Þorsteinn Briem (3. júlí 188516. ágúst 1949) var íslenskur prestur, stjórnmálamaður, alþingismaður og ráðherra. Hann var formaður Bændaflokksins frá 1935-1942.

Þorsteinn var fæddur á Frostastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði, sonur Ólafs Briem alþingismanns og konu hans Halldóru Pétursdóttur. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1905 og guðfræðiprófi frá Prestaskólanum 1908. Árið 1909 varð hann aðstoðarprestur í Görðum á Álftanesi en fékk Grundarþing í Eyjafirði 1911 og sat á Hrafnagili. Árið 1918 varð hann prestur á Mosfelli í Grímsnesi en árið 1921 var honum veitt Akranesprestakall og gegndi hann því þar til hann lét af embætti vegna veikinda 1946, nema á meðan hann gegndi ráðherraembætti. Hann var prófastur í Borgarfjarðarprófastsdæmi frá 1931. Hann þótti mikill kennimaður og mjög góður ræðumaður.

Hann varð atvinnu- og samgöngumálaráðherra og jafnaframt kirkju- og kennslumálaráðherra í ríkisstjórn Ásgeirs Ásgeirssonar 1932 þótt hann ætti þá ekki sæti á þingi en hefði starfað innan Framsóknarflokksins. Hann fékk lausn 16. nóvember 1933, sagði sig úr Framsóknarflokknum og tók þátt í stofnun Bændaflokksins, en gegndi þó ráðherrastörfum áfram til 28. júlí 1934. Þá hafði hann verið kjörinn á þing sem landskjörinn þingmaður í Dalasýslu, einn af þremur þingmönnum Bændaflokksins. Hann tók við formennsku í Bændaflokknum 1935, þegar Tryggvi Þórhallsson lést. Í kosningunum 1937 var Þorsteinn eini þingmaður Bændaflokksins sem náði kjördæmakjöri. Hann var þingmaður til kosninganna 1942.

Þorsteinn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Valgerður Lárusdóttir (12. október 1885 – 26. apríl 1924), dóttir Lárusar Halldórssonar alþingismanns og Kristínar Pétursdóttur Guðjohnesen, og áttu þau fimm dætur. Seinni kona Þorsteins var Oktavía Emilía Pétursdóttir Guðjohnsen (25. apríl 1886 – 21. maí 1967) og voru þau barnlaus.

Heimildir breyta

  • „„Minningarorð. Séra Þorsteinn Briem". Alþýðublaðið, 23. ágúst 1949“.
  • „Æviágrip á vef Alþingis. Skoðað 27. maí 2011“.