Tímaritið Musica var alhliða tónlistartímarit, gefið út af Drangeyjarútgáfunni 1948 til 1950. Tage Ammendrup var eigandi útgáfunnar og ritstjóri tímaritsins. Tage hafði áður gefið út tímaritið Jazz árið 1947, samhliða því að hann stofnaði fyrirtækið Íslenzka tóna, sem varð umsvifamikið á sviði útgáfu dægurtónlistar á árunum 1952-1964.

Forsíða fyrsta tölublaðs tímaritsins Musica, árið 1948. Forsíðumyndin er af dr. Páli Ísólfssyni.

Alls voru gefin út 11 tölublöð, það fyrsta kom út í apríl 1948 og það síðasta í apríl 1950. Aðaláhersla var lögð á klassíska tónlist. Tímaritið var fjölbreytt að efni; fjallað var um innlenda og erlenda tónlist, sögu tónlistarinnar, valin hljóðfæri, einstök tónverk og viðtöl við innlenda tónlistarmenn. Hverju tölublaði fylgdu nótur og ljósmyndir af listamönnum. Tage skrifaði sjálfur mikinn hluta af efni tímaritsins og þýddi greinar eftir þörfum, auk þess að skrifa „ritstjórarabb”. Margir mætir tónlistarmenn veittu aðstoð og ráðgjöf, auk þess að skrifa greinar. Ólafur Jakobsson lagði til töluvert efni í blaðið og Anton Kristjánsson og Fritz Jaritz skrifuðu nokkrar greinar og gagnrýni. Kristján Kristjánsson var með fastan lið í blaðinu um hljómsveitarútsetningar og Karl Sigurðsson lagði til efni. Tímaritin voru 32 blaðsíður að stærð fyrstu tvö árin að undanskildu 4.-5. tölublaði sem var 40 blaðsíður. Þrjú síðustu blöðin voru 16 blaðsíður að stærð. Alþýðuprentsmiðjan sá um prentun.

Forsíður blaðanna

breyta

Innihald tímaritsins Musica

breyta
 
Umfjöllun um Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur í fyrsta tölublaði Musica.
  • Í fyrsta tölublaði 1948, er viðtal við dr. Pál Ísólfsson, rætt um fyrirhugaða komu danska fiðluleikarans Henry Holst, fjallað um uppbyggingu óperunnar Carmen, rætt um 25 ára starfsafmæli Sigurðar Briem gítar- og mandolín-kennara og fréttir birtar úr íslensku tónlistarlífi og af erlendum vettvangi. Einnig voru stutt æviágrip Stephen Foster, Bronislaw Huberman og Yehudi Menuhin, rætt um nýjan söngleik eftir Prokofiev („Stríð og friður”), fyrsta grein birt í greinaflokknum „Sögu tónlistarinnar” eftir Vagn Kappel, rætt um hljómsveit Karls Jónatans og fjallað um stofnun Sinfóníuhljómsveitar Reykjavíkur. Birt eru úrslit í kosningu bandaríska tímaritsins „Down beat” um vinsælustu flytjendur og nótur við lögin Á vængjum söngsins og Old folks at home.
 
Myndir frá kennslu í Tónlistarskóla Reykjavíkur í öðru tölublaði Musica. Ljósmyndir: Oddur Þorleifsson.
  • Í öðru tölublaði er viðtal við Björn Ólafsson, fiðluleikara, grein eftir Þorstein Sveinsson, lögmann, um norrænt söngmót í Kaupmannahöfn sem hann tók þátt í, grein um sir Tomas Beecham, viðtal við Karl O. Runólfsson og umfjöllun og myndaþáttur um Tónlistarskólann í Reykjavík. Grein er um söngleikinn Porgy og Bess, námskeið í hljómsveitarútsetningu eftir Kristján Kristjánsson, fréttir úr ýmsum áttum („Víðsjá”) og gagnrýni um tónleika. Rætt er um fiðluna og gítarinn, grein eftir Karl Sigurðsson um mandolín og gítar á Íslandi, rætt um stofnun kirkjukórasambands Reykjavíkurprófastsdæmis, talað um söngmót á Ísafirði, umfjöllun um undrabarnið Pierino Gamba, önnur grein um sögu tónlistarinnar, lesendabréf og nótur við Plaisir D'Amour.
 
