi. Kaupmannahöfn. Hlaut önnur verðlaun í samkeppni.
 • Grímur Thomsen (1845). Om Lord Byron. Kaupmannahöfn. Prófritgerð, metin sem doktorsritgerð með konungsúrskurði 1854.
 • Grímur Thomsen; (dulnefni:Bölverkur Skarphéðinsson) (1845). En Stemme fra Island i Runamosagen. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1846). Om Islands Stilling i det Övrige Skandinavien. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1848). Les garanties anglo-francaises. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1852). Tiberius og Philip II. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1859). Taushed og Offentlighed. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1859). Limburgs Forbundsforhold. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1862). Antydninger om Frihandelen. Kaupmannahöfn.
 • Grímur Thomsen (1969). Ljóðmæli. Mál og menning, Reykjavík. Fyrst gefin út af honum sjálfum 1880 og nokkrar útgáfur eftir það.
 • Grímur Thomsen; Andrés Björnsson þýddi (1975). Íslenskar bókmenntir og heimsskoðun. Menningarsjóður, Reykjavík.
 • Auk þess ýmsar greinar í blöðum og tímaritum.

ViðurkenningarBreyta

[11]

 • 1854 Dr. Phil.
 • 1860 Legationsráð, en afsalaði sér nafnbótinni 1871.
 • 1862 Riddari af Guelfaorðu
 • 1863 Riddari af Dannebrogsorðu
 • 1863 Kommandör af Leopoldsorðu Belga
 • 1864 Riddari af frönsku heiðursfylkingunni

TilvísanirBreyta

 1. Kristmundur Bjarnason (2008). Amtmaðurinn á Einbúasetrinu. Iðunn, Reykjavík. ISBN 9789979104674.
 2. * Bréf dómsmálastjórnarinnar til stiptamtmannsins yfir Íslandi, um lausn frá nafnbótum. Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands þriðja bindi 1. janúar 1875.
 3. 3,0 3,1 Kristmundur Bjarnason (2003). Lífsþorsti og leyndar ástir - Svipmyndir úr lífi Gríms Thomsen og nokkurra samferðamanna. Hólar, Akureyri. ISBN 9979776218.
 4. Fjaðrafok Stutt klausa um Grím Thomsen, Lesbók Morgunblaðsins 24. október 1954
 5. 5,0 5,1 Munnmælasaga frá börnum Ásmundar sonar Þóru Ásmundsdóttur og Guðmundar Helgasonar.
 6. Magdalene Thoresen á dönsku Wikipediu og til á fleiri tungumálum.
 7. Hans Conrad Thoresen á norskri bókmáls Wikipediu.
 8. * Æviágrip á heimasíðu Alþingis
 9. Fjölskylda og ættarleyndarmál Viðtal við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð í Tímariti Morgunblaðsins 7. desember 2003.
 10. Finnur Sigmundsson (1961). Konur skrifa bréf: sendibréf 1797–1907. Bókfellssútgáfan, Reykjavík.
 11. 11,0 11,1 Grímur Thomsen. Páll Eggert Ólafsson (ritstj.), Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940, bls. 105–106.

Heimildir og ítarefniBreyta

 • Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.
 • Aðalgeir Kristjánsson (ritstj.); Hjalti Snær Ægisson (ritstj.) (2011). Ekkert nýtt, nema veröldin: Bréfaskipti Gríms Thomsens og Brynjólfs Pérturssonar. Smárit Sögufélags, Reykjavík. ISBN 978-9979-9902-4-6.
 • Finnur Sigmundsson (ritstj.) (1946). Húsfreyjan á Bessastöðum: Bréf Ingibjargar Jónsdóttur til bróður síns Gríms amtmanns. Hlaðbúð, Reykjavík.
 • Finnur Sigmundsson (ritstj.) (1947). Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum: Bréf til Gríms Thomsen og varðandi hann 1838 til 1858. Hlaðbúð, Reykjavík.
 • Jón Þorkelsson. „Grímur Thomsen“. Merkir Íslendingar 1. bindi. Bókfellsútgáfan, 1947: bls. 332–358. .
 • Katrín Jakobsdóttir (ritstj.) (2005). Skáldlegur barnshugur: H.C. Andersen og Grímur Thomsen. Mál og menning, Reykjavík.
 • Kristján Jóhann Jónsson (2004). Kall tímans: um rannsóknir Gríms Thomsen á frönskum og enskum bókmenntum. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
 • Kristján Jóhann Jónsson (2014). Grímur Thomsen: Þjóðerni, skáldskapur, þversagnir og vald. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
 • Kristmundur Bjarnason (2003). Lífsþorsti og leyndar ástir - Svipmyndir úr lífi Gríms Thomsen og nokkurra samferðamanna. Hólar, Akureyri. ISBN 9979776218.
 • Thora Friðriksson. „Dr. Grímur Thomsen“. Merkir menn sem jeg hef þekkt. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík, 1944: . .

TenglarBreyta

Efni eftir GrímBreyta

Efni eftir aðraBreyta

 
Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist


Fyrirrennari:
Gunnlaugur Þórðarson
Ritstjóri Skírnis
(18461846)
Eftirmaður:
Gunnlaugur Þórðarson


   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.