Tryggvi Þórhallsson
Tryggvi Þórhallsson (9. febrúar 1889 – 31. júlí 1935) var forsætisráðherra Íslands árin 1927 til 1932. Hann var sonur Þórhalls Bjarnarsonar biskups. Hann lærði guðfræði, tók vígslu 1913 og var prestur á Hesti í Borgarfirði til 1916, en þá fluttist hann til Reykjavíkur og var settur dósent í guðfræði við Háskóla Íslands en árið 1917 varð hann ritstjóri Tímans og gegndi því starfi í 10 ár. Hann var kjörinn þingmaður Strandamanna fyrir Framsóknarflokkinn 1923.
Hann var gerður að foringja flokksins og myndaði ríkisstjórn Tryggva Þórhallssonar sem sat frá 1927-1932. Í þeirri stjórn var hann atvinnumálaráðherra auk þess að fara með forsætisráðherraembættið. Hann var þekktastur fyrir að hafa rofið þing árið 1931, rétt áður en til stóð að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn hans. Í kosningunum sem fylgdu fékk Framsóknarflokkurinn meirihluta þingsæta með aðeins 35% kjörfylgi, en eitt af hitamálunum sem leiddu til vantrauststillögunnar og þingrofsins voru fyrirhugaðar umbætur í kosningakerfinu, þar sem til stóð að fjölga þingmönnum Reykvíkinga á kostnað landsbyggðarinnar.
Stjórn Tryggva sat því áfram en fór frá vorið 1932. Árið 1933 sagði Tryggvi sig úr Framsóknarflokknum ásamt fleirum og stofnaði Bændaflokkinn, sem fékk þrjá þingmenn í kosningunum 1934 en sjálfur féll Tryggvi í Strandasýslu fyrir Hermanni Jónassyni. Hann dró sig þá að mestu í hlé frá stjórnmálum, enda orðinn heilsuveill og lést ári síðar.
Tryggvi var bankastjóri Búnaðarbankans frá 1932 til æviloka.
Eitt og annaðBreyta
- Skopblaðið, Spegilinn, kallaði Tryggva Þórhallson Stóra núllið þegar hann var forsætisráðherra en Jónas Jónsson frá Hriflu þótti ráða mestu í þeirri ríkisstjórn.
TenglarBreyta
- Æviágrip á heimasíðu Alþingis
- Tryggvi Þórhallsson, bankastjóri; andlátsfregn í Morgunblaðinu 1935
- Tryggvi Þórhallsson, aldarminning; Grein í Morgunblaðinu 9. febrúar 1989
- Séra Tryggvi Þórhallsson; Minningartorð eftir séra Þorstein Briem prófast, Kirkjuritið október 1935, bls. 343–347.
- Tryggvi Þórhallsson; þorkell Jóhannesson, Andvari janúar 1939, bls. 3–27.
Fyrirrennari: Jón Þorláksson |
|
Eftirmaður: Ásgeir Ásgeirsson | |||
Fyrirrennari: Þorleifur Jónsson |
|
Eftirmaður: Ásgeir Ásgeirsson |