Öskubuskur í þriðja tölublaði Musica.
  • Í þriðja tölublaði er viðtal við Dr. Victor Urbancic, grein eftir Karl Sigurðsson um Mandolínhljómsveit Reykjavíkur í tilefni af fimm ára starfsafmæli hennar, grein um Vladimir Horowitz, liðurinn „Víðsjá”, umfjöllun um Macbeth eftir Verdi, grein um fiðluna og um fráfall tenórsins Richard Tauber. Rætt er um kirkju-og kóramót Snæfellsnesprófastsdæmis, um tímaritið Musical America, þriðja grein birt um sögu tónlistarinnar, grein um Hawaii kvartettinn íslenska og Hilmar Skagfield, umfjöllun um sönghópinn Öskubuskur, framhald af námskeiði í hljómsveitarútsetningu, grein um Nat King Cole, molar um tónlist, lesendabréf og nótur af Chant sans paroles og Tarantella í A-moll.
 
Kristján Kristjánsson við plötugagnrýni sína þar sem hann veit hvorki deili á flytjendum né höfundum. Í 4.-5. tölublaði Musica, 1948.
  • Í fjórða til fimmta tölublaði er viðtal við Rögnvald Sigurjónsson píanóleikara, rætt um söngvarann Gigli og viðtal við Albert Klahn í tilefni 10 ára starfsafmælis hans sem stjórnanda Lúðrasveitar Reykjavíkur. Þá er grein um Comedian harmonists og Don kósakkakórinn, viðtal við Eyþór Stefánsson tónskáld, umfjöllun um gamanóperuna Manon eftir Massenet, grein um danska tónskáldið Peter Erasmus Lange-Muller og sagðir „fróðleiksmolar af borði tónlistarinnar”. „Víðsjá” er á sínum stað, sömuleiðis fjórða grein í flokknum „Saga tónlistarinnar”, sínfóníuútskýringar (Cécar Franck: Sinfónía í d-moll), jazz-plötugagnrýni (Kristján Kristjánsson dæmir plötur án þess að vita deili á flytjendum eða höfundum), framhald af námskeiði í hljómsveitarútsetningu, grein í léttum dúr um auðvelda leið til að efnast á því að semja „swing”-lag og nótur við Lindina eftir Eyþór Stefánsson, ásamt tveimur jólalögum.
 
