Veiðivötn
64°06′58″N 18°50′53″V / 64.11611°N 18.84806°V
Veiðivötn eru vatnaklasi á Landmannaafrétti milli Þórisvatns og Tungnaár, sem samanstendur af allt að fimmtíu vötnum, bæði smáum og stórum. Veiðivatnasvæðið er u.þ.b. 20 km langt og 5 km breitt frá suðvestri til norðausturs.
Mörg vötnin eru sprengigígar sem mynduðust í Veiðivatnagosinu 1477, t.d. Hnausapollur og Ljótipollur. Vatnaklasinn varð til í núverandi mynd í þessu eldgosi. Fjölmörg eldgos hafa orðið á Veiðivatnasvæðinu frá því ísöld lauk, t.d. gosið í Vatnaöldum í upphafi landnámstíðar (um 870) en þá myndaðist landnámsgjóskulagið. Tungnárhraunin, þar á meðal Þjórsárhraunið mikla, eru upprunnin frá Veiðivatnasvæðinu. Veiðivötn eru hluti af Bárðarbungu eldstöðvakerfinu.
Helstu vötn: Ljótipollur, Grænavatn, Skyggnisvatn, Snjóölduvatn, Ónýtavatn, Skálavatn, Litli-Sjór, Langavatn, Skerið, Stóra- og Nyrsta Hraunvatn, Nýjavatn, Tjaldvatn og Drekavatn.
Veiði
breytaVeiði í vötnunum hefur líklega verið stunduð frá fyrstu öldum byggðar og er þeirra getið í Njálu (sem Fiskivötn). Í vötnunum er mikil urriðaveiði en bleikju hefur einnig fjölgað á síðustu árum, sérstaklega í þeim vötnum sem eiga samgang við Tungnaá. Urriðinn í vötnunum þykir sérstaklega vænn og er af ísaldarstofni, þ.e. sjóbirtingur sem lokaðist inni við lok síðustu ísaldar.
Stangveiði er mikið stunduð í vötnunum og er fjöldi stanga takmarkaður við áttatíu stangir á dag.
Tengt efni
breytaTenglar
breyta- Náttúrufræðistofnun - Veiðivötn Geymt 9 mars 2021 í Wayback Machine
- Nat.is - Veiðivatnasvæðið Geymt 14 desember 2007 í Wayback Machine
- South.is - Veiðivötn[óvirkur tengill]
- Veiðivatnasíða Arnar Óskarssonar.