Bændaflokkurinn (síðari)
Bændaflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur sem stofnaður var 14. desember árið 1933 af nokkrum meðlimum Framsóknarflokksins. Persónulegur ágreiningur sem og deilur um hvort Framsóknarflokkurinn skyldi heldur hallast til hægri eða vinstri voru kveikjan að stofnun flokksins.
Saga
breytaEfnt var til Alþingiskosninga 1933 eftir nýrri kjördæmaskipan. Samstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Ásgeirs Ásgeirssonar hélt velli en harðar deilur stóðu þó innan Framsóknarflokksins um ágæti stjórnarsamstarfsins og höfðu gert um allnokkra hríð. Jónas Jónsson frá Hriflu hafði mikil áhrif í flokknum þrátt fyrir að gegna þar ekki formennsku og vildi hann fremur mynda stjórn með Alþýðuflokknum og fylgdi meirihluti þingmanna flokksins honum að málum. Í aðdraganda kosninganna stofnuðu andstæðingar Jónasar innan flokksins vikublaðið Framsókn: bændablað - samvinnublað og varð það aðalmálgagn Bændaflokksins eftir stofnun hans og kom út frá 1933-1941.
Þingkosningarnar fóru fram í júlí og kom Alþingi saman til aukaþings í nóvember. Þar var borin upp sú tillaga að slíta skyldi stjórnarsamstarfinu en mynda þess í stað stjórn með Aþýðuflokki, sem hefði minnsta mögulega meirihluta. Þingmennirnir Hannes Jónsson og Jón Jónsson í Stóradal neituðu að styðja stjórnarmyndun þessa og var þeim þá vikið út Framsóknarflokknum. Gengu þá þrír þingmenn til viðbótar úr flokknum, þeir Ásgeir Ásgeirsson, Tryggvi Þórhallsson og Halldór Stefánsson, auk Þorsteins Briem sem gegndi ráðherradómi þrátt fyrir að sitja ekki á þingi.
Tilkynnt var um stofnun Bændaflokksins um miðjan desember með þátttöku allra fyrrnefndra manna nema Ásgeirs Ásgeirssonar sem kaus að sitja utan flokka. Ríkisstjórn hans hafði beðist lausnar skömmu eftir að aukaþingið kom saman, en gegndi þó störfum til loka júlí árið 1934, þegar gengið hafði verið til nýrra kosninga.
Alþingiskosningarnar 1934 urðu Bændaflokknum veruleg vonbrigði. Flokkurinn hlaut einungis um 6,5% atkvæða og þrjá þingmenn, þá Þorstein Briem, Hannes Jónsson og Magnús Torfason. Einna mesta athygli vakti að formaðurinn Tryggvi Þórhallsson kolféll fyrir Hermanni Jónassyni í Strandasýslu. Þingmönnum flokksins fækkaði úr þremur í tvo snemma á kjörtímabilinu þegar Magnús Torfason gerðist stuðningsmaður ríkisstjórnar Hermanns Jónassonar og gekk á ný til liðs við Framsóknarflokkinn.
Fyrir Alþingiskosningarnar 1937 mynduðu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur svokallað Hræðslubandalag til að hámarka þingstyrk sinn miðað við kjörfylgi. Sjálfstæðisflokkur og Bændaflokkur svöruðu fyrir sig með sams konar kosningabandalagi, sem nefndist Breiðfylking. Skiluðu kosningarnar Bændaflokknum um 6% atkvæða og tveimur mönnum, þeim Þorsteini Briem og Stefáni Stefánssyni í Fagraskógi. Þetta voru síðustu kosningar Bændaflokksins. Hann bauð ekki fram í kosningunum 1942 og gengu flokksmenn ýmist til liðs við Framsóknarflokk eða Sjálfstæðisflokk.
Tilvísanir og heimildir
breyta- Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0293-9.