Dred Scott-málið

(Endurbeint frá Dred Scott gegn Sandford)

Dred Scott-málið (formlega nefnt Dred Scott gegn Sandford) var dómsmál sem fór fyrir hæstarétt Bandaríkjanna í ákæru Dreds Scott gegn John F. A. Sanford árið 1857. Í málinu var dæmt gegn Dred Scott, svörtum þræl sem hafði reynt að gera tilkall til frelsis síns í ljósi þess að hann hefði búið um hríð í fylki þar sem þrælahald var bannað með lögum.

Dred Scott-málið snerist um Dred og Harriet Scott (að ofan) og dætur þeirra, Elizu og Lizzie.

Á seinni dögum hefur ákvörðunin fengið á sig það orð að vera eitt versta glappaskot í sögu hæstaréttarins[1] og er jafnvel talað um hana sem eina kveikjuna að bandarísku borgarastyrjöldinni. Úrskurðurinn útilokaði að blökkumenn gætu átt ríkisborgararétt í Bandaríkjunum og felldi ýmis eldri lög úr gildi til að takmarka rétt ríkisvaldsins til að banna þrælahald í tilteknum fylkjum.

Staðreyndir málsins breyta

Dred Scott (1799 – 1858) var þræll sem hafði flust búferlum ásamt húsbónda sínum, Peter Blow, frá Virginiu til St. Louis í Missouri árið 1830. Eftir dauða Blows árið 1832 var Scott seldur herskurðlækninum dr. John Emerson sem tók Scott með sér til fylkisins Illinois[2] og síðan til Wisconsin árið 1836. Í báðum þessum fylkjum var þrælahald ólöglegt.[3]

Dred Scott hefði getað krafist frelsis síns á þeim tveimur árum sem hann bjó í Illinois samkvæmt stjórnarskrá fylkisins. Staðarlög upphéldu fordæmi dómsákvörðunar úr máli James Somerset gegn Charles Stewart árið 1772 sem mælti fyrir um að maður gæti ekki talist þræll án þess að hafa lagalega stöðu þræls. Þar sem Illinois var þrælalaust ríki var engin slík staða til og því ómögulegt samkvæmt staðarlögum að líta á Scott sem þræl. Auk þess höfðu yfirvöld Missouri oft frelsað þræla ef húsbændur þeirra leyfðu þeim að ferðast um eða búa á þrælalausum svæðum lengur en örskamman tíma.[3] Dred reyndi þó ekki að krefjast frelsis síns og sneri meira að segja aftur heim til Emersons í Missouri ásamt konu sinni, Harriet Scott, án nokkurrar fylgdar árið 1838.

Eftir dauða Emersons árið 1843 reyndi Scott í fyrsta sinn að kaupa frelsi þeirra hjónanna en Irene Emerson, ekkja Johns, hafnaði tilboði hans. Scott neyddist því til að leita til yfirvalda og leggja fram kæru til að heimta frelsi sitt – þar sem hann hafði búið í átta ár í fylkjum sem bönnuðu þrælahald taldi hann sig eiga lagalega kröfu fyrir því að teljast frjáls borgari. Fyrsta tilraun hans til að vinna frelsi sitt fyrir rétti árið 1850 mistókst vegna formgalla – enginn gat fært skriflega sönnun fyrir því að Scotthjónin tilheyrðu fr. Emerson, og því var ekki hægt að veita þeim frelsi. Í annarri réttarmeðferð árið 1850 var dæmt Scott í vil en þegar John F. A. Sanford, bróðir fr. Emerson, áfrýjaði dómnum til hæstaréttar Missouri var dómsákvörðuninni snúið við tveimur árum síðar. Þegar áfrýjunardómstóll Missouri stóð við þann dóm áfrýjaði Scott málinu loks til hæstaréttar Bandaríkjanna.

Meðferð málsins breyta

Í hæstaréttinum ríktu margvíslegir fordómar gegn málstað Scotts – fjórir af dómurunum níu voru sjálfir þrælaeigendur og Roger B. Taney, forseti hæstaréttarins var frá þrælafylki.[4] Fjórir dómaranna voru frá norðurfylkjunum en aðeins tveir þeirra höfðu verið útnefndir af forsetum frá norðurfylkjum og aðeins einn var beinlínis andsnúinn þrælahaldi. Að endingu lauk málinu með því að dæmt var gegn Scott með sjö atkvæðum gegn tveimur.

