Dómkirkjan í Hildesheim

Dómkirkjan í Hildesheim er merkasta bygging þýsku borgarinnar Hildesheim. Hún var reist á 9. öld og eru í henni mýmörg miðalda listaverk. Kirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.

Dómkirkjan er helguð heilagri Maríu mey

Saga dómkirkjunnar

breyta
 
Rósarunninn við dómkirkjuna er sá elsti í heimi

Kirkjan er orðin mjög gömul. Smíðin hófst 872 undir Altfrid biskup. Frá 11. öld og allt til 14. aldar voru framkvæmdar stækkanir og gerðar viðbyggingar. Í siðaskiptunum varð dómkirkjan lútersk og er hún það enn. Kirkjan stórskemmdist í loftárásum 1945. Viðgerðir fóru fram 1950-60. Dómkirkjan var sett á heimsminjaskrá UNESCO 1985.

Rósarunni

breyta

Þekktur er einnig rósarunni nokkur sem vex á lóð kirkjunnar. Þjóðsagan segir hann hafa verið plantaður árið 815 af Lúðvík hinum þýska (barnabarn Karlamagnúsar). Lúðvík var eitt sinn á veiðum og áði á góðum stað þar sem hann lét lesa messu. Á meðan hafði hann hengt upp helgiskrín af Maríu mey á rósarunna. En þegar messu lauk hafi verið ómögulegt að losa skrínið af runnanum. Því hafi hann ákveðið að láta reisa dómkirkjuna á staðnum og helga hana Maríu mey. Runninn er nú að verða 1.200 ára gamall, en ekki er lengur hægt að sanna aldur hans. Í loftárásum 1945 brann runninn og grófst undir braki kirkjunni. Þá þótti mönnum sem endalok runnans væru komin. En ræturnar reyndust lifandi og úr þeim tókst að mynda nýja runna. Þeir blómguðust í fyrsta sinn 1947. Síðan þá er rósin einkennismerki borgarinnar. Rósarunninn er elsta lifandi rós heims.

Listaverk

breyta

Bernwardshurðin

breyta
 
Bernwardshurðin

Á vesturhlið dómkirkjunnar er mikil bronshurð, kölluð Bernwardshurðin. Þær eru reyndar tvær og voru gerðar 1015. Báðar eru þær skreyttar myndum úr Biblíunni. Myndirnar sýna sköpunina, syndafallið og önnur atriði úr 1. Mósebók, en einnig atriði úr ævi Jesú. Hurðirnar sjálfar eru 4,7 m háar, en misbreiðar (114 cm og 125 cm). Myndirnar eru elsta stóra myndasería Þýskalands. Þær sneru upphaflega út, þannig að gangandi vegfarendur og kirkjugestir gátu litið á þær. En í seinni tíð var hurðunum breytt þannig að myndirnar snúa inn. Það var gert í forvarnarskyni, svo þær yrðu síður fyrir skemmdum eða áfalli vegna bílaumferðar.

Kristssúlan

breyta

Kristssúlan (oft kölluð Bernwardssúlan) átti upphaflega að standa í Mikjálskirkjunni í Hildesheim, þar sem heilagur Bernward hvílir. Það var Bernward sjálfur sem lét smíða súluna úr bronsi og voru Trajanusarsúlan og Markús-Árelíusar-súlan í Róm fyrirmyndir. Myndefnið var greypt á í spíralformi niður á við. Í stað atriða úr ævi rómversku keisaranna, var myndefnið um Jesú, allt frá skírn hans í ánni Jórdan til innreiðar hans í Jerúsalem á pálmasunnudegi. Súlan stóð upphaflega á miklum palli, einnig úr bronsi, en efst á súlunni var gríðarmikill kross. Bæði pallurinn og krossinn eru horfin. Pallurinn var bræddur og bronsið notað í fallbyssu. Krossinn var stolinn (og sennilega seldur eða bræddur) 1544 í trúaróróa siðaskiptanna. Eftir stóð súlan ein. Hún sjálf er 379 cm á hæð og 58 cm í þvermál. Þegar Frakkar lögðu söfnuðinn niður á Napoleonstímanum 1810, tók sig biskup einn til og keypti súluna með aðstoð efnaðra borgara. Hún var í kjölfarið sett í jörð á torgi einu í borginni. 1870 var nýr pallur smíðaður fyrir súluna, en vegna vaxandi umferðarþunga var hún sett inn í dómkirkjuna 1893. Þar stóð súlan allt til 2009, er framkvæmdir hófust við uppgerð kirkjunnar. Var hún þá færð á upprunalega stað sinn, í Mikjálskirkjuna. Þar stendur hún í dag og verður ekki færð aftur í dómkirkjuna fyrr en að framkvæmdum loknum, árið 2014.

