Taiping-uppreisnin

borgarastyrjöld í Kína (1850-1864)
(Endurbeint frá Uppreisnin í Taiping)

Taiping-uppreisnin var tímabil borgarastyrjaldar sem stóð í Kína frá 1850 til 1864. Í átökunum barðist stjórn mansjú-kínverska Tjingveldisins við uppreisnarher Hins himneska ríkis hins mikla friðar, sem leitt var af þjóðarbroti kínverskra Hakka sem höfðu snúist til sérstakrar útgáfu af kristinni trú. Leiðtogi uppreisnarhersins, Hong Xiuquan, taldi sjálfan sig vera yngri bróður Jesú Krists og kvaðst hafa fengið guðlega köllun til að leiða ríki hans á jörðu.

Taiping-uppreisnin

Málverk af orrustunni um Anqing (1861)
DagsetningDesember 1850 – ágúst 1864
Staðsetning
Niðurstaða

Sigur Tjingveldisins

  • Fall Hins himneska ríkis hins mikla friðar
  • Vald keisarahirðarinnar yfir héröðum Kína dvínar
  • Kristni bíður varanlegan álitshnekki í Kína[1]
  • Ýmsar smærri uppreisnir hefjast
  • Ofsóknir hefjast gegn Hakka-fólki og öðrum þjóðarbrotum sem tóku þátt í uppreisninni
Stríðsaðilar

Kína Tjingveldið
Á síðari köflum:

Frakkland Frakkland
Bretland Bretland
Hið himneska ríki hins mikla friðar
Bandamenn:
Nian-uppreisnarmenn
Rauðu hettirnir
Samfélag litlu sverðanna
Leiðtogar

Fjöldi hermanna
3.400.000+[2] 2.000.000[3]
10.000.000 (alls)[4]
Mannfall og tjón
145.000 243.000
Látnir alls: 20–30 milljónir látnir (viðmið)[5]

Borgarastríðið varði í tæp fjórtán ár og er almennt talið með mannskæðustu styrjöldum allra tíma. Samkvæmt sumum talningum var Taiping-uppreisnin næstmannskæðasta stríð mannkynssögunnar á eftir seinni heimsstyrjöldinni.[6]

Söguágrip

breyta

Aðdragandi

breyta

Upphafsmaður Taiping-uppreisnarinnar var Hong Xiuquan, Kínverji af Hakka-þjóðerni frá Guangdong-héraði. Á fimmtán ára skeiði hafði Hong margsinnis þreytt embættismannapróf keisarastjórnarinnar í von um traustan starfsferil en hafði fallið í öll skiptin. Frá unga aldri hafði Hong séð sýnir í veikindum sínum og eftir að hann byrjaði að lesa kínverskar þýðingar kristniboða á Biblíunni komst hann að þeirri niðurstöðu að sýnir hans væri vitrun frá Guði.[7] Eftir að hafa fallið á embættismannaprófinu í fjórða og síðasta sinn sökkti Hong sér í lestur kristinna trúboðsrita og fór að túlka „vitranir“ sínar sem svo að hann væri sjálfur sonur Guðs og yngri bróðir Jesú Krists.[6]

Biblíuþýðingarnar sem Hong komst í tæri við voru brotakenndar og ónákvæmar og því þróaði hann með sér óvenjulegar hugmyndir um kristna trú. Samkvæmt einni frásögn synjaði kristniboði Hong um skírn þar sem hann þótti hafa „þokukennda hugsun“ um trúna. Hong stofnaði því eigin söfnuð, svokallaða Guðsdýrkendur, á grundvelli eigin túlkunar á kristninni.[7] Þeir fyrstu sem gengu til liðs við söfnuðinn voru frændur hans. Söfnuðurinn lagði fæð á kenningar Konfúsíusar, á búddisma og á hefðbundna kínverska siði. Frændurnir gengu frá bæi til bæjar til að breiða út fagnaðarerindið og unnu skemmdarverk á búddahofum og öðrum helgireitum.[6]

Hreyfingin breiddist skjótt út um suðurhluta Kína og um Jangtse-dalinn. Fátækt var útbreidd meðal kínverskra bænda og Hong tókst að höfða til þeirra með trúarhugmyndum sínum, sem blönduðu saman grófu afbrigði kristinnar mótmælendatrúar við heimsendaboðskap gamla testamentisins og eins konar frumstæðan kommúnisma. Hugmyndir hans fólu meðal annars í sér sanngjarna endurskiptingu eigna, réttlæti fyrir hina fátæku og endalok valdastéttar Mansjúa. Þegar fylgismönnum þeirra var farið að nema nokkrum þúsundum hófu Hong og frændur hans að þjálfa þá í hernaði og vígbúast með þýfi sem þeir höfðu haft úr ránsferðum sínum.[6]

