Ríkisstjóri Íslands
Ríkisstjóri Íslands var embætti sem stofnað var í maí árið 1941 og var við lýði til 17. júní árið 1944. Embættið var forveri embættis forseta Íslands og var Sveinn Björnsson sendiherra Íslands í Danmörku og síðar forseti, sá eini sem gegndi ríkisstjóraembættinu. Ríkisstjóri var æðsti embættismaður Íslands og þjóðhöfðingi til bráðabirgða.[1]
Eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku og hernámu landið í apríl árið 1940, leit Alþingi svo á að Kristján 10. Danakonungur væri ekki fær um að fara með konungsvaldið og ákvað Alþingi að taka sér það vald sem konungur hafði haft. Í maí árið 1941 ákvað Alþingi hins vegar að embætti ríkisstjóra Íslands yrði sett á stofn og skyldi kjósa hann til eins árs í senn.
Fyrsta ríkisstjórakosningin fór fram þann 17. júní 1941. Sveinn Björnsson hlaut 37 atkvæði en Jónas Jónsson frá Hriflu hlaut eitt akvæði, sex atkvæðaseðlar voru auðir og fimm þingmenn voru fjarverandi.[2]
Nokkrum dögum áður en ríkisstjórinn var kosinn fékk ríkisstjórnin inn á borð sitt erindi frá Sigurði Jónassyni þar sem hann óskaði eftir því að gefa jörðina Bessastaði á Álftanesi svo þær mætti verða aðsetur ríkisstjóra. Þann 18. júní 1941, degi eftir að ríkisstjórakosninguna, ákvað ríkisstjórn Íslands að þiggja boð Sigurðar.[3]
Tilvísanir
breyta- ↑ Guðni Th. Jóhannesson. „Hvernig maður var Sveinn Björnsson forseti og hvað afrekaði hann?“ Vísindavefurinn (skoðað 20. ágúst 2019)
- ↑ „Sveinn Björnsson kjörinn fyrsti ríkisstjóri Íslands“ Morgunblaðið, 18. júní 1941 (skoðað 20. ágúst 2019)
- ↑ Kristján Sigurjónsson, „75 ár frá því að ríkið eignaðist Bessastaði“ Ruv.is (skoðað 20. ágúst 2019)