Sagnorð eða sagnir (skammstafað sem so.) eru orð sem lýsa atburðum. Þegar sögn er tiltekin ein og sér er nafnháttarmerkið oft haft á undan henni og endar hún þá ofast á -a (að lesa, að skrifa, að syngja). Þetta kallast nafnháttur sagnarinnar. Þá hafa sagnir í íslensku sterka, veika og blandaða beygingu. Sagnir hafa þrjú einkenni:

  • Merkingarleg einkenni: Sagnir tákna það sem gerist eða það sem gerðist; og því er oft sagt að þær lýsi atburðum. Þær geta líka táknað ástand frekar en atburð og lýsa því sem er eða var.
    Bollinn datt á gólfið.
    Drengurinn svaf lengi.
  • Setningarleg einkenni: Sumar sagnir taka með sér fallorð og stjórna falli á því. Þær kallast áhrifssagnir.
    Ég drep fuglinn.
    Hann borðaði gulrót.
  • Beygingarleg einkenni: Sagnir beygjast í tíð[1] (ég les, ég las), persónu[1] (hann les, þú lest), tölu (ég les, við lesum), hætti[1] og þremur myndum (germynd, miðmynd og þolmynd).

Nafnháttur

breyta

Sagnir í nafnhætti enda oftast á -a:

  • að lesa
  • að skrifa
  • að skoða
  • að elska
  • að hoppa
  • að vona

en í nokkrum sögnum hefur -a fallið á brott eftir :

  • að spá
  • að sjá
  • að fá

Einnig eru til miðmyndarsagnir sem enda á -st:

  • að elskast
  • að stelast
  • að lengjast

Aðeins tvær sagnir enda á -u og eru þær báðar núþálegar (nafnháttarmerkið ‚að‘ er ekki notað með þeim):

  • munu
  • skulu

aðeins ein endar á -e:

  • að ske

og aðeins ein endar á -o:

  • að þvo


Persónur og tölur sagna

breyta

Íslensk sögn í persónuhætti stendur ýmist í fyrstu, annarri eða þriðju persónu, eintölu eða fleirtölu. Ég, við, vér (1. persónufornafn í nefnifalli) hefur með sér sögn í fyrstu persónu. Þú, þið, þér (2. persónufornafn í nefnifalli) hefur með sér sögn í annarri persónu. Hann, hún, það, þeir, þær, þau (3. persónufornafn í nefnifalli) og önnur fallorð, t.d. nafnorð, hafa með sér sögn í þriðju persónu. Dæmi:

  • 1. pers. et.: Ég skrifa
  • 1. pers. ft.: Við skrifum
  • 2. pers. et.: Þú skrifar
  • 2. pers. ft.: Þið skrifið
  • 3. pers. et.: Hann/hún/það skrifar
  • 3. pers. ft.: Þeir/þær/þau skrifa

Í 3. pers. et. enda allar sagnir á -r. Þessi ending er upprunalegust í þýsku og hollensku af nútíðarmálunum enda er sama ending í latínu og öðrum fjölskyldum. Í ensku hefur -t orðið að -s enda enda ekki óalgeng þróun, og síðan -s að -r í dönsku & íslensku. Að stökkva frá -t til -r má teljast ólíklegt. Endingar 1. & 2. persónu fleirtölu eru vísast einskonar gamlar viðskeitingar sbr, farðu, sjáðu, sbr. öll aukaföllin af 1. persónu persónufornafninu og að fleirtöluform 1.p. persónufornafnins hefst á -m í öllum málum austur af Þýskalandi, hvort heldur sem er finska eða ungverska eða slavnesku málum, í ítölsku breyttist -m í -n sbr. noi en í þýsku málunum í -v. Sumar sagnir eru aðeins notaðar í þriðju persónu eintölu. Þær beygjast ekki eftir persónum en skýra aðeins frá því að eitthvað eigi sér stað, án þess að getið sé hver valdi því. Kallast slíkar sagnir ópersónulegar. Þessar sagnir eru margvíslegar en oft tákna þær veðurfar, komu dagstíma og árstíma, ástand eða líðan o.fl. Dæmi; snjóar, rignir, hitnar, kólnar, dagar, kvöldar, vorar, haustar, hungrar, þyrstir, batnar, versnar.

