Páll Ólafsson (fæddur 8. mars 1827, dáinn 23. desember 1905) var íslenskt skáld, eitt af höfuðskáldum 19. aldar og einkum þekktur fyrir ástarljóð og hestavísur.

Páll Ólafsson, blýantsteikning eftir Sigurð málara, gerð 1867.

Meðal þekktustu ljóða hans eru Lóan er komin[1] og Ó blessuð vertu sumarsól.

Æviágrip breyta

Páll fæddist á Dvergasteini við Seyðisfjörð þann 8. mars 1827 og dó 23. desember 1905. Foreldrar hans voru Ólafur Indriðason (1796 – 1861), síðar prestur á Kolfreyjustað og kona hans Þórunn Einarsdóttir (1793 – 1848).

Páll var tvíkvæntur: Fyrri kona hans (gift 3. júlí 1856), var Þórunn Pálsdóttir (1811 – 1880).

Seinni kona (gift 5. nóvember 1880) var Ragnhildur Björnsdóttir (5. nóvember 1843 – 5. júní 1918), frænka Þórunnar. Börn Páls og Ragnhildar voru Björn Skúlason (fæddur 1881), Björn (fæddur 1883), Sveinbjörn (fæddur 1885), Þormóður (fæddur 1886) og Bergljót (fædd 1887).

Páll stundaði heimanám hjá föður sínum og var svo við nám einn vetur hjá Sigurði Gunnarssyni alþingismanni í Vallanesi. Vorið 1855 varð hann ráðsmaður á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu hjá Þórunni Pálsdóttur, sem þá var ekkja. Hann gerðist bóndi þar 1856–1862, bjó að Höfða á Völlum 1862–1864, á Eyjólfsstöðum á Völlum 1864–1866, aftur á Hallfreðarstöðum 1866–1892 og loks á Nesi í Loðmundarfirði 1892–1900. Þá fluttist hann ásamt Ragnhildi konu sinni að Sigurðarstöðum á Sléttu til Guðrúnar systur hennar, síðar að Presthólum til séra Halldórs Björnssonar, bróður Ragnhildar, og vorið 1905 til Reykjavíkur.

Páll var umboðsmaður Skriðuklaustursjarða árin 1865–1896. Hann var alþingismaður Norðmýlinga árin 1867–1873, einnig 1874–1875, en sagði þá af sér þingmennsku.

Ljóðmæli breyta

Páll varð snemma landsþekktur fyrir snjallar og gamansamar lausavísur og mjög persónulega ljóðagerð og voru lausavísur hans á hvers manns vörum, enda voru yrkisefni hans og lífsviðhorf vaxin úr jarðvegi íslenskrar sveitamenningar. Þess vegna hefur hann oft verið talinn merkisberi hins fjölmenna hóps alþýðuskálda. Hallfreðarstaða og nágrennis er oft getið í ljóðum hans og stökum. Minnisvarði um Pál er í Hallfreðarstaðalandi. Einnig orti hann mörg hundruð ástarljóð til seinni konu sinnar, Ragnhildar, á 40 árum. Þau voru gift seinni hluta þess tíma og dró það síst úr hita ljóðanna, mörg sérstæðustu ástarljóð sín orti hann í ektastandi, eins og ljóðið Þögul nóttin þar sem hann yrkir um hvíta handleggi Ragnhildar. Fá ástarljóðanna voru gefin út um hans daga en þorri þeirra 66 árum eftir dauða hans.

Tónlist breyta

 
Hljómdiskur Ragnheiðar Ólafsdóttur og Þórarins Hjartarsonar með textum Páls Ólafssonar.

Ljóð Páls hafa verið sungin um allt land frá því að þau tóku að birtast á prenti, s.s. hestavísur hans og drykkjuvísur. Hver kannast ekki við Eg hef selt hann Yngra-Rauð og Ég hefi margan morgun vaknað. Þessir söngvar eru undir gömlum þjóðlögum. Auk þess hefur hann verið viðfangsefni tónskálda allt frá Inga T. Lárussyni (Gott áttu hrísla, Ó blessuð vertu sumarsól, Sólskríkjan mín situr þarna á sama steini o.fl.), til Hróðmars Inga, Heimis Sindrasonar og fleiri yngri tónskálda. Fjölmörg þessara laga hafa verið gefin út á hljómplötum og diskum og má nefna diskana Söng riddarans (Þórarinn Hjartarson og Ragnheiður Ólafsdóttir 2001) og Þögul nóttin (Felix Bergsson 2011) þar sem eingöngu eru textar eftir Pál. Einnig mætti nefna söngvasýninguna Lífsdagbók ástarskálds eftir Þórarinn Hjartarson.

Útgefnar bækur breyta

  • Ljóðmæli I-II. 1899-1900. (Jón Ólafsson gaf út).
  • Ljóðmæli. 1944. (Gunnar Gunnarsson gaf út).
  • Ljóð. 1955. (Páll Hermannsson valdi ljóðin).
  • Fundin ljóð. Reykjavík 1971. (Kristján Karlsson sá um útgáfuna).
  • Kvæði. Sigurborg Hilmarsdóttir sá um útgáfuna. Hafnarfirði 1984.
  • Eg skal kveða um eina þig alla mína daga. Salka, bókaútgáfa 2008 (Þórarinn Hjartarson sá um útgáfuna og ritaði inngang).

Heimildir breyta

  • Benedikt Gíslason frá Hofteigi, Páll Ólafsson skáld. Reykjavík 1956.
  • Björn Þorsteinsson, Gullregn úr ljóðum Páls Ólafssonar. Reykjavík 1961.
  • Guðni Jónsson frá Hrísey, Frá Páli Ólafssyni skáldi : Að vestan. 4 bindi. Akureyri 1955.
  • Sigurborg Hilmarsdóttir, Kvæði. Hafnarfirði 1984.
  • Þjóðskáldin : úrval úr bókmenntum 19. aldar. Reykjavík 1996, (2. útg. 1992).

Tilvísanir breyta

  1. „Lóan er komin“. Morgunblaðið. 28. mars 2018. Sótt 18. febrúar 2020.

Tenglar breyta

 
Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist