Eiðrofsmálið
Eiðrofsmálið var íslenskt stjórnmálahneyksli árið 1942 sem snerist um kjördæmaskipan. Skipan kjördæma var ákaflega hagstæð Framsóknarflokknum þar sem vægi atkvæða var meira til sveita, þar sem Framsóknarflokkurinn hafði meira fylgi, en í þéttbýli. Eftir því sem fjölgaði í þéttbýlissvæðunum, og sérstaklega Reykjavík, fannst framámönnum í Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum, tveimur vinsælustu flokkunum, mikilvægara að þeir fengju kosna þingmenn í meira samræmi við hlutfallslegt kjörfylgi flokkanna óháð hvernig dreifing atkvæðanna væri.
Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn neyttu lags og breyttu kosningakerfinu sér í hag þvert á persónuleg drengskaparheit sem leiðtogar Sjálfstæðisflokksins höfðu gefið leiðtogum Framsóknarflokksins um að ekki yrði farið í slíkar breytingar. Afleiðingarnar urðu þær að stirt var á milli flokkanna, einkum leiðtoga þeirra, Hermanns Jónassonar og Ólafs Thors. Ekki voru gerðar veigamiklar breytingar á kjördæmakerfinu fyrr en 1959.
Aðdragandi
breytaÁ þessum árum geysaði seinni heimsstyrjöldin og höfðu fyrst Bretar hernumið Ísland en þegar hernáminu lauk vorið 1941 tóku Bandaríkjamenn að sér hervernd Íslands að ósk íslenskra stjórnvalda. Annað ráðuneyti Hermanns Jónassonar, sem var þjóðstjórn mynduð af Sveini Björnssyni þá ríkisstjóri Íslands, hafði tekið við 18. nóvember 1941. Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, var forsætisráðherra eins og hafði verið í þeirri ríkisstjórn sem á undan sat, Stjórn hinna vinnandi stétta. Ísland var ekki enn orðið sjálfstætt lýðveldi, það gerðist ekki fyrr en 17. júní 1944, en Danmörk var hersetin af Þjóðverjum.
Því sem nær dró áramótunum 1941-42 sögðu fleiri stéttarfélög upp kjarasamningum og óttuðust stjórnmálamenn að dýrtíðin, eða mikil verðbólga, yrði óviðráðanleg.[1] Ráðherrar Stjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sáu þá einu leið færa að láta setja gerðardóm um laun og verðlag en það gekk þvert á stefnu Alþýðuflokksins sem tók það ekki í mál.[2] Þann 8. janúar var frumvarp um gerðardóm lagt fram á ráðherrafundi og samþykkt sem bráðabirgðalög.[3] Stefán Jóhann Stefánsson mótmælti þessu frumvarpi ráðherra Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins og sagðist ekki geta stutt það. Hinir ráðherrarnir vissu hins vegar að þetta myndi þýða stjórnarslit enda baðst Stefán lausnar frá ráðherraembætti utanríkis- og félagsmálaráðherra og lauk þannig þjóðstjórn Hermanns þann 17. janúar 1942. Ríkisstjórn Hermanns hafði þá setið í aðeins tvo mánuði.
Breytingar á kjördæmakerfinu
breytaFramsóknarmenn óttuðust að Alþýðuflokkurinn myndi bregðast við útgöngu sinni úr ríksstjórn með því að bjóða Sjálfstæðisflokknum samvinnu við breytingar kjördæmakerfinu þannig að það kæmi báðum flokkunum vel. Alþýðuflokkurinn hafði áður haft það á sinni stefnuskrá að landið allt yrði gert að einu kjördæmi, það hugnaðist Sjálfstæðisflokknum hins vegar ekki. Kjördæmaskiptanin hygldi Framsónarfloknum þó mjög á kostnað þéttbýlisflokkanna, í síðustu alþingiskosningunum 1937 fékk Framsóknarflokkurinn 24,6% atkvæða og 19 þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 40,8% atkvæða en 17 þingmenn.
Til þess að tryggja sig fékk Hermann Jónasson drengskaparloforð frá Ólafi Thors, formanni Sjálfstæðisflokksins og Jakobi Möller ráðherra Sjálfstæðisflokksins, á ráðherrafundi 17. janúar 1942 að Eysteini Jónssyni viðstöddum, um að ekki yrði farið í slíkar kjördæmabreytingar á komandi þingi. Breytingar á kjördæmunum þurfti að gera með breytingu á stjórnarskránni en samkvæmt stjórnarskránni þurfti og þarf enn að efna til nýrra þingkosninga eftir að samþykktar hafa verið breytingar á stjórnarskránni og þarf hið nýkosna Alþingi að staðfesta breytingarnar.
Á áðurnefndum fundi ráðherra Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins 17. janúar 1942 var ákveðið samkomulag um verkefni ríkisstjórnarinnar eftir að Stefán Jóhann hafði beðist lausnar. Verkefnin voru í fimm liðum og snerust um breytingar á skattalögum, ráðstöfunum til höfuðs dýrtíðinni og frestun á bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík vegna verkfalls prentara. Í ævisögu Ólafs Thors kemur fram að samkomulagið hafi verið skrifað af Eysteini Jónssyni og undirritað af öllum fjórum ráðherrunum.[4] Þá kemur fram að eftirfarandi textabút hafi verið bætt við, nú með rithendi Hermanns Jónassonar, dagsett degi eftir:
|
||
— Fylgirit með samkomulagi fyrstu ríkisstjórnar Ólafs Thors[5]
|
Stjórnarskrármálið
breytaSnemma á árinu 1942 lögðu þingmenn Alþýðuflokksins sem nú voru í stjórnarandstöðu fram tillögu um breytingu á stjórnarskránni þannig að þingmönnum í Reykjavík yrði fjölgað og hlutbundnar kosningar yrðu í tvímenningskjördæmum. Eftir umræðu í neðri deild var málinu vísað til sérstakrar stjórnarskrárnefndar 30. mars. Fulltrúar Framsóknarflokksins vildu þá tengja fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni við fyrirhuguð sambandsslit við Danmörku en því var hafnað og sögðust Framsóknarmenn þá ekki ætla að styðja nokkra breytingu á stjórnarskránni. Stjórnarskrárnefndin lauk störfum sínum 8. maí og var frumvarpið samþykkt með atkvæðum þingmanna Alþýðuflokksins, Sósíalistaflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hermann Jónasson leit á þetta sem svik við sig. Hann hafði lofað því á miðstjórnarfundum Framsóknarflokksins að ekkert yrði aðhafst á yfirstandandi þingi varðandi breytingar á kjördæmum. Þann 16. maí 1942 baðst Hermann Jónasson því lausnar fyrir sig og ráðherra Framsóknarflokksins og þá lauk 15 ára valdatíð Framsóknarflokksins. Við tók fyrsta ráðuneyti Ólafs Thors.