Talsverður pólitískur þrýstingur var á dómarana til þess að dæma gegn Scott. Frá lokum fimmta áratugarins hafði þingið stöðugt sóst eftir stuðningi hæstaréttarins til þess að gera út af við deilumál um þrælahald og augu almennings beindust að dómurunum á meðan rætt var um mál Scotthjónanna, sér í lagi eftir að kom á daginn að lögfræðingar Sanford ætluðu að beita sér gegn frelsiskröfu Scott með því að færa rök fyrir að lögin sem bönnuðu þrælahald í Illinois væru andstæð stjórnarskránni. Þegar James Buchanan, tilvonandi forseti Bandaríkjanna, komst að því að meirihluti dómaranna hyggðist dæma gegn Scott sendi hann dómaranum Robert Grier, sem var frá norðurhluta Bandaríkjanna, bréf og reyndi að fá hann til þess að láta af andstöðu sinni varðandi málsmeðferðina og dæma með meirihlutanum.[5] Hugsunin var sú að ef dómurinn hlyti stuðning a.m.k. eins dómara að norðan myndi niðurstaðan síður kynda undir ágreiningi norður- og suðurfylkja Bandaríkjanna um lagalega stöðu þrælahalds og rétt alríkisstjórnarinnar til að hafa taumhald á því.

Dómur og röksemdafærsla hæstaréttarins breyta

 
Roger B. Taney, forseti bandaríska hæstaréttarins þegar dæmt var í Dred Scott-málinu.

Þann 6. mars 1857, tveimur dögum eftir að Buchanan tók við embætti, tilkynnti Taney dómsúrskurð hæstaréttarins. Hæstirétturinn neitaði að viðurkenna tilkall Scotthjónanna til frelsis síns á eftirfarandi forsendum:

Í fyrsta lagi taldi hæstirétturinn ekki að Scotthjónin væru í raun ríkisborgarar Bandaríkjanna vegna litarafts þeirra og þar með að þau hefðu engan rétt til að höfða mál fyrir bandarískum rétti. Taney leit svo á að ekki hefði verið litið á fólk af afrískum uppruna sem ríkisborgara þegar stjórnarskrá Bandaríkjanna var rituð þar sem það var ekki hluti af neinu þeirra samfélaga sem tók þátt í stofnun ríkisins 1787. Óhugsanlegt væri að orðræða sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna um að „allir menn væru fæddir jafnir“ hefði einnig átt við um blökkumenn vegna þess að slík fullyrðing stangaðist um of á við athæfi stofnfeðranna, ríkjandi viðhorf vesturlandabúa á þeim tíma og lagasetningar varðandi þrælahald sem voru leyfðar samhliða sjálfstæðisyfirlýsingunni.

Taney réttlætti þetta sjónarmið enn frekar með því að benda á að

 
í meira en hundrað ár hefur verið litið á þau sem verur af óæðri stofni [...] og svo miklu óæðri að þau eiga engin réttindi sem hvíta manninum ber skylda til að virða.[6]
 

Að öllu sögðu frábað Taney sér rétt til að leggja siðferðislegt mat á innihald stjórnarskrárinnar og kvaðst eingöngu vera í stöðu til að túlka hana í samræmi við ásetning stofnfeðranna við ritun hennar. Söguleg túlkun Taney á viðhorfi Bandaríkjamanna til blökkumanna á tíma sjálfstæðisstríðsins skipti því sköpum í ákvörðun hans og sætti einna mestri gagnrýni andófsmanna hennar.

Fullyrðing Taney um að innfæddir blökkumenn gætu ekki talist ríkisborgarar var þó ekki úr lausu lofti gripin. Nánast hver einasti dómur í fylkjum bæði að sunnan og norðan hafði komist að svipaðri niðurstöðu: þeim að frjálsir blökkumenn væru hvorki ríkisborgarar né borgarar stakra fylkja.[7] Fjórir fyrrum ríkissaksóknarar – Caleb Cushing, John MacPherson Berrien, William Wirt og Hugh S. Legare – höfðu blátt áfram útilokað ríkisborgararétt blökkumanna. Hæstiréttur Taney sjálfs hafði auk þess sett fordæmi um að þegar þrælaeigandi flytti þræl sinn með sér í þrælalaust fylki skyldi fylkið sem þeir komu frá ráða lagalegri stöðu þrælsins.[8] Strangt til tekið útilokaði Taney þó ekki með öllu möguleikann á því að ríkisstjórnin gæti veitt erlendum blökkumönnum ríkisborgararétt, aðeins að innfæddum, frjálsum blökkumönnum sem áttu ættir að rekja til þræla frá Afríku gæti hlotnast ríkisborgararéttindi. Hann útilokaði einnig ekki að stök fylki gætu veitt blökkumönnum ríkisborgararétt en tók út af fyrir að borgararéttindi samkvæmt lögum eins fylkis hefðu endilega í för með sér borgararéttindi í Bandaríkjunum öllum.

