Bergen op Zoom er borg í héraðinu Norður-Brabant í Hollandi og er með 66 þúsund íbúa. Borgin er þekkt fyrir miðaldablæ sinn sem varðveist hefur í gegnum aldirnar.

Bergen op Zoom
Fáni
Skjaldarmerki
Staðsetning
HéraðNorður-Brabant
Flatarmál
 • Samtals93,13 km2
Mannfjöldi
 (31. desember 2010)
 • Samtals66.048
 • Þéttleiki709/km2
Vefsíðawww.bergenopzoom.nl

Lega og lýsing

breyta

Bergen op Zoom liggur við árbakka Schelde (Oosterschelde) nær vestast í Norður-Brabant, alveg við héraðið Sjáland og aðeins steinsnar frá belgísku landamærunum. Næstu borgir eru Antwerpen í Belgíu til suðurs (40 km), Breda til norðausturs (40 km) og Dordrecht til norðurs (50 km).

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Fáni borgarinnar eru þrjár láréttar rendur. Mjó rauð rönd, breið hvít og mjó rauð. Til hægri í hvítu röndinni kemur skjaldarmerkið fyrir. Litirnir eru borgarlitir Bergen op Zoom. Fáninn var tekinn í notkun í kringum 1870. Skjaldarmerkið sýnir þrjá silfurlitaða Andrésarkrossa á rauðum grunni. Í forgrunni eru þrjár grænar hæðir, sem merkja árbakka Schelde og koma fyrir í heiti borgarinnar. Risarnir og kórónan eru síðari tíma viðbætur.

Orðsifjar

breyta

Bergen er ekki nefnd eftir fjöllum (eins og hið norska Bergen), heldur því að borgin stendur við bakka Schelde. Hér þýðir Bergen því árbakki. Zoom merkir rönd (sbr. Saum á þýsku).

Söguágrip

breyta
 
Módel af Bergen op Zoom frá fyrri árum. Geirþrúðarkirkjan er mest áberandi.

Bergen op Zoom myndaðist við samruna þriggja bæja á miðöldum. Bærinn var víggirtur 1330 og hlaut borgarréttindi 1347. Á miðöldum var borgin með höfn við Schelde og var þá samkeppnisaðili Antwerpen, sem liggur aðeins sunnar. En með framburði lokaðist höfnin smátt og smátt. Þegar frelsisstríð Hollendinga var í gangi á 16. öld var Bergen eitt sterkasta vígi Hollendinga gegn Spánverjum. Fjórum sinnum sátu Spánverjar um borgina, 1581, 1588, 1605 og 1622, en í öll skiptin héldu varnir hennar og urðu Spánverjar frá að hverfa. Á hinn bóginn orsakaði stríðið mikla niðursveiflu í atvinnulífi borgarinnar og lauk blómaskeiði hennar um miðja 17. öld. Hins vegar féll borgin í hendur Frökkum 1747 eftir 70 daga umsátur í austurríska erfðastríðinu, en þeim var gert að skila henni ári síðar í friðarsamningunum í Aachen. Frakkar tóku borgina aftur 1795 og héldu henni þar til Vínarfundurinn skipaði þeim að skila henni 1814. Árið 2007 var Bergen op Zoom kjörin besta innanlandsborgin í Hollandi (í kategoríunni meðalstórar borgir).

Byggingar og kennileiti

breyta
  • Geirþrúðarkirkjan stendur við aðalmarkaðstorg borgarinnar. Elsti hluti hennar er turninn (kallaður De Peperbus), en hann er frá 1370 og tilheyrði fyrirrennarakirkjunni. Núverandi bygging var reist á 15. öld og var þá kaþólsk. En í siðaskiptunum ruddist múgur inn í hana 1580 og eyðilagði helgimyndir. Síðan þá hefur kirkjan verið kalvínísk. Kirkjan stórskemmdist í fallbyssuárás Frakka 1747 og var að mestu endurreist 1750. Í dag fara guðsþjónustur bæði kaþólikka og Kalvínista fram í kirkjunni.
  • Markiezenhof er greifakastalinn í borginni. Hann var reistur á 14. öld fyrir Jan II greifa og er einn af yngstu gotnesku kastölum í Vestur-Evrópu. Frakkar notuðu kastalann sem herspítala en eftir það var hann herstöð, þar til byggingin var orðin of léleg til notkunar. Kastalinn var gerður upp á sjöunda áratug 20. aldar og var hann ekki opnaður fyrr en 1987 af Beatrix drottningu. Kastalinn er safn í dag.
  • Ráðhúsið stendur við aðalmarkaðstorgið. Það var reist 1398–1403 og er því 600 ára gamalt.
  • Gevangenpoort er gamalt borgarhlið. Það var reist á 14. öld og er eitt elsta borgarhlið Hollands sem enn stendur. Hliðið þjónaði sem fangelsi í margar aldir, allt til 1931, en þaðan er heitið til komið (Gevangen = fanga).

Heimildir

breyta