Hringljósið

breyta

Í kirkjunni hangir hringlaga ljósakróna (á þýsku: Heziloleuchter). Hún var smíðuð um miðja 11. öld af Hezilo biskupi og þaðan er þýska heitið komið. Hringljósið er gert úr kopar og húðað gulli. Á hlið þess er innskrift á latínu. Hringurinn er 6 metra í þvermál. Á efri hluta hans hvíla 72 kerti. Um sinn hékk hringljósið fyrir ofan Kristssúluna, þar til súlan var færð úr kirkjunni 1810. Aðeins þrjú önnur hringljós eru til í Þýskalandi: Í Antoníusarkirkjunni í Hildesheim, í dómkirkjunni í Aachen og í klausturkirkjunni í Comburg. Hringljósið sem þessari kirkju er hins vegar það stærsta.

Bernwardkrossinn

breyta

Bernwardkrossinn er merkasti dýrgripurinn í Hildesheim. Hér er ekki um krossinn, sem stóð uppi á Kristssúlunni að ræða, heldur kross sem Bernward biskup lét smíða í kringum flísar úr krossi Jesú. Sagan segir að Otto III keisari hafi gefið biskupi flísarnar snemma á 11. öld. Hins vegar er talið að sá kross hafi týnst og að núverandi kross sé eftirmynd frá 12. öld. Krossinn sjálfur er 48 cm hár og alsettur gimsteinum. Krossflísarnar eru fyrir neðan stóra bergkristalinn fyrir miðju. Upphaflega stóð krossinn á altarinu í Mikjálskirkjunni. 1810 var hann fluttur í Magdalenukirkjuna, en í dómkirkjuna á 20. öld.

Skírnarfontur

breyta
 
Blekbyttumaría

Skírnarfonturinn í dómkirkjunni er gerður úr bronsi og var smíðaður snemma á 13. öld. Fonturinn lítur út eins og risa ketill með stóru loki. Hann er alls 170 cm á hæð og 96 cm í þvermál. Fonturinn hvílir á fjórum mannsfígúrum sem eiga að tákna dyggðir. Bæði á fontinum og á lokinu eru myndir af skírnum og nokkrar áletranir. Fonturinn stóð upphaflega í vesturhluta kirkjuskipsins, en stendur í dag í einni hliðarkapellunni (Georgskapellunni). Eftir uppgerð kirkjunnar (verklok 2014) er ráðgert að setja fontinn undir hringljósið.

Blekbyttumaría

breyta

Blekbyttumaría (Tintenfassmadonna) er heiti á Madonnumynd sem hangir í dómkirkjunni. Hún var smíðuð 1430 og sýnir Maríu mey í bláu klæði með gullkórónu á höfði. Í vinstri hendi heldur hún á Jesúbarninu, en í hægri hendi heldur hún á blekbyttu. Þaðan er heitið tilkomið. Jesúbarnið sjálft heldur á ritfjöður og er að skrifa á bókrollu sem hvílir á hnjám hans. Slíkt mótíf er afar sjaldgæft í Madonnumyndum. Talið er að Jesús sé þarna að rita nöfn réttlátra manna í Bók lífsins.

Hvíldarstaður heilagra

breyta

Í dómkirkjunni hvíla tveir heilagir: Heilagur Epifaníus frá Pavía og heilagur Godehard frá Hildesheim. Skrín með líkamsleifum beggja er að finna í kirkjunni, þó sitt á hvorum staðnum.

Gallerí

breyta

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Hildesheimer Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.