Elizabeth Holmes

Bandarískur frumkvöðull og dæmdur fjársvikari

Elizabeth Anne Holmes (f. 3. febrúar 1984) er bandarísk athafnakona, fyrrverandi frumkvöðull í líftæknigeiranum og dæmdur fjársvikari. Holmes var framkvæmdastjóri heilbrigðistæknifyrirtækisins Theranos, sem hún stofnaði þegar hún var nítján ára gömul. Andvirði Theranos rauk upp í marga milljarða Bandaríkjadala eftir að fyrirtækið tilkynnti að það hefði þróað búnað sem átti að geta framkvæmt blóðprufur með aðeins fáeinum blóðdropum sem hægt væri að taka með nál í fingur.

Elizabeth Holmes
Elizabeth Holmes árið 2014.
Fædd3. febrúar 1984 (1984-02-03) (40 ára)
ÞjóðerniBandarísk
MenntunStanford-háskóli (óútskrifuð)
StörfFrumkvöðull
Þekkt fyrirAð stofna Theranos og fyrir að stunda umfangsmikla svikastarfsemi
MakiBilly Evans (g. 2019)
Börn2

Árið 2015 taldi tímaritið Forbes Holmes yngsta og auðugasta „sjálfskapaða“ kvenkyns milljarðamæring í Bandaríkjunum. Næsta ár fóru hins vegar að koma fram ábendingar um að fyrirtækið hefði sagt fjárfestum ósatt um það hvað nýi blóðprufubúnaðurinn gat gert og hve langt þróun hans var komin. Þetta leiddi til þess að mat á andvirði Theranos hríðféll og Holmes var ákærð fyrir fjársvik. Holmes var að endingu sakfelld vegna stórfelldra fjársvika árið 2022 og dæmd í rúmlega ellefu ára fangelsi.

Æviágrip breyta

Elizabeth Holmes fæddist þann 3. febrúar árið 1984 í Washington, D.C. en ólst að mestu upp í Houston í Texas. Foreldrar hennar voru hjónin Noel Anne Daoust og Christian Holmes IV, sem starfaði meðal annars sem aðstoðarforstjóri hjá orkufyrirtækinu Enron. Hann vann hjá ýmsum bandarískum ríkisstofnunum eftir að Enron fór í þrot vegna fjármálahneyksla stuttu eftir aldamótin.[1]

Þegar Holmes var unglingur lærði hún kínversku og komst inn í sumarnámskeið hjá Stanford-háskóla sem meðal annars fól í sér að hún fékk að ferðast til Beijing. Holmes hóf nám í efnaverkfræði en hætti í námi í Stanford-háskóla þegar hún var nítján ára og stofnaði líf­tækni­fyr­ir­tækiið Theranos.[1]

Uppgangur og fall Theranos breyta

Fyrstu tíu árin fór lítið fyrir rekstri Theranos. Einn af þeim fyrstu sem hjálpuðu Holmes að hleypa fyrirtækinu af stokkunum var Channing Robertson, prófessor í efnaverkfræði við Stanford-háskóla. Hún hafði leitað til hans til að fá hjálp við að stofna fyrirtæki í kringum hugmynd sína að þróun nýs plásturs sem átti að geta gefið sjúklingum sýklalyf, greint blóð þeirra og þannig lagað lyfjaskammta að þörfum þeirra.[1]

Á næstu árum tókst Holmes að fá marga valdamikla fjárfesta og stjórnmálamenn til að fjárfesta í Theranos eða sitja í stjórn þess, meðal annars fjölmiðlajöfurinn Rupert Murdoch, ræknirisann Larry Elli­­son, fyrrverandi utanríkisráðherrana Henry Kissinger og George Shultz og fyrrum varnarmálaráðherrann James Mattis.[1][2]

Árið 2013 gerði Theranos samning við bandarísku apótekakeðjuna Walgreens um opnun heilbrigðisstöðva Theranos í 42 útibúum Walgreens í Phoenix, Kaliforníu og Pennsylvaníu. Á stöðvunum átti fólki að bjóðast að fara í ódýrar blóðprufur með aðeins fáeinum blóðdropum sem voru síðan sendir til greiningar hjá Theranos.[1]

Holmes var á þessum tíma farin að markaðssetja byltingarkennda nýja tækni, hið svokallaða Edison-tæki, til þess að framkvæma blóðprufur með aðeins örlitlu magni af blóði. Síðari rannsóknir fjölmiðla benda hins vegar til þess að Theranos hafi aldrei verið nærri því að þróa tækni sem komst nærri því að geta gert þetta.[2] Erfitt reyndist fyrir Theranos að greina blóðsýnin frá útibúum Walgreens rétt með Edison-tækjunum og því fóru starfsmenn fyrirtækisins brátt að greina sýnin á hefðbundinn hátt í tækjum sem keypt voru frá öðrum fyrirtækjum.[1]