Fallorð fyrstu, annarrar eða þriðju persónu í aukafalli stendur oft með ópersónulegri sögn en ákveður þó ekki persónuna. Sögnin batnar er t.d. óbreytt hvort sem fyrir framan hana stendur mér, þér, okkur, ykkur o.s.frv. Þetta er vegna þess að fallorð í aukafalli ákveður aldrei persónu sagnar.

Ýmsar sagnir eru ýmist persónulegar eða ópersónulegar og veltur það á merkingunni hvort heldur er. Dæmi; sögnin að minna er persónuleg þegar hún merkir að minna einhvern á eitthvað en ópersónuleg er hún þegar hún merkir að minnast einhvers, ráma í eitthvað:

Persónuleg Ópersónuleg
Ég minni á loforðið 1. pers. et Mig minnir þetta 3. pers. et.
Við minnum á loforðið 1. pers. ft. Þig minnir þetta 3. pers. et.
Þú minnir hana á loforðið 2. pers. et. Hann minnir þetta 3. pers. et.
Þið minnið hana á loforðið 2. pers. ft Okkur minnir þetta 3. pers. et.
Hann minnir hana á loforðið 3. pers. et. Ykkur minnir þetta 3. pers. et.
Þeir/þær/þau minnið hana á loforðið 3. pers. ft. Þá/þær/þau minnir þetta 3. pers. et.

Ópersónulega sögnin breytist ekki; er ávallt eins og 3. persóna eintölu persónulegu sagnarinnar. Meðal annarra sagna sem eru ýmis persónulegar eða ópersónulegar má nefna; bera, fjölga, fækka, leggja, reka.

Nokkrar ópersónulegar sagnir hafa fallorð í þolfalli: mig dreymir, fýsir, grunar, hungrar, langar, lystir, skortir, vantar, verkjar, þyrstir. Einhverjir hafa tilhneigingu til notkunar þágufalls með þessum sögnum, t.d. „?mér langar“, og er sú tilhneiging kölluð þágufallssýki. Þykir hún ekki til eftirbreytni. Ekki er ólíklegt að þessi „sýki“ stafi af því að nokkrar sagnir hafa fallorð í þágufalli; mér batnar, þykir, líkar, líður, gagnar, dugir, sem getur valdið ruglingi.

Sagnirnar hlakka (til) og kvíða eru persónulegar og ráðast því af nefnifalli; ég hlakka til, við kvíðum fyrir. Forðast ætti notkun aukafalla með þessum sögnum.

Ending íslenskra sagnorða

breyta

Í nafnhætti er oftast notað -a með nokkrum undantekningum (þvo, frá þváa, ske - tökuorð, fá, flá, gá, lá, ná, sjá, má, afmá, sá, slá, spá, tjá, há, hrjá, þrá,) og miðmyndarsagnir í nútíma íslensku enda á -st.

Áhrifssagnir og áhrifslausar sagnir

breyta

Sagnir greinast í áhrifssagnir (áhrs.) og áhrifslausar sagnir (áhrl. s.).

Áhrifssögn

breyta

Sögn sem stýrir falli er fallvaldur og kallast sú sögn áhrifssögn. Áhrifssagnir valda því að fallorð sem þær stýra standa í aukafalli. Fallorðið sem stendur með áhrifssögninni kallast andlag.