Hvorki Hermann né Eysteinn gerðu nokkuð opinskátt um þetta meinta eiðrofsmál fyrr en þeir sendu bréf til margra flokksmanna þann 21. júní 1943 þar sem þeir greindu frá þessari viðbótarbókun að viðlögðum drengskap þeirra Ólafs og Jakobs.[6] Að eigin sögn greindi Hermann þó frá málinu á miðstjórnarfundi þann 14. maí 1942 og lagði að lokum til að ekki yrði haft hátt um þetta:
En þótt þetta sé svona, þá lit ég svo á, að þetta mál sé svo sérstakt og þannig vaxið, að ekki megi nota það í kosningunum né skýra frá því. Við erum hér í nábýli við tvær þjóðir og megum ekki láta þær sjá, hve eymd okkar getur orðið mikil. Við Eysteinn Jónsson höfum mikið um þetta mál rætt og förum þess eindregið á leit,að þetta vopn verði látið óhreyft í þessum kosningum, og verði tryggt með samþykki. | ||
— Hermann Jónasson, á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins 14. maí 1942[7]
|
Deilur í málsgögnum stjórnmálaflokkanna
breytaÞann 30. júlí 1943, um sama leyti og barist var í orrustunni um Kúrsk í Sovétríkjunum, birtist grein í Tímanum, málsgagni Framsóknarflokksins, undir fyrirsögninni „Svika-Mörður og 17. janúar” en undirfyrirsögnin var „Vinsamlegt bréf til Ólafs Thors”.[8] Höfundur greinarinnar Þórarinn Þórarinnsson, sem seinna ritaði sögu Framsóknarflokksins, ásakaði Ólaf Thors um drengskaparbrot í greininni án þess þó að útskýra nánar málsatvik.
Þá liðu um þrír mánuðir þangað til að öll forsíða Tímans þann 28. október var lögð undir „Skýrslu Eysteins Jónssonar og Hermanns Jónassonar” undir fyrisögninni „Rofið drengskaparheit”.[7] Í ítarlegri skýrslu sinni röktu Eysteinn og Hermann málið og sökuðu Ólaf Thors staðfastlega um að hafa gengið á bak orða sinna. Þessari skýrslu svöruðu Ólafur Thors og Jakob Möller með grein sem birtist í Morgunblaðinu 9. nóvember.[9]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Ríkisstjórnin ætlar að gefa út bráðabirgðalög um gerðardóm í verkföllum iðnfélaganna“. Nýtt dagblað. 4. janúar 1942.
- ↑ Agnar Klemens Jónsson. Stjórnarráð Íslands 1904-1964, bls 232-233.
- ↑ Lögin um gerðardóm voru samþykkt eftir að Alþingi kom saman á ný sem almenn lög nr. 28, 29. maí 1942 um dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum.
- ↑ Matthías Johannessen. Ólafur Thors: ævi og störf. bls 332-333.
- ↑ Matthías Johannessen. Ólafur Thors: ævi og störf. bls 333.
- ↑ Þórarinn Þórarinnsson. Sókn og sigrar: saga Framsóknarflokksins 2. bindi. bls 101.
- ↑ 7,0 7,1 „Rofið drengskaparheit“. Tíminn. 28. október 1943.
- ↑ „Svika-Mörður og 17. janúar“. Tíminn. 30. júlí 1943.
- ↑ Svar frá Olafi Thors og Jakob Möller til Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar, Morgunblaðið 9. nóvember 1943
Heimildir
breyta- Matthías Johannessen. Ólafur Thors: ævi og störf. Almenna bókafélagið. bls. 326-343.
- Þórarinn Þórarinnsson. Sókn og sigrar: saga Framsóknarflokksins 2. bindi. Framsóknarflokkurinn. bls. 100-102.
- Agnar Klemens Jónsson. Stjórnarráð Íslands 1904-1964. Sögufélag. bls. 231-236.
Tenglar
breyta- Ólafur Thors afhjúpar rógmælgi og svikabrigsl Tímans, Morgunblaðið 21. október 1943
- Svar frá Olafi Thors og Jakob Möller til Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar, Morgunblaðið 9. nóvember 1943
- Rofið drengskaparheit, Tíminn 28. október 1943
- Svika-Mörður og 17. janúar, Tíminn 30. júlí 1943
- Drengskaparheítíð enn: Nokkrar leiðréttingar á missögnum í varnargrein OL Thors og Jakobs Möllers frá Eysteíni Jónssyni og Hermanni Jónassyní, Tíminn 20. nóvember 1943
- Jakob Möller og Ólafur Thors svara öðru drengskaparspjalli Eysteins Jónssonar og Hermanns Jónassonar, Morgunblaðið 10. desember 1943