Vigfús Sigurðsson

Vigfús Sigurðsson Grænlandsfari var fæddur á Gilsbakka í Öxarfirði 16. júlí 1875 og lést í Reykjavík 26. maí 1950. Hann var sonur Sigurðar Guðmundssonar bónda á Gilsbakka og Þóru Bjarnadóttur. Vigfús missti ungur föður sinn og fór til vandalausra. Hann var 16 ára orðinn vinnumaður í Möðrudal á Fjöllum og varð ungur valinn til að sinna póstleiðinni á milli Seyðisfjarðar og Grímsstaða á Fjöllum, fyrst með Einari Birni sem var póstur á Austurlandi en síðan eftir dauða Einars á vegum ekkju hans. Vigfús flutti til Reykjavík skömmu eftir aldamótin 1900 og lærði trésmíði, kvæntist og setti saman bú að á Brekku á Álftanesi en fékkst einnig við smíðar. Hann fór árið 1912 í leiðangur á Vatnajökul og árin 1912-1913 í leiðangur yfir þvert Grænland með þeim Kapt. J.P. Koch, Alfred Wegener og Lars Larsen. Þessi leiðangur lagði upp frá Akureyri 6. júlí 1912. Vigfús skrifaði árið 1916 bókina Um þvert Grænland um þessa Grænlandsferð. Þessi ferð lagði grunn að jöklarannsóknum á norðurslóðum og voru íslenskir hestar þar í fyrsta skipti notaðir í heimskautaferðum. Vigfús var fyrsti Íslendingurinn til að fara yfir Grænland.

Vigfús var vitavörður í Reykjanesvita á Reykjanesi árin 1915-1925. Hann fluttist þá aftur til Reykjavíkur og fékst við smíðar og önnur störf auk þess sem hann leiðbeindi hópum ferðamanna um landið. Hann var með í Gottuleiðangrinum 1929 og Wegener leiðangrinum 1930 og var það hans síðasta ferð til Grænlands.

HeimildirBreyta