Sigfús Halldórsson syngur og leikur

(Endurbeint frá IM 2)

Sigfús Halldórsson syngur og leikur er 78-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1952. Á henni leikur og syngur Sigfús Halldórsson tvö laga sinna; Litlu fluguna við ljóð Sigurðar Elíassonar og Tondeleyo við ljóð Tómasar Guðmundssonar. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Pressun: AS Nera í Osló.

Sigfús Halldórsson syngur og leikur
Bakhlið
IM 2
FlytjandiSigfús Halldórsson
Gefin út1952
StefnaDægurlög
ÚtgefandiÍslenzkir tónar

Lagalisti

breyta
  1. Litla flugan - Lag - texti: Sigfús Halldórsson - Sigurður Elíasson - Hljóðdæmi
  2. Tondeleyo - Lag - texti: Sigfús Halldórsson - Tómas Guðmundsson

Litla flugan

breyta

Þó að lagið Tondeleyo hafi fallið í góðan jarðveg féll það nokkuð í skuggann af fádæma vinsældum Litlu flugunnar. Lagið Litla flugan náði strax almannahylli þegar Sigfús Halldórsson flutti það í útvarpsþætti Péturs Péturssonar „Sitt af hverju tagi“ í byrjun árs 1952. Gefnar voru út nótur með laginu, það var flutt á ýmsum samkomum og stöðug eftirspurn var eftir Litlu flugunni í óskalagaþáttum Útvarpsins.[1]

Tage Ammendrup taldi að lagið ætti tvímælalaust erindi á hljómplötu og fann fyrir mikilli eftirspurn. Í apríl 1952 fóru fram í Ríkisútvarpinu upptökur með Sigfúsi Halldórssyni á Litlu flugunni, Tondeleyo, Í dag og Við vatnsmýrina fyrir Íslenzka tóna (IM 2 og IM 7). Prufuplötur bárust frá Noregi í júní en plöturnar sjálfar voru væntanlegar með haustinu. Töf varð á sendingunni og plöturnar fóru ekki í sölu í Drangey fyrr en 21. desember, meðal annars vegna verkfalls sem hafði áhrif á allan innflutning til landsins.

Í Alþýðublaðinu 20. desember er viðtal við Sigfús þar sem hann er nýkominn frá Osló og Kaupmannahöfn. Hann ræðir um að Litla flugan hafi verið leikin í danska útvarpinu og víða á samkomustöðum í Kaupmannahöfn.[2] Á sömu síðu í blaðinu er síðan umfjöllun um að verkfalli hafnarverkamanna hafi lokið þennan dag og því hæfist afferming 23 skipa, þar á meðal á vörum úr Gullfossi en þar beið einmitt Litla flugan þess að komast í almenna dreifingu fyrir jólin. Í sömu lest var einnig önnur plata Sigfúsar (IM 7) með lögunum Í dag og Við vatnsmýrina.

Í blaðaviðtali við Sigfús í janúar 1954 er hann spurður um hvaða lag hans hafi náð mestum vinsældum. Hann svarar að það sé vafalítið Litla flugan „sem ég held ég megi segja að hafi verið á hvers manns vörum. Það eru ekki sízt börnin, sem hafa haldið því lagi vakandi og mér liggur við að segja að margur heimilisfaðirinn hafi bölvað mér fyrir það lag, því ekki var friður fyrir krökkunum, sem voru síraulandi þetta heima jafnt og á götunum“. Sigfús nefnir í sama viðtali að Litla flugan hafi verið sungin á norsku inn á plötu í Noregi og þar hafi verið á ferðinni Jens Book-Jenssen, sem þá var einn kunnasti dægurlagasöngvari Norðmanna.[3] Kurt Foss og Reidar Böe sungu lagið[4] og erlendir söngvarar sem héldu tónleika hér á þessum árum tóku gjarnan Litlu fluguna á efnisskrá sína. Má þar nefna Snoddas[5] og Alma Coogan.[6]

Ljóðið Litla flugan

breyta

Sigfús gerði lagið við ljóð Sigurðar Elíassonar, tilraunastjóra á Reykhólum. Í endurminningum Sigurðar kemur fram að Sigfús hafi fundið ljóðið samanbrotið í bók Sigurðar og litist vel á það. Sigurður taldi tormerki á því að Sigfús semdi lag við ljóðið en samþykkti það þó með því skilyrði að hann gerði lagið á innan við tíu mínútum.[8]

Lækur tifar létt um máða steina.
Lítil fjóla grær við skriðu fót.
Bláskel liggur brotin milli hleina.
Í bænum hvílir íturvaxin snót.
Ef ég væri orðin lítil fluga
Ég inn um gluggann þreytti flugið mitt
og þó ég ei til annars mætti duga,
ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.

Ljóð: Sigurður Elíasson

Litla flugan á dönsku

breyta

Sagt er frá því í Tímanum október 1953 að hið skemmtilega lag Sigfúsar, Litla flugan, muni koma út á nótum og á plötu í Danmörku og Noregi fyrir jól.[9] Sigurd Madslund gerði danskan texta við lagið:

Jeg har mange skjulte små talenter,
jeg er både troldmand og poet,
jeg gør ofte det man ikke venter
og hvis man tror, man har mig er det sket
at jeg bliver til en lille flue,
der flyver ud hvor der er sol og luft,
for jeg kan ikke li‘ den snævre stue,
men elsker kønner pi‘er og blomsterduft.
Jeg har kendt så mange søde piger,
høje, slanke, buttede og små.
Alle vilde giftes, men jeg tier
og det er sket, før jeg får ringen på,
at jeg bliver til en lille flue
der flyver ud på nye eventyr,
for jeg vil ikke eje nogen frue,
der sætter al min frihed over styr.
Når vi har den varme, lyse sommer,
soler jeg mig på den åbne strand,
men hver gang en dejlig pige kommer,
da er pokkers svært að være mand,
og jeg bliver til en lille flue
og flyver hen til pigen i et svip.
Jeg kravler over brystets bløde tue
og kilder hendes lille næsetip.

Texti: Sigurd Madslund.[10]

Heimildir

breyta
  1. Morgunblaðið, 22. nóvember 1952, bls. 6.
  2. Alþýðublaðið, 20. desember 1952, bls 8.
  3. Vísir, 26. janúar 1954, bls 5.
  4. Tíminn, 31. desember 1952.
  5. Tíminn, 18. mars 1953.
  6. Tíminn 16. febrúar 1958, bls 12.
  7. Útsetning: Carl Billich. Teikning: Jörundur. Prentun: Lithoprent. Höfundarréttur: Sigfús Halldórsson.
  8. Nánar um tilurð ljóðsins „Litla flugan varð til á átta mínútum“.
  9. Tíminn, 29. október 1953, bls. 2.
  10. Den lille flue, nótur. Viking Musikforlag, Copenhagen. V638.