Áhrifssagnir skipt eftir hvaða falli þær stýra

breyta

Sumar sagnir stýra aðeins einu falli (ekki tæmandi):

  • Sagnir sem stjórna þolfalli:
    eignast, fela, kaupa, nota
  • Sagnir sem stjórna þágufalli:
    gleyma, henda, nenna, stela
  • Sagnir sem stjórna eignarfalli
    bíða, sakna, spyrja, vænta

Sumar sagnir stýra tveimur fallorðum eins og í setningunni „maðurinn gefur kettinum (þgf.) fisk (þf.)“ kallast tvígildar áhrifssagnir (eða tveggja andlaga sögn). Þessi upptalning er ekki tæmandi:

Áhrifslaus sögn

breyta

Sögn sem ekki stýrir falli kallast áhrifslaus sögn eins og vera, verða, heita og þykja. Orðin sem með þeim standa kallast sagnfyllingar. Þessi fallorð geta verið nafnorð eða lýsingarorð.

Orsakarsagnir

breyta

Orsakarsögn er ný sögn sem má mynda af annarri kennimynd margra sterkra sagna. Orsakarsögn hefur ekki sömu merkingu og sögnin sem hún er mynduð af, en þær eru oft merkingarlega skyldar. Orsakarsögn hefur alltaf veika beygingu og oft á sér stað i-hljóðvarp við myndun hennar.

Fyrsta kennimynd Önnur kennimynd Þriðja kennimynd Fjórða kennimynd
nafnháttur fyrsta persóna eintala þátíð framsöguháttur fyrsta persóna fleirtala þátíð framsöguháttur lýsingarháttur þátíðar
brjóta Ég braut Við brutum Ég hef brotið
fara Ég fór Við fórum Ég hef farið

Af annari kennimynd sagnarinnar „að brjóta“ sem er „ég braut“ má draga orðið „að breyta“. Það að „au“ breytist í „ey“ kallast i-hljóðvarp. Af annari kennimynd sagnarinnar „að fara“ sem er „ég fór“ má draga orðið „að færa“. Það að „ó“ breytist í „æ“ kallast líka i-hljóðvarp.

Fyrsta kennimynd Önnur kennimynd Þriðja kennimynd
nafnháttur fyrsta persóna eintala þátíð framsöguháttur lýsingarháttur þátíðar
breyta Ég breytti Ég hef breytt
færa Ég færði Ég hef fært

Orsakarsagnir má mynda af eftirfarandi sögnum; rísa, líta, sitja, þrífa, sleppa, drekka, sjóða, fljóta, rjúka, spretta, hníga.

Sjálfstæðar og ósjálfstæðar sagnir

breyta

Sögn er sjálfstæð þegar hún segir fulla hugsun ásamt því orði sem ákveður persónu hennar, t.d. maðurinn hlær. Annars er sögnin ósjálfstæð, t.d. maðurinn heitir...

Áhrifslausar, ósjálfstæðar sagnir eru fáar:

  • Í germynd; vera, verða, heita, þykja.
  • Í miðmynd; nefnast, kallast, reynast, sýnast, virðast.
  • Í þolmynd; vera nefndur, vera kallaður, vera talinn, vera sagður, vera álitinn o.fl.

Tíðir sagna

breyta

Tíðir sagna eru tvær. Nútíð og þátíð.  Þar að auki er hægt að nota hjálparsagnirnar  hafa og munu og mynda sex samsettar tíðir sagna. Nútíð á við um eitthvað sem er ekki liðið. Þátíð á við um eitthvað sem er liðið.

Dæmi:

  • Nútíð: Ég tala.
  • Þátíð: Ég talaði.
  • Núliðin tíð: Ég hef talað.
  • Þáliðin tíð: Ég hafði talað.
  • Framtíð: Ég mun tala.
  • Þáframtíð: Ég mun hafa talað.
  • Skildagatíð: Ég myndi tala.
  • Þáskildagatíð: Ég myndi hafa talað.

Sjá einnig

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 Hugtakaskýringar - Málfræði

Heimildir

breyta
  • Bjarni Ólafsson (1995). Íslenskur málfræðilykill. Mál og menning. ISBN 9979-3-0874-5.
  • Björn Guðfinnson (án árs). Íslensk málfræði. Námsgagnastofnun.

Tengt efni

breyta