Röksemdafærsla Taney var á þá leið að fyrst ekki var hægt að líta á blökkumenn sem ríkisborgara væru öll mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar málinu óviðkomandi.[6] Eini hluti stjórnarskrárinnar sem skipti máli væru eignarréttarákvæði hennar. Fimmti viðauki stjórnarskrárinnar bannaði ríkisvaldinu að gera eignir ríkisborgara upptækar án formlegrar málsmeðferðar.[9] Samkvæmt túlkun Taney þýddi þetta að ekki væri löglegt að svipta þrælaeiganda þræl sínum þótt hann tæki hann með sér í fylki þar sem þrælahald var bannað. Auk þess ætti ríkisvaldið alls engan rétt á að banna borgurum að taka eigur sínar hvert sem þá fýsti innan landsvæða Bandaríkjanna. Þannig úrskurðaði dómurinn í raun að hvers kyns hömlun á þrælahaldi innan ríkisins væri andstæð stjórnarskránni og ógilti formlega fyrri lagasetningar líkt og Missouri-málamiðlunina frá árinu 1820 sem hafði mestu bannað þrælahald norðan við breiddargráðuna 36°30 innan landsvæðisins sem keypt hafði verið frá Frakklandi í Louisiana-kaupunum.

Taney hefði auðveldlega getað dæmt gegn málstað Scott á óumdeildan máta með því að vísa til sjálfsákvörðunarréttar fylkjanna um stöðu þrælahalds[8] en ásetningur hans var ekki einfaldlega að meina Dred Scott að öðlast frelsið. Þegar mál Scott kom til kasta hæstaréttarins hafði það þegar tekið á sig rammpólitíska mynd og kom Scotthjónunum sjálfum svo að segja lítið við. Taney vildi gera endanlega út um deiluna um þrælahald í Bandaríkjunum í þágu suðurríkjanna. Hann vildi ógilda Missouri-málamiðlunina formlega, koma í veg fyrir að alríkisstjórnin setti hömlur á þrælaeign, stemma stigu við uppgangi hins nýja Repúblikanaflokks með því að grafa undan hugmyndum þeirra um þrælahald og neita innfæddum blökkumönnum um borgararéttindi fyrir fullt og allt.

Ógilding Taney á Missouri-málamiðluninni féll í grýttari farveg meðal stuðningsmanna úrskurðarins en klausan um ríkisborgararétt þeldökkra. Í kosningaræðum sínum fyrir þingmannssæti Illinois gerði frambjóðandi Demókrataflokksins, Stephen A. Douglas, lítið úr þessum þætti ákvörðunarinnar þrátt fyrir að styðja hana að orðinu til og hélt því fram að sjálfsákvörðunarréttur fylkjanna myndi sem áður hindra útbreiðslu þrælahalds þangað sem það naut ekki fylgis.[10]

Andóf og mótrök breyta

 
John McLean hæstaréttardómari

Tveir dómaranna, John McLean og Benjamin R. Curtis, voru ósammála niðurstöðu meirihlutans. Þeir gagnrýndu meðferð málsins og bentu á að ef Dred Scott skorti rétt til þess að kæra málið til hæstaréttar eins og Taney hélt fram ætti hæstirétturinn heldur ekki umboð til að dæma það, aðeins til að vísa því frá án frekari umfjöllunar. Því hefði Taney ekki umboð til þess að ógilda Missouri-málamiðlunina í úrskurði sínum – málið hefði aldrei átt að fara svo langt.[6]

