Maximilien Robespierre

Franskur byltingarmaður og stjórnmálamaður (1758-1794)

Maximilien François Marie Isidore de Robespierre (6. maí 1758 – 28. júlí 1794) var franskur stjórnmálamaður og lögfræðingur. Hann var einn helstu leiðtoga frönsku byltingarinnar og er jafnframt einn umdeildasti þátttakandinn í byltingunni. Hann leiddi oft saklaust fólk sem hann taldi vera konunghollt eða ríkt undir fallöxina í aftöku.

Maximilien Robespierre
Mynd af Maximilien Robespierre eftir Pierre Roch Vigneron (1790).
Fæddur6. maí 1758
Dáinn28. júlí 1794 (36 ára)
DánarorsökHálshöggvinn
MenntunLycée Louis-le-Grand
Parísarháskóli
StörfLögfræðingur, stjórnmálamaður
TrúKaþólskur
Undirskrift

Æviágrip breyta

Maximilien Robespierre var elstur fimm barna og missti móður sína þegar hann var sex ára. Faðir hans yfirgaf son sinn í kjölfarið og skildi hann eftir í umsjá móðurafa síns. Eftir framúrskarandi námsárangur í háskólanum í Arras og Louis-le-Grand-háskólanum í París varð Robespierre löggiltur lögfræðingur árið 1781 og gerðist meðlimur í héraðsráði Artois.

Robespierre var kjörinn fulltrúi Tiers á stéttaþinginu árið 1789 og varð brátt einna fremstur í flokki lýðræðissinna á stjórnlagaþinginu. Þar barðist hann gegn dauðarefsingu og þrælahaldi og fyrir almennum kosningarétti karla og jafnrétti óháð kynþætti. Óbilgirni hans leiddi brátt til þess að honum var gefið gælunafnið „hinn óspillanlegi“ („l'incorruptible“). Hann var frá upphafi meðlimur í Jakobínaklúbbnum og varð einn áhrifamesti maðurinn í þeirra röðum. Eftir að klofningur varð meðal Jakobínanna tókst Robespierre að endurskipuleggja samtökin og halda stuðningi flestra samfélaga í héraði sínu.

Þrátt fyrir að hafa í upphafi verið á móti dauðarefsingum átti Robespierre mikilvægan þátt í aftöku Loðvíks 16. í nafni þess að hægt yrði að stofna franskt lýðveldi.

Robespierre var á móti stríði Frakka við Austurríki árið 1792 og óskaði eftir afnámi konungsveldisins. Hann var meðlimur í stjórninni sem mynduð var í París eftir fall Bastillunnar og var kjörinn á stjórnlagaþingið, þar sem hann sat sem hluti af „Fjallbúahópnum“ (Montagnard) í andstöðu við Gírondína. Eftir að Gírondínum var rutt úr vegi í uppreisninni 31. maí - 2. júní 1793 gerðist Robespierre meðlimur í Velferðarnefndinni („Comité de salut public“) sem bandamaður hans, Georges Danton, stofnaði. Þar tók hann þátt í stofnun byltingarstjórnar og í því að skipuleggja Ógnarstjórnina. Ógnarstjórnin var réttlætt með þeim hætti að stríðsástand ríkti gagnvart konungssinnum og andófsmönnum meðal byltingarsinna.

Vorið 1794 létu Robespierre og félagar hans í Velferðarnefndinni handtaka og hálshöggva fjölmarga pólitíska andstæðinga sína. Þar á meðal var Danton hálshöggvinn vegna ásakana um spillingu og tengsl við óvini Frakklands. Robespierre stóð að því að hægt var á „afkristnun“ Frakklands og atkvæði greidd um að franska þjóðin viðurkenndi tilvist „æðri veru.“

Óvinir Robespierre, sér í lagi gamlir fylgismenn Dantons, náðu brátt að einangra hann á byltingarþinginu. Að lokum var hann handtekinn ásamt Augustin bróður sínum og fleiri fylgismönnum. Þann 28. júlí 1794 var Robespierre hálshöggvinn með fallöxi ásamt tuttugu og einum samstarfsmanni sínum.

Orðspor breyta

Robespierre er án efa umdeildasta persóna frönsku byltingarinnar og er þá sérstaklega deilt um það að hve miklu leyti hann hafi verið persónulega ábyrgur fyrir ofstæki Ógnarstjórnarinnar. Gagnrýnendur hans leggja áherslu á hlutverk hans í Ógnarstjórninni og einræðistilburði Velferðarnefndarinnar. Aðrir telja að Robespierre hafi reynt að hafa hemil á Ógnarstjórninni og að hann hafi framar öllu verið málsvari friðar, beins lýðræðis, réttinda fátækra og heilinn á bak við fyrsta afnám þrælahalds í Frakklandi. Hinir síðarnefndu benda einnig á að eftir aftöku Robespierre hafi öllum aðgerðum til að berjast gegn fátækt í fyrsta franska lýðveldinu verið snarhætt.

Orðstír Robespierre hefur verið endurmetinn nokkrum sinnum. Á tímum Sovétríkjanna þótti hann gott dæmi um hugrakkan byltingarmann. Á þriðja áratug tuttugustu aldar fór gott orð af honum vegna rannsókna franska sagnfræðingsins Albert Mathiez. Orðstír hans hefur aftur beðið hnekki á seinni tímum og er nú yfirleitt litið á Robespierre sem pólitískan hreinsunarmann sem beitti ofbeldi til að skapa rými fyrir pólitíska rétttrúnaðarstefnu.

Heimild breyta