Ólafur F. Magnússon

Ólafur Friðrik Magnússon (f. 3. ágúst 1952 á Akureyri) er fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík. Hann gegndi embættinu í 210 daga, frá 24. janúar til 21. ágúst 2008.

Ólafur lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1978 og sérfræðinámi í heimilislækningum 1984 frá háskóla í Svíþjóð.

Stjórnmálaferill

breyta

Ólafur starfaði í borgarstjórn í tvo áratugi, 1990-2010, fyrst sem varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en 1998 var hann kjörinn einn af aðalborgarfulltrúum flokksins.[1] Árið 2001 urðu árekstrar á milli Ólafs og annarra flokksmanna í umhverfismálum en hann var andvígur virkjana- og stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi. Á landsfundi flokksins í október bar hann upp tillögu um að hætt yrði við framkvæmdir við Kárahnjúka og að tryggt yrði að orkuauðlindir lentu ekki í höndum einkaaðila.[2] Tillagan hlaut mjög dræmar undirtektir og var Ólafur við þetta tækifæri kallaður „hryðjuverkamaður“.[3] Í desember sagði hann sig úr Sjálfstæðisflokknum og sat út kjörtímabilið sem óháður borgarfulltrúi.[4]

Ólafur var kjörinn borgarfulltrúi af lista Frjálslyndra og óháðra (F-listanum) í sveitarstjórnarkosningum 2002 og aftur 2006. F-listinn hafði þá sérstöðu að vera alfarið á móti flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri. Eftir kosningarnar 2006 tóku við skammvinnar meirihlutaviðræður Ólafs við fyrrverandi samherja sína í Sjálfstæðisflokknum en þær báru ekki árangur.[5].[6]

Ólafur var í veikindaleyfi haustið 2007 þegar svokallað REI-mál kom upp og sprengdi þáverandi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðismanna. Fyrsti varamaður F-listans, Margrét Sverrisdóttir, myndaði þá nýjan meirihluta með Framsókn, Samfylkingu og Vinstri-grænum. Ólafur sneri aftur í desember og tók þá við embætti forseta borgarstjórnar af Margréti. Athygli vakti að hann var látinn skila læknisvottorði við endurkomuna enda sjaldgæft að þess sé krafist af kjörnum fulltrúum.[7]

Þann 21. janúar 2008 tilkynnti Ólafur ásamt borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins að þeir hefðu náð saman um myndun nýs meirihluta. Ólafur sagði ástæðuna fyrir slitum gamla meirihlutans þá að F-listinn hefði átt erfitt með að koma sínum áherslumálum að í fjögurra flokka samstarfinu. Stefnumál hins nýja meirihluta eru m.a. að varðveita „19. aldar götumynd“ í miðborginni og festa flugvöllinn í sessi í aðalskipulagi og taka enga ákvörðun um flutning hans á kjörtímabilinu.[8] Ólafur var kjörinn borgarstjóri á fundi borgarstjórnar 24. janúar 2008 við hávær mótmæli áhorfenda. Gera þurfti hlé á fundinum vegna látanna á meðan áhorfendapallar voru rýmdir.[9].

Áætlað var að Ólafur yrði borgarstjóri þangað til 22. mars 2009 og að þá myndi Hanna Birna Kristjánsdóttir leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, taka við. Deilur milli aðila urðu til þess að sjálfstæðismenn slitu meirihlutasamstarfinu við Ólaf og F-listann 14. ágúst 2008, eftir 203 daga við völd.[10]

Við borgarstjórnarkosningarnar 2010 leiddi Ólafur H-lista, framboðs um heiðarleika. Það fékk 668 atkvæði eða um 1,1%. Hann náði því ekki endurkjöri.

Tónlist

breyta

Árið 2016 gaf Ólafur út plötuna Ég elska lífið. Meðal gestasöngvara er Páll Rósinkranz [11]

Heimildir

breyta

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. „Ferill Ólafs F. Magnússonar“. Reykjavíkurborg.
  2. „Ríkisútvarpinu breytt í hlutafélag, en sölu hafnað“. Morgunblaðið. 16. október 2001.
  3. Björn Bjarnason (14. október 2001). „Lokadagur landsfundar“.
  4. „Borgarfulltrúi segir sig úr Sjálfstæðisflokknum“. Morgunblaðið. 21. desember 2001.
  5. „Ólafur segir sendiboða frá Vilhjálmi hafa komið til sín á kjördag“. Morgunblaðið. 29. maí 2006.
  6. „Viðtal við Ólaf F. í Silfri Egils (myndband)“. Ríkisútvarpið. 2. desember 2007.
  7. „Ólafur F. látinn skila vottorði“. 24 stundir. 30. nóvember 2007.
  8. „F-listi og D-listi í samstarf“. Morgunblaðið. 21. janúar 2008.
  9. „Troðfullir pallar í Ráðhúsinu og púað á nýjan meirihluta“. 24. janúar 2008.
  10. „Sjálfstæðismenn kosnir í helstu embætti borgarinnar“. Vísir. 24. janúar 2008. Sótt 27. janúar 2008.
  11. Ég elska lífið Icelandismusic. Skoðað 4. september, 2016.


Fyrirrennari:
Dagur B. Eggertsson
Borgarstjóri Reykjavíkur
(24. janúar 200821. ágúst 2008)
Eftirmaður:
Hanna Birna Kristjánsdóttir


   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.