Frjálslyndi flokkurinn (Ísland, 1998–2012)

Frjálslyndi flokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 1998, hann fékk tvo þingmenn í kosningunum 1999, fjóra í kosningunum 2003 og 2007 en fékk ekki fulltrúa í kosningunum 2009. Flokkurinn er nú óvirkur.

Frjálslyndi flokkurinn
Merki Frjálslynda flokksins
Merki Frjálslynda flokksins
Fylgi 2,2%¹
Formaður Sigurjón Þórðarson
Varaformaður Ásta Hafberg
Ritari Hanna Birna Jóhannsdóttir
Framkvæmdastjóri Magnús Reynir Guðmundsson
Stofnár 1998
Höfuðstöðvar Skúlatún 4, 2 hæð. 101 Reykjavík
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Frjálslyndisstefna[1]
Einkennislitur ljósblár
Vefsíða www.xf.is
¹Fylgi á síðustu Alþingiskosningum 2009
Tveir aðrir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa heitið Frjálslyndi flokkurinn: Frjálslyndi flokkurinn (1) (1926-1929) og Frjálslyndi flokkurinn (2) (1973-1974).

Meginstefnumál flokksins var barátta fyrir breytingum á núverandi kvótakerfi í stjórnun fiskveiða við Ísland en einnig áherslur á að setja hömlur á flæði innflytjenda inn í landið. Helsta vígi Frjálslynda flokksins var á Vestfjörðum sem eru hluti Norðvesturkjördæmis. Flokkurinn sótti fylgi út um allt land.

Saga breyta

Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður af Sverri Hermannssyni, fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins og bankastjóra Landsbankans, í nóvember 1998. Meðal helstu baráttumála var að breyta fiskveiðistjórn, umhverfisvernd, sér í lagi á hálendi Íslands og að varðveita velferðarkerfið.[2] Að undirbúningi að stofnun flokksins komu samtökin Samtök um þjóðareign, helstu baráttumál þeirra samtaka var að útgerðarmenn í íslenskum sjávarútveg þyrftu að greiða fyrir aflaheimildir til ríkissjóðs.[3] Uppúr samstarfi Sverris og Samtaka um þjóðareign slitnaði þó og stofnuðu framamenn innan samtakanna stjórnmálaflokkinn Frjálslynda lýðræðisflokkinn um sömu mundir.[4]

Fyrsta landsþing flokksins var haldið í Reykjavík í janúar 1999 og á það mættu á fjórða hundrað manns. Sverrir Hermannsson var kosinn formaður með 183 atkvæðum, Gunnar Ingi Gunnarsson varaformaður með 167 atkvæðum og Margrét Sverrisdóttir, dóttir Sverris Hermannsssonar, var kosin ritari flokksins. Meðal tillagna á þinginu var að Ísland yrði gert að einu kjördæmi og að þingmönnum yrði fækkað í 51.[5]

Í fyrstu Alþingiskosningum sínum árið 1999 fékk Frjálslyndi flokkurinn 4,2% og tvo menn kjörna á Alþingi. Flokkurinn fékk langmesta fylgi sitt á Vestfjörðum eða 17,7% í öðrum kjördæmum fór fylgið hvergi yfir 5%.[6] Eftir að niðurstöður kosninganna voru ljósar sagði Sverrir Hermannsson að flokkurinn hefði unnið „málfrelsissigur“ þar sem fjölmiðlar, og þá sér í lagi Morgunblaðið hefðu lagt sitt af mörkunum til „að drepa á dreif aðalmáli kosninganna“ en með því átti hann við baráttu flokksins fyrir breyttu kvótakerfi.[7] Í Alþingiskosningunum 2003 jók flokkurinn fylgi sitt í 7,4% og fékk fjóra þingmenn. Ekki munaði nema 13 atkvæðum að flokkurinn fengi einn þingmann til. Í Alþingiskosningunum 2007 fékk flokkurinn aðeins lægra fylgi, 7,26% en hélt fjórum þingmönnum. Mikil innanflokksátök einkenndu flokkinn kjörtímabilið 2007-2009 og tveir af fjórum þingmönnum flokksins gengu úr honum. Í kosningunum 2009 beið flokkurinn afhroð, datt af þingi og hlaut aðeins 2,2% atkvæða.

Frjálslyndi flokkurinn bauð fram í Reykjavík og á Ísafirði í sveitastjórnarkosningunum 2002. Flokkurinn fékk 10,1% atkvæða í Reykjavík og einn fulltrúa, Ólaf F. Magnússon. Í Ísafjarðarbæ fékk flokkurinn 13,4% atkvæða og einn fulltrúa sömuleiðis.

Flokkurinn bauð ekki fram í kosningunum 2013 og 2016 og hefur ekki verið virkur síðan um það bil 2010. Á árinu 2012 bárust fréttir af því að Frjálslyndi flokkurinn væri skuldugur.[8] Fólk innan flokksins gekk í stjórnmálasamtökin Dögun árið 2012 þannig að flokkurinn er óvirkur eða hefur verið aflagður þó ekki hafi komið opinber yfirlýsing þess efnis. [9]

Formenn breyta

Formaður Kjörinn Hætti
Sverrir Hermannsson 1998 2003
Guðjón Arnar Kristjánsson 2003 2010
Sigurjón Þórðarson 2010 2012

Varaformenn breyta

Varaformaður Kjörinn Hætti
Gunnar Ingi Gunnarsson 1998 2003
Magnús Þór Hafsteinsson 2003 2009
Ásgerður Jóna Flosadóttir 2009 2009
Kolbrún Stefánsdóttir 2009 2010
Ásta Hafberg 2010 2012

Tilvísanir breyta

  1. Frjálslyndi flokkurinn - Stjórnmálayfirlýsing, samþykkt á Landsþingi Frjálslynda flokksins 26. – 27. janúar 2007.
  2. „Orðsending til kjósenda“. Morgunblaðið. 21. nóvember 1998.
  3. „Tekur tvö ár að komast út úr núverandi kerfi“. Morgunblaðið. 25. september 1998.
  4. „Stefnt að framboði í öllum kjördæmum“. Morgunblaðið. 28. nóvember 1998.
  5. „Öllum auðlindum verði skilað til þjóðarinnar“. Morgunblaðið. 24. janúar 1999.
  6. „Úrslit Alþingiskosninga 1999“. Morgunblaðið. 11. maí 1999.
  7. „Gagnrýnir skrif Morgunblaðsins“. Morgunblaðið. 11. maí 1999.
  8. „Frjálslyndir vilja fé frá borginni“. Vísir.is. 19. janúar 2012.
  9. Dögun skal hún heita Rúv. Skoðað 13. okt. 2016

Tengill breyta

   Þessi stjórnmálagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.