Þýsku riddararnir
Þýsku riddararnir, einnig þekktir sem þýska riddarareglan, maríuriddarar eða tevtónareglan (latína Ordo domus Sanctæ Mariæ Theutonicorum Hierosolymitanorum, þýska Orden der Brüder vom Deutschen Haus St. Mariens in Jerusalem eða Der Deutsche Orden), var þýsk riddararegla sem enn er við lýði en nú sem kaþólsk trúarregla.
Reglan var stofnuð til að aðstoða kristna menn í pílagrímsferðum til Landsins helga og einnig til að koma á fót sjúkrahúsum og hælum til að annast særða og sjúka. Meðlimir reglurnar voru yfirleitt kallaðir Þýsku riddararnir eða tevtónsku riddararnir. Reglan var alltaf tiltölulega fámenn en var styrkt með sjálfboðaliðum eða málaliðum þegar á þurfti að halda.
Saga
breytaReglan var stofnuð í borginni Akkó í Landinu helga í lok miðalda og gegndi mikilvægu hlutverki í ríkjum krossfaranna um skeið. Eftir að kristnir menn hröktust frá Miðausturlöndum fluttist reglan til Transylvaníu árið 1211 og aðstoðaði þar Ungverja við að verjast árásum úr austri. Þaðan var hún þó rekin með valdi árið 1225, að sögn vegna þess að riddararnir vildu eingöngu lúta valdi páfa en ekki Ungverja.
Eftir það einbeittu Þýsku riddararnir sér að baltnesku Prússunum, sem bjuggu við suðaustanvert Eystrasalt. Þeir voru enn heiðnir og það voru Eystrasaltslöndin einnig að hluta. Þýsku riddararnir fóru í krossferð, lögðu land baltnesku Prússanna undir sig og stofnuðu þar eigin ríki, sem var kallað Deutschordensland eða einfaldlega Prússland. Sverðbræðrareglan, sem réði yfir hluta Líflands, sameinaðist Þýsku riddurunum árið 1237 og reglan lagði svo allt Lífland undir sig.
Þann 1. nóvember 1346 keypti reglan hertogadæmið Eistland af Valdimar atterdag Dankonungi. Þá náði ríki Þýsku riddaranna yfir alla austanverða strönd Eystrasalts, frá Prússlandi norður til Eistlands. Oft kom þó til uppreisna gegn þeim og þeir áttu í skærum við konunga Póllands og stórhertogadæmið Litháen. Eftir að Litháar, síðasta heiðna þjóð Evrópu, tóku kristni 1387 má segja að tilgangi reglunnar hafi verið náð og hún hafði ekki lengur fyrir neinu að berjast. Hún hélt þó áfram starfsemi, réði yfir víðáttumiklum löndum og var stórauðug.
Pólverjar og Litháar gengu í bandalag gengn Þýsku riddurunum og sigruðu þá í orrustunni við Grünwald árið 1410, sem var einn fjölmennasti bardagi miðalda í Evrópu. Flestir leiðtogar riddaranna féllu eða voru teknir til fanga og þótt reglan héldi löndum sínum að mestu í friðarsamningunum eftir bardagann varð hernaðarmáttur hennar aldrei sá sami og fjárhagurinn fór líka versnandi svo að riddararnir höfðu ekki efni á að leigja sér málaliða í sama mæli og áður.
Árið 1454 gerðu nokkrar prússneskar borgir uppreisn gegn yfirráðum Þýsku riddaranna og leiddi það til Þrettán ára stríðsins, þar sem borgirnar í bandalagi við Póllandskonung börðust gegn riddurunum. Því lauk 1466 með friðarsamningum þar sem vesturhluti ríkisins var innlimaður í Pólland.
Hnignun
breytaSíðasti stórmeistari reglunnar, Albert af Brandenburg, sagði af sér árið 1525, tók lútherstrú og var gerður að hertoga af Prússlandi og lénsmanni Póllandskonungs. Ekki löngu síðar missti reglan yfirráðasvæði sín í Líflandi og eignir sínar í mótmælendahluta Þýskalands. Hún var þó engan veginn liðin undir lok og hélt umtalsverðum eignum sínum í kaþólska hluta Þýskalands til 1809, þegar Napóleon Bónaparte fyrirskipaði að hún skyldi lögð niður og eignir hennar gerðar upptækar.
Reglan starfaði þó áfram sem góðgerðasamtök. Hitler bannaði hana árið 1938 en hún var endurreist 1945 og vinnur nú aðallega að góðgerðamálum í Mið-Evrópu. Nú eru í henni um þúsund félagar, flestir munkar eða nunnur.
Marienburg
breytaFrá 1308 til 1456 voru höfuðstöðvar Þýsku riddaranna í Marienburg-kastala í Prússlandi (nú Malbork í Póllandi), stærsta kastala Evrópu að flatarmáli, þar sem eitt sinn gátu dvalist þrjú þúsund riddarar.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Teutonic Knights“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. júní 2011.