Sigurður Stefánsson
Sigurður Stefánsson (f. 27. mars 1744, d. 24. maí 1798) var biskup á Hólum frá 1789 til dauðadags, 1798, eða í 9 ár.
Foreldrar Sigurðar voru Stefán Ólafsson prestur á Höskuldsstöðum á Skagaströnd, og seinni kona hans Sigríður Sigurðardóttir frá Geitaskarði í Langadal. Sigurður var hálfbróðir Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns, sem Stephensens-ættin er kennd við.
Sigurður var tekinn í Hólaskóla 1758, varð stúdent þaðan vorið 1765. Fór utan sama ár, skráður í Kaupmannahafnarháskóla síðla hausts og tók guðfræðipróf þaðan vorið 1767. Hann varð konrektor eða aðstoðarskólameistari Hólaskóla 1768. Fékk Möðruvallaklaustursprestakall í Hörgárdal haustið 1773, og bjó í Stóra-Dunhaga; Helgafell vorið 1781 og varð um svipað leyti prófastur á Snæfellsnesi.
Sigurður var kvaddur til að verða Hólabiskup 27. mars 1788. Fór hann til Kaupmannahafnar um haustið og var vígður Hólabiskup 10. maí 1789. Kom að Hólum samsumars og var biskup þar til æviloka, 1798. Hann var góður kennari og ástsæll, enda góðviljaður maður. Hann var fremur heilsuveill og var því ekki atkvæðamikill biskup.
Framan af biskupstíð Sigurðar Stefánssonar lá prentun á Hólum niðri. Stafaði það bæði af bágbornu ástandi prentverksins, og einnig því að þá var komin samkeppni frá annarri prentsmiðju, fyrst í Hrappsey og síðan Leirárgörðum. Árið 1797 urðu þau umskipti að út komu fjórar bækur á Hólum, m.a. barnaspurningar í þýðingu Sigurðar biskups. Árið eftir kom 10. útgáfa Vídalínspostillu, og loks minningarritið Verdung Sigurðar Stefánssonar (1799) eftir Þorkel Ólafsson dómkirkjuprest. Var það síðasta bók sem prentuð var á Hólum.
Sigurður Stefánsson var síðasti biskup á Hólum. Árið 1801 (2. október) voru biskupsdæmin tvö sameinuð og varð Geir Vídalín þá biskup alls landsins. Sigurður hafði vígt Geir sem Skálholtsbiskup 30. júlí 1797, og fór sú athöfn fram í Hóladómkirkju. Aðsetur biskups Íslands var flutt til Reykjavíkur 1806.
Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar helstu skjalabækur úr embættistíð Sigurðar biskups. Í Hóladómkirkju var olíumálverk af Sigurði biskupi. Málverkið er nú í Þjóðminjasafni Íslands og eftirmynd þess á Hólum.
Kona Sigurðar Stefánssonar (gift 1771) var Guðríður Halldórsdóttir (f. um 1739, d. 1820), dóttir Halldórs Pálssonar prests á Knappsstöðum í Fljótum. Þau voru barnlaus.
Heimildir
breyta- Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár IV.
Fyrirrennari: Árni Þórarinsson |
|
Eftirmaður: enginn |