Wikipedia:Grein mánaðarins/11, 2018
Georges Clemenceau (28. september 1841 – 24. nóvember 1929) var franskur stjórnmálamaður, læknir og blaðamaður. Hann var forsætisráðherra Frakklands 1906-1909 og 1917-1920. Hann hafði lengi verið virkur í frönskum stjórnmálum og þjóðfélagsmálum, fyrst sem andófsmaður gegn stjórn Napóleons III keisara og síðar sem leiðtogi Róttækra lýðveldissinna eftir stofnun þriðja franska lýðveldisins. Hann tók jafnframt þátt í málsvörn Alfreds Dreyfusar í Dreyfus-málinu alræmda. Clemenceau var helsti leiðtogi Frakka á lokakafla fyrri heimsstyrjaldarinnar. Eftir uppgjöf Þjóðverja fór Clemenceau fyrir friðarráðstefnunni í París og var óbilgjarnastur leiðtoga Bandamanna í garð Þjóðverja við gerð Versalasamninganna. Clemenceau gekk undir viðurnefninu „tígrisdýrið“ (le tigre) vegna óbilgirni sinnar og var einnig kallaður „sigurfaðirinn“ (Père la Victoire) eftir sigur Frakka í styrjöldinni.