Útbreiðsla búddisma
Búddismi er upprunnin á Indlandi og á sér 2500 ára gamla sögu. Upphafsmaður trúarinnar var indverski prinsinn Siddharta Gátama, sem síðar hlaut tignarheitið Búdda, sem þýðir „hinn upplýsti“. Frá því að Gátama Búdda setti fram kenningar sínar um leiðir úr þjáningu endurholdgunar um 500 árum f.Kr. og fram á 13. öld e.Kr. var búddismi helstu trúarbrögð á Indlandi, jafnhliða hindúisma, jaínisma og öðrum kenningum.
Indverski keisarinn Asoka sem uppi var á þriðju öld f.Kr. styrkti mjög stöðu búddisma og sendi trúboða víða um lönd. Meðal annars er vitað um að búddískir trúboðar fóru allt til Sýrlands og Egyptalands á þessum tíma. Á næstu öldum tók hins vegar búddisma hægt og sígandi að hnigna á Indlandi samfara endurvakningu hindúisma. Afgerandi fyrir afdrif búddismans voru innrásir Húna á sjöttu öld og ekki síst múslima á elleftu öld, þar að kom að trú á kenningar Búdda leið því sem næst algjörlega undir lok á meginlandi Indlands í upphafi þrettándu aldar.
Kenningar Búdda höfðu borist víða þegar fylgi við þær þvarr í upphafslandi trúarinnar. Íbúar Sri Lanka höfðu snúist til búddisma á þriðju öld f.Kr og hefur trúin allt síðan verið höfuðtrú (annarra en minnihlutahóps tamíla sem eru hindúar). Á fimmtu öld e.Kr settist indverski trúfræðingurinn Buddhaghosa að á Sri Lanka og skrifaði þar helstu grundvallarrit sem skilgreina þá grein búddisma sem nefnd er theravada. Á sjöundu öld e.Kr. barst búddismi til Tíbet og varð á skömmum tíma helsta trú landsins. Búddisminn í Tíbet mótaðist einkum af þeim dulspekistraum búddisma sem nefndur er madhyamika og af helgiiðkunum þeim sem nefndar eru tantra.
Á fyrstu fimm öldum e.Kr. náði búddismi festu í öllum löndum Suðaustur-Asíu. Á þessum tíma höfðu hinar ýmsu greinar búddisma allar fylgjendur á þessu svæði en theravada-greinin varð smám saman allsráðandi þar sem nú er Kambódía, Laos og Taíland. Í Víetnam varð hins vegar mahayana-greinin gegnum kínversk menningaráhrif mun sterkari. Þar sem nú er Indónesía og Malasía hurfu kenningar Búdda fyrir trúboði múslima á elleftu öld þó svo að áhrif búddisma (og hindúisma) megi enn finna í trúarheimi almennings í þessum löndum.
Kenningar Búdda urðu útbreiddar í Mið-Asíu allt frá fyrstu öld e.Kr. Þar sem nú eru löndin Afghanistan, Úsbekistan, Kirgisistan og héraðið Sinkíang í Kína var búddismi ein aðaltrú allt fram á elleftu öld e.Kr. þegar útbreiðsla íslam hófst fyrir alvöru á þessu svæði. Við upphaf fimmtándu aldar hafði íslam nánast algjörlega yfirtekið trúarlíf fólks í Mið-Asíu. Eins og á flestum öðrum svæðum varð trúarkenning og trúarhefð búddista fyrir miklum áhrifum frá eldri hefðum og öðrum trúarkenningum á þessu svæði. Má þar meðal annars nefna sjamanisma, saraþústratrú og nestorianskri kristni. Meðal annars er talið af ýmsum fræðimönnum að bodhisattvan Amitabha hafi verið undir áhrifum frá kenningum saraþrústratrúar.
Á fyrstu öld e.Kr. fóru kenningar Búdda að berast til Kína eftir verslunarleiðum frá Mið-Asíu og hófst með því fjögurra alda aðlögunartími að eldri hefðum og trúarhugmyndum. Hugtök búddismans voru einkum skilgreind í anda og aðlöguð kenningum daóismans. Meðal annars var það allmennt talið að Laosi, mikilvægasti skapandi daóismans, hafi endurholdgast í Indlandi sem Gátama Búdda. Það var ekki fyrr en á fimmtu öld sem helstu helgirit búddismans voru þýdd úr sanskrít og palí yfir á kínversku. Það var nánast eingöngu hugmyndir mahayana-greinarinnar sem bárust til Kína.
Á sjöttu öld sköpuðust fjölmargar nýjar greinar innan búddismans í Kína. Hinar ýmsu greinar lögðu mismunandi mikla áherslu á mismunandi helgirit og sköpuðu eigin hefð kennimanna. Meðal mikilvægra greina má nefna tien-tai og hua-jen og ýmsar dulspekigreinar með uppruna í madhyamika og jógakara.
Tvær mikilvægustu greinarnar voru þó annars vegar tjan (einnig ritað ch'an) sem á japönsku heitir zen, þar sem hugleiðsla er helsta leið að uppná „skyndilegri uppljómun“, og hins vegar kenningin um Hið hreina land sem taldi bænaþulur með nafni Búdda Amitabha leiða til endurfæðingu í paradís hans.
Frá sjöundu öld fór kínverski búddisminn að mæta aukinni andstöðu frá konfúsíanisma og daóisma. Yfirvöld fóru einnig að sýna fjandskap við búddisma og stakk vaxandi veldi sangha (munka og nunnureglur) mjög í augun sérlega þar sem þær voru undaþegnar frá sköttum. Keisarinn Wu-tsung hóf miklar ofsóknir á hendur búddistum árið 845 og hefur hreyfing kínverskra búddista ekki náð sér að fullu eftir það. Einu greinarnar sem höfðu áfram mikið fylgi voru Tjang (Zen) og kenning Hins hreina lands. Þegar komið var fram á þréttándu öld hafði konfúsíanismi að nýju náð algjörum menningarlegum og heimspekilegum yfirtökum í Kína.
Búddismi barst til Japan frá Kína og að miklu gegnum Kóreu á sjöttu til áttundu öld. Það voru einkum greinarnar zen og kenning Hins hreina lands sem náðu fótfestu og þá einkum eftir þrettándu öld. Í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar sköpuðust allmargar nýjar greinar búddisma í Japan, má þar nefna Soka Gakkai sem óx frá þeirri grein sem Nichiren (1222–1282) skapaði á þrettándu öld og Risshokoseikai en báðar þessar greinar hafa fengið marga fylgismenn.
Heimild
breyta- Skilton, Andrew. A Concise History of Buddhism (Barnes & Noble Books, 2003). ISBN 0760748292