Rós er líka mannsnafn.

Rós er blómplanta af ættkvíslinni Rosa. Rósir hafa verið mönnum yrkisefni um langan aldur, bæði skálda og garðyrkjumanna. Rósin hefur stundum verið kölluð „drottning blómanna”. Ættkvísl rósa er bæði stór og fjölbreytt og litadýrð mikil. Til rósa teljast um 100-200 villitegundir auk fjölmargra kynblendinga sem vaxa villtir. Þá skipta rósayrki þúsundum enda hefur rósin verið ræktuð í um 2000 ár. Uppruni flestra rósa er óljós eftir margra alda kynblöndun.

Rós

Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Rósaættbálkur (Rosales)
Ætt: Rósaætt (Rosaceae)
Undirætt: Rosoideae
Ættkvísl: Rosa L.
Tegundir

Um 100, sjá grein

Alþjóðasamband rósafélaga (World Federation of Rose Societies) samþykkti á fundi 1979 að hverfa frá gömlum hugtökum eins og „Hybrid Tea” og „Floribunda” þar sem þau höfðu tapað upphaflegri merkingu sinni vegna mikillar kynblöndunar. Allflestir aðilar, sem koma nærri rósaræktun, viðurkenna þetta kerfi.

Flokkun

breyta

Rósum er skipt upp í nokkra flokka. Eftirfarandi flokkun tekur mið af því hvar og hvernig rósirnar eru ræktaðar. Síðan eru nefndar tvær heppilegar tegundir til ræktunar á Íslandi í hverjum flokki.

Flækju- og klifurrósir: Flækju- og klifurrósum er plantað við grindur, girðingar eða stólpa eða annað þar sem hægt er að binda þær upp. Þeim er skipt upp í tvo undirflokka: Einblómstandi rósir, en þá springa öll blóm út í einni lotu. Lotublómstrandi rósir, en þá myndast blóm í lotum á nýjum sprotum svo lengi sem tíðin leyfir fram á haust. Dæmi um einblómstrandi rósir í þessum flokki sem hægt er að rækta á Íslandi eru: R.‘Polstjärnan’ er með lítil þétt fyllt blóm, hvít og ilmar ekki og getur orðið 3-4 m. R.‘Max Graf’er stór, einföld, ljósrauð og ilmar ekki. Verður 2 m á hæð. Dæmi um lotublómstrandi rósir sem geta vaxið á Íslandi eru: R. ‘Symphatie’ er með mjög stór, fyllt blóm, djúppurpurarauð sem ilma lítið. Verður um 3 m á hæð. R.‘Leverkusen’ er mjög stór, þéttfyllt og sterk ilmandi rós með daufgulum blómum og verður um 3 m á hæð.

Stórrunnarósir: Stórrunnarósir mynda háa runna, oftast yfir metra á hæð. Þeim er skipt í tvo undirflokka, einblómstrandi og lotublómstrandi. Einblómstrandi sem hægt er að rækta á Íslandi eru: R.‘Persian Yellow’, stór gul þéttfyllt blóm, ilmar og verður um 1,5 m á hæð. R. ‘Spendens’, stór hálffyllt, djúppurpurarauð, ilmar ekki og verður um 1,4 m á hæð. Lotublómstrandi sem lifa á Íslandi eru R. ‘Hansa’, stór fyllt skærpurpurarauð blóm sem ilma. Verður 1,2 m á hæð. R. rugrosa eða ígulrós er stór einföld, dökkpurpurarauð og ilmar. Hún verður 1,2 m á hæð.

Smárunnarósir: Smárunnarósum er plantað saman í þyrpingar eða skrautbeð og eru innan við 3 metra á hæð. Þeim er skipt í tvo undirflokka. Stilkrósir (stórblóma rósir) en þær bera stök blóm eða mjög fá á alllöngum og kraftmiklum stilkum. Klasarósir eða skúfrósir bera mörg blóm á stuttum stilkum í blómmörgum klösum. Þessar smárunnarósir á að vera hægt að rækta á Íslandi: R. ‘Queen Elizabet’, mjög stór, fyllt ljóspurpurarauð blóm, ilmar lítið og getur orðið 0,9 m á hæð. R. ‘Super star’ er með mjög stór, fyllt bleikrauðgul blóm en ilmar lítið. Getur orðið 0,8 m há.

Þekju- og dvergrósir: Þekjurósir eru skriðular rósir sem vaxa meira á breiddina en hæðina. Dvergrósir eða pottarósir eru smávaxnar rósir með smágerð lauf og smá blóm. Þeim svipar mikið til klasarósa og henta best í steinhæðir, hlaðin beð eða ker. Stofnrósir eru rósir sem eru græddar á harðan legg harðgerrar rósar sem leggur til undirvöxtinn. Þær eru allar viðkvæmar og mælt er með því að hýsa þær yfir veturinn. Að öðrum kosti er varla hægt að rækta þær. Hægt er að rækta slíkar rósir hér á landi en sem dæmi um það eru: R. ‘Raubritter’, stór hálffyllt ljóspurpurarauð blóm sem ilma lítið. Verður 0,8 m á hæð. R. ‘The Fairy’, smá þéttfyllt og sterkbleik blóm sem ilma lítið. Þessi rós verður aðeins 0,5 m á hæð.

Rósarækt á Íslandi

breyta

Á Íslandi hefur áhugi fyrir rósum og rósarækt farið vaxandi og nú er starfandi rósaklúbbur Garðyrkjufélags Íslands [1] Geymt 29 september 2007 í Wayback Machine. Garðyrkjustöðvar eru með úrval rósa.

Heimildir

breyta
  • „Rósaklúbburinn“. Sótt 12.mars 2006.
  • „Rose - myndir af rósum“. Sótt 12.mars 2006.
  • „Garðyrjustöðin Storð“. Sótt 12.mars 2006.
  • „Garðyrkjustöðin Birkihlíð“. Sótt 12.mars 2006.
  • „Pantanir hjá Rósaklúbbnum“ (PDF). Sótt 12.mars 2006.
  • „Garðyrkjustöð Ingibjargar -Rósir“. Sótt 12.mars 2006.
  • „Garðheimar -Rósastilkar“. Sótt 12.mars 2006.
  • „Garðyrkjustöðin Nátthagi - Rósir harðgerar“. Sótt 12.mars 2006.
  • Ágúst H. Bjarnason (1997). Stóra Garðabókin.

Tenglar

breyta