Þátturinn „Úr tónlistarlífinu” í sjötta tölublaði Musica. Þar var fjallað um sjö tónleika.
  • Í sjötta tölublaði birtist greinin „Vér veslingar” eftir Björgvin Guðmundsson, rætt er um Chopin, Benedikt Gröndal skrifar um hljómsveitarstjórann John Barbirolli og sagðir eru fróðleiksmolar af borði tónlistarinnar. Í þættinum „Úr tónlistarlífinu” eru sjö tónleikar gagnrýndir og sinfóníuútskýringar halda áfram (Mozart: Sinfónía nr. 39 í es-dúr). Grein er um hljómsveitarstjórann Arturo Toscanini, viðtal við Kristinn Ingvarsson orgelleikara, umfjöllun um Hollendinginn fljúgandi eftir Wagner, fimmta grein í flokknum „Saga tónlistarinnar” og greinin „Hvernig verða tónverkin til” eftir Max Graf. Þátturinn „Víðsjá”, jazzkosning tímaritsins „Down beat”, molar um tónlist ásamt stuttri umfjöllun um Hallbjörgu Bjarnadóttur og Sunnukórinn á Ísafirði. Nóturnar voru við þrjú lög eftir Björgvin Guðmundsson (Nóttin var sú ágæt ein, Vertu sæl og Hátt ég kalla).
  • Í fyrsta tölublaði annars árgangs Musica, er rætt um Jón Leifs og afmælisávarp hans í Ríkisútvarpinu birt, grein eftir Alan Moray Williams um komu Shostakovich til Íslands, fréttabréf Ólafs Jakobssonar frá Ítalíu, grein Olav Gurvin um nútímatónlist í Noregi og grein um M.A. kvartettinn. Viðtal er við Serge Jaroff, stjórnanda Don kósakkakórsins og sjötta grein um sögu tónlistarinnar. Undir liðnum „Úr tónlistarlífinu” er umfjöllun og gagnrýni um átta tónleika, fjallað er um jazzhljómleika K.K., viðtal er við Jónatan Ólafsson, uppbygging Toscu eftir Puccini kynnt, rætt um nýjar nótur, liðurinn „Viðsjá” og nótur af lagi Mozarts Fagra land við ljóð Þorsteins Sveinssonar.
  • Í öðru tölublaði annars árgangs, er rætt um Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar og greinargerð birt frá STEF. Einnig er viðtal tekið við Árna Björnsson tónskáld. Ólafur Jakobsson skrifar frá Ítalíu, grein er um Prokofiev, birt er æviágrip Shostakovich ásamt ræðu hans frá friðarþingi í New York um rússnesk tónskáld. Grein er um um söngför Sunnukórsins, sjöunda grein um sögu tónlistarinnar, fjallað er um söngleikinn Katerinu Ismailovu eftir Shostakovich, liðurinn „Viðsjá”, lesendabréf, molar af erlendum vettvangi og grein eftir Nils J. Jakobsen um jazz á Norðurlöndum eftir styrjöldina.
  • Í þriðja tölublaði annars árgangs, er viðtal við Pál Kr. Pálsson orgelleikara og stjórnanda barnakórs Útvarpsins sem þá var nýstofnaður, rætt um bandaríska tónskáldið Aaron Copeland, fjallað um nýútkomnar nótur og lesendabréf birt, þar á meðal bréf „Sigurðar Draumland” frá Fnjóskadal. Grein er birt eftir John Alan Hauton um fjórar söngkonur frá fyrri tíð sem vert er að minnast, einnig er umfjöllum um söngkonur samtímans. Rætt er um tuttugasta starfsár Tónlistarskólann í Reykjavík, áttunda grein um sögu tónlistarinnar, grein um Tristan og Isolde eftir Wagner, saga sálmsins Heims um ból sögð, molar um jazz, liðirnir „Víðsjá” og „Fróðleiksmolar af borði tónlistarinnar”, ásamt grein um Þórunni Jóhannsdóttur.
  • Í fyrsta tölublaði þriðja árgangs, sem kom út í febrúar 1950, er fjallað í máli og myndum um óperettuna „Bláu kápuna” sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi um þær mundir og rætt er um Erik Satie og spurt hvort hann sé faðir tónlistar nútímans. Fréttir Ólafs Jakobssonar frá Ítalíu eru á sínum stað, talað er um Chopin tónleika sem haldnir voru í hátíðarsal Háskólans árið 1949, níunda grein birt um sögu tónlistarinnar, molar af innlendum vettvangi og gagnrýni á nokkra tónleika undir liðnum „Víðsjá”. Lagið á nótum er „Nú skal ég fagna” eftir Karl Sigurðsson.
  • Í öðru tölublaði þriðja árgangs, er viðtal við Guðmund Jónsson, söngvara og stutt æviágrip birt. Rætt er um sænska söngvarann Jussi Björling, Björgvin Guðmundsson ritar greinina „Íslenzk tónlist er ekki í „Öldudal””, birt er 10. grein um sögu tónlistarinnar, fjallað um Salóme eftir Richard Strauss og grein um „Bláu kápuna”. Einnig er rætt um tónleika Henryk Sztompka í Austurbæjarbíói. Lagið á nótum er „Sumarlag” eftir Sigurð H. Briem.
  • Þriðja tölublað þriðja árgangs Muscia er jafnframt síðasta tölublaðið sem gefið var út. Í blaðinu er viðtal við Ruth Hermanns en hún hafði starfað sem fiðlukennari á Akureyri. Rætt er um Igor Stravinsky, grein birt um tónfræði eftir Fritz A. Kuttner, þáttur um tæknilegar nýjungar og fjallað stuttlega um söngvarann Paul Robeson. Rætt er um nokkra tónleika í „Víðsjá”. Lagið á nótum var „Draumvinur fagri” eftir Stephan Foster.


Tenglar

breyta