Þjórsárhraunið mikla

(Endurbeint frá Þjórsárhraun)

Þjórsárhraunið mikla er stærsta hraun á Íslandi bæði að flatarmáli og rúmmáli og stærsta hraun sem vitað er um að komið hafi upp í einu gosi á jörðinni á nútíma (þ.e. frá lokum síðasta jökulskeiðs fyrir um 11500 árum). Hraunið rann milli Heklu og Búrfells og niður farveg Þjórsár og yfir láglendið á Skeiðum og Flóa og um 1 km út í sjó. Það tilheyrir flokki hrauna sem nefnast Tungnárhraun. Hraunið er helluhraun úr stórdílóttu basalti. Það kom upp í eldstöðvum á Veiðivatnasvæðinu fyrir 8600 árum (um 6600 f. Kr.). Eldstöðvarnar eru horfnar undir yngri gosmyndanir og á um 70 km löngum kafla niður með Tungná og Þjórsá er hraunið nær alstaðar hulið yngri hraunum. Gloppubrún á Landi myndar framjaðar þessa yngra hraunaflæmis en þar fyrir neðan þekur Þjórsárhraunið miklar víðáttur í Landsveit og Gnúpverjahreppi, á Skeiðum og í Flóa. Þjórsá og Hvítá/Ölfusá streyma niður með jöðrum hraunsins að austan og vestan. Þjórsárhraunið myndar ströndina milli Þjórsár- og Ölfusárósa. Sjór virðist hafa staðið 15 m lægra er hraunið rann en hann gerir nú. Við hækkandi sjávarborð hefur sjórinn flætt inn yfir hraunjaðarinn sem nú liggur neðansjávar mörg hundruð metra úti fyrir ströndinni. Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri standa á Þjórsárhrauni. Þykkt hraunsins er víða 15-20 m og um 40 m þar sem það er þykkast. Flatarmálið er áætlað um 970 km² og rúmtakið um 25 km³. Þjórsárhraunið er gert úr dílabasalti þar sem stórir ljósir feldspatdílar sitja í dökkum fínkorna grunnmassa. Gossprungan var á hálendinu 130 km frá sjó á milli Þórisvatns og Veiðivatna. Ekki er vitað nákvæmlega hvar hún var né hversu löng hún var. Hraunjaðarinn er nú marbakki undan Stokkseyri og Eyrarbakka. Þjórsárhraun þekur landsvæðið milli Ölfusár og Þjórsár en það er víða hulið þykku jarðvegslagi. Víða í hrauninu eru dældir og bollar sem kallaðar eru dælur. Þó að hraunið sé víðast hulið þykku jarðvegslagi þá má sums staðar enn sjá hraunið, t.d. í Stokkseyrarfjöru og við Búðafoss en hann steypist fram af hraunbrúninni.

Þjórsárhraunið mikla er hér sýnt í rauðum lit þar sem það sést á yfirborði. Á Veiðivatnsavæðinu er það hulið yngri hraunum (Kort eftir Guðmund Kjartansson, jarðfræðing)
Hið forna Þjórsárhraun er víðast hulið jarðvegi en það sést vel ofan við Urriðafoss

Heimildir

breyta
  • Árni Hjartarson 1988: „Þjórsárhraunið mikla - stærsta nútímahraun jarðar“. Náttúrufræðingurinn 58: 1-16.
  • Árni Hjartarson 1994: „Environmental changes in Iceland following the Great Þjórsá Lava Eruption 7800 14C years BP“. Hjá J. Stötter og F. Wilhelm (ritstj.) Environmental Change in Iceland (Munchen): 147-155.
  • Árni Hjartarson 2011: Víðáttumestu hraun Íslands. Náttúrufræðingurinn 81, 37-48.
  • Elsa G. Vilmundardóttir 1977: Tungnárhraun, jarðfræðiskýrsla. OS ROD 7702, 156 bls. + kort.


Tenglar

breyta