Uppgangur Taiping-ríkisins

breyta

Þegar keisaraher Tjingveldisins reyndi í fyrsta sinn að bæla niður Guðsdýrkendurna árið 1850 tókst liðsmönnum Hongs nokkuð auðveldlega að hrekja hermennina á brott og trúarhreyfingin tók nú á sig blæ uppreisnarhers. Árið 1850 lýsti Hong yfir stofnun Hins himneska ríkis hins mikla friðar (太平天囯 eða Tàipíng Tiānguó, gjarnan kallað Taiping-ríkið) og tók sjálfum sér titilinn „Hinn himneski konungur“. Mörgum kristnum mönnum þótti þó erfitt að kyngja þeirri hugmynd að Hong væri yngri bróðir Jesú og þótti þessi sjálfsupphafning hans jafngilda guðlasti.[7] Herir Hins himneska ríkis fóru yfir Kína og hvöttu smábændur og fátæklinga til að rísa gegn landeignaraðlinum. Fjöldi hermanna keisarastjórnarinnar gekk auk þess til liðs við uppreisnarmennina. Þann 19. mars árið 1853 hertóku Guðsdýrkendurnir Nanjing og gerðu hana að höfuðborg Taiping-ríkisins undir nafninu Tianjing („Himneska höfuðborgin“).[6]

Þrátt fyrir fyrirheit Hongs um endurskiptingu eigna og jafnrétti kynjanna viðhélt hann svipuðu embættismannakerfi og keisarastjórnin hafði haft í Nanjing. Hann setti auk þess verulegar hömlur á samneyti karla og kvenna og Nanjing var í reynd skipti í tvo borgarhluta eftir kynjum á stjórnartíð hans. Um leið kom Hong sér þó upp miklu kvennabúri sem hann sinnti af ákefð. Hong virðist hafa misst áhugann á veraldlegri stjórn ríkis síns og eftirlét hægri hönd sinni, Yang Xiuqing, mestalla stjórn sem nokkurs konar forsætisráðherra. Yang var hins vegar tekinn af lífi árið 1856 eftir að hann gerði tilraun til að tortryggja Hong og útmála sjálfan sig sem hið sanna handbendi Guðs. Svikráð Yangs gerðu Hong enn móðursjúkari og leiddu til þess að hann lét taka fjölda meintra samsærismanna af lífi.[6]

Endalok uppreisnarinnar

breyta

Her Hins himneska ríkis gekk vel í hernaði sínum í suðurhluta Kína en fór hins vegar halloka í hernaði sínum gegn yfirráðasvæði keisarans í kringum Beijing. Þar sem Taiping-uppreisnarmönnum tókst aldrei að ná hylli kínversku miðstéttarinnar fór keisarastjórnin smám saman að ná vopnum sínum. Evrópuveldin fóru auk þess að gefa uppreisninni frekari gaum og leist illa á möguleikann á að Taiping-herinn næði völdum vegna þeirra áhrifa sem það myndi hafa á þræla- og ópíumverslun við Kína. Eftir að her Taiping-ríkisins gerði misheppnað áhlaup á hafnarborgina Sjanghæ árið 1860 sendu Bretar og Frakkar herforingja til Kína til þess að þjálfa keisaraher Tjingveldisins. Undir stjórn breska herforingjans Charles George Gordon setti keisarastjórnin á fót „sísigursæla herinn“ svokallaða.[6]

Herinn sísigursæli endurheimti á næstu árum smám saman mestallt landsvæðið sem Hið himneska ríki hafði hertekið. Her keisarastjórnarinnar hóf umsátur um síðasta vígi Taiping-ríkisins, höfuðborgina Nanjing, í maí árið 1862. Þrátt fyrir að uppreisnin ætti ósigur vísan neitaði Hong Xiuquan að gefast upp og sagðist viss um að Guð myndi bjarga Taiping-ríkinu. Umsátrið varði í tvö ár og matarskortur fór brátt að hrjá borgina. Hong sjálfur lést úr matareitrun þann 1. júní 1864 eftir að hafa lagt sér illgresi úr hallargarði sínum til munns.[8]

Sonur Hongs, Hong Tianguifu, tók við af föður sínum sem „Himneskur konungur“ Taiping-ríkisins en fékk lítið að gert þar sem stríðinu var í reynd tapað. Nanjing féll í hendur keisarahersins þann 19. júlí árið 1864 og þar með var uppreisnin að mestu kveðin í kútinn.

Tilvísanir

breyta
  1. R. G. Tiedemann, ed., Handbook of Christianity in China, Volume 2, p. 390
  2. Heath, bls. 11–16
  3. Ian Heath. The Taiping Rebellion, 1851–1866. London ; Long Island City: Osprey, Osprey Military Men-at-Arms Series, 1994. ISBN 1-85532-346-X (pbk.) Emphasis on the military history, bls. 4
  4. Heath, bls. 7
  5. Platt, Stephen R. (2012). Autumn in the Heavenly Kingdom: China, the West, and the Epic Story of the Taiping Civil War. New York: Knopf. ISBN 978-0307271730.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 6,6 Vera Illugadóttir. „Taiping-uppreisnin“. RÚV. Sótt 13. ágúst 2020.
  7. 7,0 7,1 7,2 Hjörleifur Sveinbjörnsson (21. desember 1988). „Litli bróðir Krists“. Þjóðviljinn. bls. 24.
  8. Spence, Jonathan D. (1996), God's Chinese Son: The Taiping Heavenly Kingdom of Hong Xiuquan, W.W. Norton, ISBN 0-393-03844-0