McLean var ósammála því að Scott skorti borgaralegan rétt til þess að höfða mál fyrir rétti og benti á að ekki væri nauðsynlegt að njóta allra borgaralegra réttinda til þess að geta talist ríkisborgari eða til að höfða mál; t. d. ættu konur og börn ekki kosningarétt og nutu þó almennra ríkisborgararéttinda. Annað lykilatriði í mótrökum McLean var að sá kafli stjórnarskrárinnar sem tryggði borgurum stakra fylkja almenn borgararéttindi Bandaríkjamanna var afritaður nánast orð fyrir orð úr svipaðri grein í bandalagsákvæðunum frá árinu 1776, nema hvað að orðið „borgari“ hafði komið í stað fyrir „frjálsa íbúa“. Þetta taldi McLean sýna með skýrum hætti hver skilgreiningin á ríkisborgara hefði verið þegar stjórnarskráin var samin. McLean benti einnig á ýmis fordæmi fyrir því að þrælahald væri málefni sem fylkin settu sínar eigin reglur um og að menn eins og James Madison forseti hefðu haldið lögum um þrælahald og eignarrétt yfir mannfólki utan við stjórnarskrána einmitt vegna þess að þeir vildu ekki bendla hana við þrælahald.[6]

 
Benjamin R. Curtis hæstaréttardómari

Curtis mótmælti einnig þeirri fullyrðingu Taney að ekki hefði verið litið á neina blökkumenn sem ríkisborgara þegar stjórnarskráin var rituð og benti á að í fimm fylkjanna þrettán sem komu að stofnun Bandaríkjanna – New Hampshire, Massachusetts, New York, New Jersey og Norður-Karólínu – höfðu þeir bæði átt borgararéttindi og kosningarétt á þeim tíma. Í júní 1778, á meðan bandalagsákvæðin voru til umræðu á öðru meginlandsþinginu, höfðu fulltrúar Suður-Karólínu jafnvel gert tilraun til að bæta við skilyrði um að hinir „frjálsu íbúar“ sem sáttmálinn tryggði borgararéttindi þyrftu einnig að vera hvítir en sú tillaga var felld með atkvæðum átta fylkja gegn tveimur. Þessi tilraun til þess að útiloka sérstaklega borgararéttindi blökkumanna virðist sýna fram á að Bandaríkjamenn á tímum sjálfstæðisbaráttunnar hefðu ekki litið á það sem sjálfsagt mál að blökkumenn yrðu skildir út undan. Curtis sagði ekkert benda til þess að skilgreiningin á borgara hefði breyst þegar stjórnarskráin var tekin upp í stað bandalagsákvæðanna þótt orðalagið hefði breyst lítillega.[6]

Mótrök Abrahams Lincoln breyta

Í ræðu sinni árið 1857 í Illinois samsinnti Abraham Lincoln, seinna forseti Bandaríkjanna, McLean og Curtis og bætti við að ef farið væri eftir túlkun Taney á stjórnarskránni þyrftu stórir hópar hvítra manna einnig að teljast „óæðri“.[11] Röksæmdafærsla Taney var á þá leið að ekki væri hægt að túlka þann hluta sjálfstæðisyfirlýsingarinnar sem tryggði „öllum mönnum“ jafnrétti nema sem svo að átt væri við hvíta menn því að stofnfeður Bandaríkjanna hefðu greinilega ekki komið fram við blökkumenn sem jafningja. Lincoln benti á að þeir hefðu heldur ekki komið fram við allar stéttir hvítra manna sem jafningja, né veitt þeim jöfn réttindi í hvívetna – til dæmis höfðu verið kröfur um lágmarkseign sem skilyrði fyrir kosningarétti og kjörgengi í mörgum fylkjanna við stofnun Bandaríkjanna. Kröfur um lágmarkseign sem nam eign á landsvæði upp á fimmtíu ekrur höfðu smám saman verið felldar úr gildi á árunum 1792 – 1856.[12]

