Alejandro Scopelli Casanova (f. 12. maí 1908 - d. 23. október 1987) var knattspyrnumaður og -þjálfari frá Argentínu. Hann var í landsliði þjóðar sinnar sem lék til úrslita á HM 1930 síðar fluttist hann til Evrópu og lék einn leik með ítalska landsliðinu og stýrði loks fjölda liða á fjögurra áratuga tímabili.

Ævi og ferill breyta

 
Alejandro Scopelli.

Alejandro Scopelli fæddist í La Plata og gekk árið 1926 í raðir borgarliðsins Estudiantes þar sem hann lék til ársins 1933. Hann var valinn í leikmannahóp Argentínu sem keppti í Úrúgvæ 1930. Hann kom aðeins við sögu í einum leik, í undanúrslitunum gegn Bandaríkjunum þar sem hann skoraði eitt mark í 6:1 sigri.

Árið 1933 bættist Scopelli, sem var af ítölskum ættum, í hóp þeirra argentínsku knattspyrnumanna sem héldu til Ítalíu og nýttu sér að geta fengið ítalskt ríkisfang með hraði. Hann var í herbúðum A.S. Roma frá 1933-35 og lék með ítalska landsliðinu í vináttuleik gegn Frökkum. Hann átti aftur eftir að skipta um landslið og vinna Copa America með liði Argentínu árið 1937, þar sem hann skoraði tvö mörk.

Þjálfaraferill breyta

Eftir ársdvöl hjá Racing Club aftur heima í Argentínu 1936-37 hélt Scopelli á ný til Evrópu og lék með liðum í bæði Frakklandi og Portúgal uns hann ákvað að snúa aftur til Suður-Ameríku eftir að heimsstyrjöldin braust út. Síðustu ár sín sem leikmaður sinnti hann jafnframt þjálfun og sneri sér alfarið að henni árið 1943.

Næstu áratugina flakkaði Scopelli milli Portúgal, Spánar, Mexíkó og Síle þar sem hann þjálfaði fjölda félagsliða auk þess að stýra landsliði Síle um skeið. Hans stærsta afrek á þjálfunarsviðinu var að leiða spænska liðið Valencia til sigurs í borgakeppni Evrópu árin 1962 og 1963 eftir sigra í úrslitaeinvígjum gegn Barcelona og Dinamo Zagreb.

Heimildir breyta