Frægðarsól Holmes reis hæst árið 2014, þegar hún birtist á forsíðu tímaritsins Fortune og var víða líkt við tæknifrumkvöðla á borð við Steve Jobs og Bill Gates.[1] Í mars árið 2015 var auður Holmes metinn upp á 606 milljarða íslenskra króna í lista Forbes yfir ríkasta fólk í heimi. Hún var þá metin yngsti kvenkyns milljarðamæringurinn sem hefði skapað auð sinn upp á eigin spýtur.[3]

Síðar á árinu 2015 steig uppljóstrari fram innan Theranos og sagðist efast um greiningartækni fyrirtækisins.[4] Í kjölfarið birti The Wall Street Journal ítarlegar fréttaskýringar þar sem greint var frá því að Edison-vél Theranos byggði í raun á tækni og tækjum sem þegar væru aðgengileg á markaði.[2] Í grein eftir John Carreyrou var upplýst um að Edison-tækið hafi aðeins getað framkvæmt blóðprufur á fimmtán af 240 sýnum sem Theranos auglýsti. Í viðtölum við starfsfólk Theranos í greininni var Holmes jafnframt sökuð um að hafa ekki sinnt upplýsingaskyldu um ónákvæmni í greiningunum og um að hafa beitt blekkingum til að fá leyfi til að gera blóðprufur.[1]

Grein Carreyrou og frekari uppljóstranir um Theranos á næstu mánuðum leiddu til þess að andvirði Theranos hríðféll. Árið 2016 endurmat Forbes auðæfi Holmes og taldi hana nú núll dollara virði. Walgreens sleit samstarfi sínu við Theranos stuttu síðar og fyrirtækið var svipt leyfi til að reka rannsóknarstofur. Í nóvember 2016 höfðaði Walgreens mál gegn Holmes sem lauk með því að Holmes greiddi þeim sekt utan dómstóla næsta ár.[1]

Starfsleyfi Theranos var afturkallað árið 2016 og fyrirtækið var leyst upp tveimur árum síðar. Í júní 2018 var Holmes handtekin og ákærð fyrir að hafa svikið fjárfesta Theranos um 945 millj­­ónir doll­­ara, eða rúmlega 123 millj­­arða íslenskra króna. Holmes var sakfelld í byrjun janúar árið 2022.[2] Í nóvember sama ár var hún dæmd í rúmlega ellefu ára fangelsi.[5] Hún hóf afplánun þann 30. maí næsta ár.[6]

Einkahagir breyta

Árið 2019 giftist Elizabeth Holmes William Evans, 27 ára erf­ingja Evans-hót­­el­keðj­unn­­ar. Þau eignuðust son árið 2021. Holmes var ólétt af öðru barni þeirra þegar hún var dæmd í fangelsi.[5] Hún fæddi barnið í febrúar árið 2022.[7]

Mestallan þann tíma sem Theranos var í rekstri átti Holmes í ástarsambandi við Ramesh „Sunny“ Balwani, sem var einn nánasti samstarfsmaður hennar hjá fyrirtækinu.[1]

Tilvísanir breyta

  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 Sunna Kristín Hilmarsdóttir (24. maí 2019). „Blóði drifnar blekkingar þeirrar sem sögð var næsti Steve Jobs“. Vísir. Sótt 19. nóvember 2022.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Erla María Markúsdóttir (21. nóvember 2022). „„Harmleikurinn í þessu er að frú Holmes er bráðgáfuð". Kjarninn. Sótt 22. nóvember 2022.
  3. „Bjó til 606 milljarða upp á eigin spýtur“. mbl.is. 5. mars 2015. Sótt 26. nóvember 2022.
  4. Erla María Markúsdóttir (4. janúar 2022). „Þráði að „uppgötva eitthvað sem mannkynið vissi ekki að væri mögulegt". Kjarninn. Sótt 12. mars 2023.
  5. 5,0 5,1 Markús Þ. Þórhallsson (19. nóvember 2022). „Holmes dæmd í ellefu ára fangelsisvist fyrir fjársvik“. RÚV. Sótt 22. nóvember 2022.
  6. Hallgrímur Indriðason (30. maí 2023). „Elizabeth Holmes hefur afplánun á 11 ára fangelsisdómi“. RÚV. Sótt 14. júní 2023.
  7. Ragna Gestsdóttir (1. mars 2023). „Elizabeth Holmes fæðir annað barn sitt – Biðst undan fangelsisvist“. DV. Sótt 12. apríl 2023.