Lincoln taldi dómsúrskurðinn í Dred Scott-málinu byggðan á rangtúlkun á sögu Bandaríkjanna, sér í lagi þá hugmynd að viðhorf til bandarískra blökkumanna hefði skánað á árunum frá stofnun lýðveldisins. Lincoln taldi þeirri þróun vera þveröfugt farið og benti á að síðan þá hefðu blökkumenn verið sviptir kosningarétti í öllum fylkjum þar sem þeim hafði í upphafi verið leyft að kjósa, ýmsar reglugerðir hefðu verið settar sem gerðu þrælaeigendum erfiðara fyrir að frelsa þræla sína og þingið skipti sér í mun meiri mæli af rétti stakra fylkja til að banna þrælahald innan landamæra sinna. Hann hafnaði einnig þeirri röksemdafærslu að orðræða stjórnarskrárinnar um jafnrétti væri einungis uppfylling á kröfu stofnfeðranna um jafnrétti milli breskra borgara í Bretlandi og í bresku nýlendunum því þessi túlkun virtist svipta þann meirihluta Bandaríkjamanna sem áttu rætur að rekja annað en til Bretlands jafnrétti sínu. Að mati Lincolns var túlkun Taney á stjórnarskránni og sjálfstæðisyfirlýsingunni svo þröng að ef farið yrði eftir henni ættu þær ekkert erindi við samtímann.[11]

Afdrif Scottfjölskyldunnar breyta

Eftir úrskurð hæstaréttarins voru Dred, Harriet og dætur þeirra tvær seld Henry Taylor Blow, sem var æskuvinur Dreds og sonur Peters Blow, fyrsta húsbónda hans.[13] Þrátt fyrir uppeldi sitt í suðurríkjunum voru Blow og systkini hans andsnúin þrælahaldi og höfðu því lengst af fjármagnað málsókn Scotthjónanna. Blow veitti fjölskyldunni frelsi sitt eftir að málinu var lokið en Dred fékk ekki að njóta þess lengi – hann dó úr berklum aðeins níu mánuðum síðar. Harriet og dætur hennar lifðu hins vegar nógu lengi til þess að upplifa þrælastríðið og ógildingu Dred Scott-ákvörðunarinnar í kjölfar þrettándu og fjórtándu viðaukanna við bandarísku stjórnarskrána árin 1865 og 1868 sem bönnuðu þrælahald alfarið og tryggðu öllum þeim sem fæddust á landsvæði Bandaríkjanna ríkisborgararétt.[14] Harriet dó árið 1876, þá sextíu og eins árs að aldri.

Heimildir breyta

 
Á Wikiheimild er að finna texta sem tengist
Tilvísanir
  1. Mark Graber, Dred Scott and the Problem of Constitutional Evil, bls. 15.
  2. Austen Allen, Origins of the Dred Scott Case: Jacksonian Jurispundence and the Supreme Court, 1837 – 1857, bls. 141.
  3. 3,0 3,1 Timothy Huebner, The Taney Court: Justices, rulings and legacy, bls. 165.
  4. Timothy Huebner, The Taney Court: Justices, rulings and legacy, bls. 32.
  5. Austen Allen, Origins of the Dred Scott Case: Jacksonian Jurispundence and the Supreme Court, 1837 – 1857, bls. 153.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 Scott v. Sandford (1857)
  7. Mark Graber, Dred Scott and the Problem of Constitutional Evil, bls. 29.
  8. 8,0 8,1 Timothy Huebner, The Taney Court: Justices, rulings and legacy, bls. 154.
  9. Austen Allen, Origins of the Dred Scott Case: Jacksonian Jurispundence and the Supreme Court, 1837 – 1857, bls. 191.
  10. Mark Graber, Dred Scott and the Problem of Constitutional Evil, bls. 40.
  11. 11,0 11,1 Abraham Lincoln, „Speech on the Dred Scott Decision,“ ræða flutt í Springfield, Illinois þann 26. júní 1857.
  12. Alexander Keyssar, The Right to Vote: The Contested History of Democracy in the United States, bls. 7.
  13. Cory Gunderson, The Dred Scott Decision, bls. 39.
  14. Cory Gunderson, The Dred Scott Decision, bls. 40.
Heimildaskrá
  • Allen, Austen (2006). Origins of the Dred Scott Case: Jacksonian Jursipundence and the Supreme Court, 1837 – 1857. University of Georgia Press.
  • Graber, Mark (2006). Dred Scott and the Problem of Constitutional Evil. Cambridge University Press.
  • Gunderson, Cory (2004). The Dred Scott Decision. ABDO Publishing Company.
  • Huebner, Timothy (2003). The Taney Court: Justices, rulings and legacy. ABC-Clio Supreme Court Handbooks.
  • Keyssar, Alexander (2012). The Right to Vote: The Contested History of Democracy in the United States. Random House Publishing Group.
  • Abraham Lincoln (26. júní 1857). „Speech on the Dred Scott Decision“ (enska). Teaching American History.