Fyrsta franska lýðveldið

Fyrsta franska lýðveldið, formlega nefnt la République française á frönsku, var lýðveldi sem var á dögum í Frakklandi frá september 1792 til maí 1804. Lýðveldið var stofnað í kjölfar frönsku byltingarinnar og kom í stað þingbundinnar konungsstjórnar sem var lögð niður þann 10. ágúst 1792 eftir fall Tuilerieshallar. Fyrsta franska lýðveldið spannaði öll núverandi yfirráðasvæði Frakklands, auk héraða hins heilaga rómverska ríkis vestan Rínarfljóts þar sem í dag eru Belgía, Lúxemborg og hluti Þýskalands.

Franska lýðveldið
République française
Fáni Frakklands Skjaldarmerki Frakklands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Liberté, égalité, fraternité ou la mort
(„Frelsi, jafnrétti, bræðralag eða dauðinn“)
Þjóðsöngur:
La Marseillaise[1]
Staðsetning Frakklands
Höfuðborg París
Opinbert tungumál Franska
Stjórnarfar 1792-1799 Lýðveldi
1799-1804 Herforingjastjórn

Forseti stjórnlagaþingsins
 -1792
 -1795

Philippe Rühl (fyrstur)
Jean Joseph Victor Génissieu (síðastur)
Fyrsti ræðismaður
 -1799–1804

Napóleon Bónaparte
Saga
 • Stofnun 22. september 1792 
 • Upplausn 18. maí 1804 
Flatarmál
 • Samtals

616.700 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1795)
 • Þéttleiki byggðar

28.103.000
46/km²
Gjaldmiðill Frönsk lýra (til 1794), franskur franki

Þann 21. september 1793 ákváðu fulltrúar franska stjórnlagaþingsins einróma að leysa upp franska konungdæmið[2]. Þótt stofnun lýðveldis hafi aldrei verið formlega lýst yfir hefur síðar verið miðað við þann 22. september 1792 sem upphaf fyrsta franska lýðveldisins. Þann 25. september 1792 var því lýst yfir að franska lýðveldið væri „eitt og órjúfanlegt“.[3] Frá 1792 til 1802 var Frakkland nánast óslitið í stríði við alla Evrópu. Auk þess var mikið um innanlandsátök, sérstaklega í Vendée-stríðunum svokölluðu.

Fyrsta lýðveldið skipti tvisvar sinnum um stjórnarfyrirkomulag og því má skipta sögu þess í þrennt:

  • Fyrst var stjórn stjórnlagaþingsins, frá 21. september 1792 til 26. október 1795. Þetta tímabil spannaði Ógnarstjórnina þar sem Velferðarnefndin undir stjórn Fjallbúahópsins fór með flest völd í Frakklandi (6. apríl 1793 – 27. júlí 1794). Frá og með 5. október 1793 var tekið upp nýtt lýðveldisdagatal í Frakklandi sem miðaði við stofnun lýðveldisins sem upphafsár. Þann 6. messidor árið I (24. júní 1793) kynntu yfirvöld nýja stjórnarskrá en hún var aldrei lögfest. Aftaka Robespierre þann 9. termidor árið II (26. júlí 1794) batt enda á Ógnarstjórnina.
  • Þjóðstjóraveldið (le Directoire) var sett á fót með stjórnarskrá ársins III. Fimm þjóðstjórar sátu við völd frá 26. október 1795 til 9. nóvember 1799.
  • Konsúlaveldið var við lýði frá 10. nóvember 1799 til 18. maí 1804. Það varð til með valdaráni Napóleons Bónaparte þann 18. brumaire og var lögfest með stjórnarskrá ársins VIII. Konsúlaveldið leið undir lok með stofnun fyrra franska keisaraveldisins þar sem Napóleon var lýstur keisari. Með stjórnarskrá ársins XII var því lýst yfir að stjórn lýðveldisins væri falin arfgengu keisaraembætti. Smám saman var alfarið hætt að tala um lýðveldi og þegar orðið var notað var einungis átt við tilvik þar sem viðhafðar voru atkvæðagreiðslur og aðrar kosningar.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. Mould, Michael (2011). The Routledge Dictionary of Cultural References in Modern French. New York: Taylor & Francis. bls. 147. Sótt 29. apríl 2018..
  2. Nicole Dockès, professeur émérite, agrégé des universités, et Annie Héritier, maître de conférences à la faculté de droit de l’université de Corse, Genèse de la notion juridique de patrimoine culturel - 1750-1816, 2003, p. 70.
  3. Nicole Dockès, professeur émérite, agrégé des universités, et Annie Héritier, maître de conférences à la faculté de droit de l’université de Corse, Genèse de la notion juridique de patrimoine culturel - 1750-1816, 2005, p. 71.
  4. Jean Bodin, Les Six Livres de la République, Lyon, 1580, lire en ligne.