Dewey-flokkunarkerfið

Dewey-flokkunarkerfið er flokkunarkerfi fyrir bókasöfn sem byggir á tugakerfinu. Þar af leiðandi takmarkast kerfið við að flokka alla mannlega þekkingu í tíu aðalflokka. Kerfið er upprunalega frá árinu 1876 og er nefnt eftir aðalhöfundi þess Bandaríkjamanninum Melvil Dewey. Kerfið er mjög ráðandi í vestrænum bókasöfnum, um 95% bókasafna í Bandaríkjunum notast við kerfið til uppröðunar.[1] Dewey-flokkunarkerfið er notað í yfir 200.000 bókasöfnum í 135 löndum í dag. Það hefur verið þýtt á yfir 60 tungumál, þar með talið íslensku.[2]

Titilsíða annarrar útgáfu flokkunarkerfis Deweys sem kom út í Bandaríkjunum árið 1885

Reglulega eru gefnar út endurbættar og breyttar útgáfur af Dewey-flokkunarkerfinu. Flokkunarkerfið er gefið út í tveimur útgáfum, heildarútgáfan fyrir bókasöfn með almennan bókakost sem telur yfir 20 þúsund bækur og stytt útgáfa fyrir smærri söfn. 23. heildarendurútgáfan kom út á árinu 2011 og 15. stytta útgáfan árið 2012.[3] Hönnun og þróun Dewey-flokkunarkerfisins er í höndum Bókasafns Bandaríkjaþings en þar hefur alþjóðleg nefnd yfirumsjón með verkinu. Bandaríska fyrirtækið Online Computer Library Center, Inc. (OCLC) er svo handhafi dreifingarréttar.

Saga breyta

Saga flokkunar á bókasöfnum teygir sig alla leið aftur til vinnu Kallímakkosar við Bókasafnið í Alexandríu í Forn-Egyptalandi á 3. öld f.Kr. Þar vann hann að skrásetningu bókakostsins á leirtöflum sem heita Pinakes. Kallímakkos skipti bókakostinum í (1) retorík, (2) lögfræði, (3) epík, (4) drama, (5) gamanefni, (6) ljóðmál, (7) sögu, (8) læknisfræði, (9) stærðfræði, (10) náttúrvísindi og (11) annað.

Dewey hóf að hanna kerfi sitt árið 1873 og fyrstu útgáfuna birti hann 1876. Til grundvallar rannsakaði hann meðal annars flokkunarkerfi Natale Battezzatis (Nuovo sistema de catalogo bibliografico generale) og skrif William T. Harris. Harris skrifaði mikið um uppeldis- og kennslufræði og hafði fjallað um flokkun Francis Bacons á bókakosti bókasafns almenningsskóla. Skipting Bacons var í þrjá aðalflokka: minni (saga), ímyndunarafl (skáldskapur) og skynsemi (heimspeki). Líklegt er að deildaskipting Amherstháskóla í New York, þar sem Dewey var við nám, hafi verið vísirinn að flokkaskiptingu Deweys.

Fyrsta útgáfan taldi 42 blaðsíður. Árið 1885, níu árum seinna gaf hann út aðra útgáfu og taldi hún strax 486 blaðsíður. Önnur útgáfan fannst sumum of löng og ítarleg og þá kom strax út stytt útgáfa. Eitt helsta nýmæli kerfisins, og það sem Dewey sjálfur hampaði einna mest, var atriðisorðaskráin. Kerfið hlaut strax mjög góðar viðtökur og árið 1927 var notast við það í 96% almenningsbókasafna í Bandaríkjunum og 89% háskólabókasafna.

Flokkunarkerfið breyta

Sem fyrr segir byggir Dewey-flokkunarkerfið á tugakerfinu og eru aðalflokkarnir listaðir hér fyrir neðan. Hver tala í kerfinu er nefnd flokkstákn eða marktákn. Kerfið er byggt eins og stigveldi. Hver aðalflokkur skiptist í tíu undirdeild og hverri undirdeild er svo aftur skipt í tíu aðaleiningar. Þó eru ekki allar flokkstölur og einingar í notkun, sumum flokkstáknum hefur ekki enn verið úthlutaður flokkur.

Sem dæmi má nefna að 600 er aðalflokkur „Tækni (hagnýtra vísinda)“. Þá er undirdeildin 620 „Verkfræði og skyldar greinar“. Einu stigi lengra má nefna aðaleininguna 627, „Vatnsvirkjunarverkfræði“. Útvíkkunarmöguleikar Dewey-flokkunarkerfisins eru tæknilega ótakmarkaðir en takmarkast óhjákvæmilega að stofninum til við tíu aðalflokka. Svo tekið sé annað dæmi er „Bókmenntir“ að finna í 800. 810 eru „Íslenskar bókmenntir“ og 816 eru „Sendibréf“.

Oftar en ekki er það svo að hægt er að flokka tiltekna bók í fleiri en einn flokk. Við slíkar aðstæður getur það ráðið úrslitum um það hvaða flokkstákni bókinni er úthlutað hvort að bókasafnið hefur myndað með sér ákveðna stefnu í bókakaupum og flokkun, til dæmis í því augnamiði að þjónusta ákveðinn markhóp.

Samsetning flokkstákna breyta

Til þess að flokka með nákvæmum hætti má notast við svokallaðar hjálpartöflur til þess að setja saman flokkstákn. Fyrir styttu 13. útgáfuna, sem kom út á íslensku árið 2002 en upprunalega 1997, eru fjórar hjálpartöflur en í heildarútgáfunni eru alls sjö hjálpartöflur. Hjálpartöflurnar fjórar sem notaðar eru í íslensku útgáfunni eru:

  • Tafla 1: formgreinar
  • Tafla 2: landstölur, tímabilaskiptingar
  • Tafla 3: bókmenntir
  • Tafla 4: málvísindi

Sérstakar reglur gilda um notkun hjálpartaflnanna, þær eru aldrei notaðar einar og sér heldur sem viðskeyti við flokkstákn. Formgreinar úr töflu 1 eru til þess að marka ytra form gagnanna (orðabók, tímarit, skrá) eða efnislega nálgun, t.d. heimspekileg, nám/kennsla eða söguleg umfjöllun. Sem dæmi má nefna undirdeildina 150 „Sálfræði“ og 1 úr töflu 1 sem gerir flokkstáknið 150.1 fyrir bók sem fjallar um sálfræði út frá heimspekilegum sjónarhól.

Lands- og svæðistölur eru notaðar úr töflu 2 til þess að afmarka efni við ákveðið svæði eða rúm. Það sem flækir málið hér er að til þess að notast við tölur úr töflu 2 þarf að skjóta inn 09 úr töflu 1. Bók um fiskveiðar við Ísland væri því 639.2 „Fiskveiðar“ + 09 fyrir landatölu úr töflu 1 + 491 fyrir Ísland úr töflu 2 = 639.109491.

Hjálpartafla 3 er aðeins notuð með 800 aðalflokknum „Bókmenntir“ til þess að flokka bókmenntir eftir einhverju af eftirtöldum formum: leikrit, ljóð, skáld- eða smásögur, ritgerðir eða greinar, ræður eða erindi, sendibréf, blandað efni eða skop og ádeilu.

Hjálpartafla 4 er aðeins notuð með 400 aðalflokknum „Tungumál“ til þess að flokka efni um tungumál nánar eftir rittáknum, hljóðfræði, orðsifjafræði, orðasöfnun, málfræði, sögulega eða landfræðilega umfjöllun eða hefðbundna málnotkun.

Aðalflokkarnir breyta

Tilvitnanir breyta

Tenglar breyta