Guðrún Á. Símonar
Guðrún Ágústa Símonardóttir, þekkt sem Guðrún Á. Símonar (f. 24. febrúar 1924 í Reykjavík, d. 28. febrúar 1988) var ein þekktasta sópransöngkona Íslands.
Guðrún Á. Símonar | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fædd | Guðrún Á. Símonar 1924 |
Dáin | 1988 |
Störf | Söngvari |
Hljóðfæri | Rödd |
Æviágrip
breytaForeldrar Guðrúnar voru Símon Johnsen Þórðarson (1888 – 1934) lögfræðingur, jafnan nefndur „Símon á Hól“ og Steinþóra Ágústa Pálsdóttir (1895 – 1978), kölluð Ágústa. Þau voru bæði gædd tónlistargáfu og söng Ágústa oft á samkomum í Reykjavík og Símon var dáður tenórsöngvari sem tók mikinn þátt í sönglífi bæjarins. Guðrún átti því ekki langt að sækja hæfileikana og eftir hálskirtlatöku á fimmtánda árinu komu sönghæfileikarnir í ljós.
Þá uppgötvaði ég röddina
breytaÞað er kannski einkennilegt að segja frá því, hvernig ég sjálf fann og uppgötvaði röddina — sem sagt, að ég hafði söngrödd, segir Guðrún.
Þegar ég var fimmtán ára, tók Ólafur Þorsteinsson læknir úr mér hálskirtlana „Sjáðu þetta,“ sagði hann og dinglaði þessu, sem hann tók úr hálsinum, fyrir augunum á mér. Og það var svo einkennilegt, að eftir þetta breyttist röddin í mér, — ég fór að finna, að ég gat sungið, svo að það er eiginlega Ólafi Þorsteinssyni að þakka, að ég fór að syngja. Ég kunni mikið af lögum og var ekkert að draga mig í hlé, þegar ég var með vinkonum mínum eða heima. En söngurinn var þá meira fyrir mér sem hljóð, heldur en það væri það innra, sem þrýsti á. Svo þróaðist þetta fljótlega, — ég vildi bara verða söngkona, ekkert annað. Ég var ekki svo djúpt þenkjandi í textum, — jú, ég var fjarska rómantísk, ef það var eitthvað um ástina. |
||
Með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar
breytaÚr bókinni Eins og ég er klædd eftir Gunnar M. Magnúss, bls. 29-30. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973.
Svo var það einu sinni, þegar Bjarni (Bjarni Böðvarsson) var að heimsækja móður sína, Ragnhildi Teitsdóttur, sem átti heima í Holtsgötu 10 og bjó þar með dóttur sinni, Guðrúnu Böðvarsdóttur, sem var sjúklingur, að mamma náði í Bjarna og bað hann að tala við sig. Hann gerði það.
Þá spyr mamma, hvort hann vilji ekki hlusta á hana dóttur sína syngja, hún sé alveg veik að láta hann hlusta á sig. Og hann segir: „Sendu hana bara strax yfir til mín“. Svo að ég fer þarna yfir og hitti Bjarna. Hann var með sígarettu í öðru munnvikinu, eins og hann var alltaf vanur að vera. Og ég fer að syngja, — það var eitthvert amerískt lag. En hann bara eins og skot vill fá mig til að syngja með hljómsveitinni. Þetta var nú ekki lítil upphefð. — Varst þú þá ekki með þeim fyrstu, sem sungu hér með hljómsveitum, eða var Haukur Morthens byrjaður á undan þér? — Já, við Haukur erum á líkum aldri, og þeir Alfreð Clausen voru þá að koma fram, en Guðmundur Jónsson, sem þá var líka byrjaður að syngja, söng aldrei danslög svo ég viti til. Hann fór út 1943 að læra, en ég fór ekki fyrr en um haustið 1945. —Og þar með varstu þá komin í hljómsveitina. —Já, ég fór að æfa með þeim og söng í fyrsta skifti opinberlega með hljómsveitinni 9. nóvember 1941, og þá var það, sem þið Jón úr Vör skrifuðuð um mig í Útvarpstíðindi. —Og birtum mynd af þér. —Það var fyrsta myndin, sem birtist af mér í blaði og víst fyrsta sinni, sem ég sá nafnið mitt á prenti. Þá söng ég til dæmis lagið, sem heitir Næsta vor.
—Svona fórstu þá af stað; með danslag, sem við ritstjórar Útvarpstíðinda höfðum valið. —Já, og ég söng með svo dimmri rödd, — dökkri — en ekki sópranrödd, og ég man, að sumir sögðu: „Nú, syngur hún bara svona.“ Og af því að ég söng svona, — og Guðrún tekur lagið: Bezti vinur bak við fjöllin háu, — þá sló ég í gegn með Ama Pola og Love is All, með sópranrödd. Það var farið að veita mér athygli, og eitthvað var skrifað um þetta í blöðin. Þannig byrjaði þetta og ég hélt áfram að syngja með hljómsveit Bjarna, — og eins og ég segi, lifði í þessu og langaði til að verða söngkona. |
||
Vinsæl listakona
breytaÚtvarpstíðindi 19. nóvember 1945, Bls 327.
FÁIR ÍSLENZKIR listamenn hafa unnið eins skjótan sigur og Guðrún Á. Símonar, söngkona, sem útvarpshlustendum er að góðu kunn. Hún vann hjörtu Reykvíkinga á skömmum tíma og hélt fleiri konserta á síðastliðnu vori og sumri en nokkur annar nýr söngvari sem hér hefur komið fram. Alls söng hún á 15 konsertum, en af þeim voru 10 sjálfstœðir, en á 5 konsertum söng hún með Karlakór Reykjavíkur. Guðrún er mjög ljóðrœn og lyrisk söngkona og leggur aðdáanlega alúð í list sína.
Tilefni ÞESS að hér er minnst á þessa ungu islenzku listakonu er það, að 17. október fór hún af landi burt til framhaldsnáms í söng. Fór hún til Englands þekktasta músíkskóla Breta: „Royal Akademic of Music“, en sá skóli er 130 ára gamall. Það er gleðilegt er nýir listamenn, sem lofa góðu koma fram með þjóð vorri og hún mun fylgja þeim öllum með beztu óskum um frama og góðan árangur. — Þessi listakona mun áreiðanlega njóta heillaóska margra Íslendinga. |
||
Nám erlendis
breytaÞegar Guðrún kom til Englands varð henni ljóst að ráðagerðin með Royal Akademic of Music gekk ekki upp, svo hún sótti um Guildhall School of Music and Drama þar sem hún nam söng og leiklist í þrjú ár og síðan tvö ár við The English Opera Studio, og lauk prófi úr báðum skólunum með góðum vitnisburði. Eftir að Guðrún lauk námi frá The Guildhall-skólanum var hún í námi í The Opera School í Englandi 1949-1951 og sótti tíma hjá ítalska söngkennaranum Lorenzo Medea í Wigmore Hall. Medea heillaðist af hæfileikum Guðrúnar en þegar hann taldi sig ekki geta kennt henni meira bauðst hann til að styðja hana til frekara náms á Ítalíu. Hann skrifaði Renötu Tebaldi sem kom Guðrúnu í samband við kennara sinn, Carmen Melis. Vorið 1953 fór Guðrún til Ítalíu og lærði hjá Carmen Melis í Mílanó til 1954. Undir handleiðslu Melis varð söngröddin ljóðrænni og Guðrúnu gafst tækifæri til að syngja nokkur óperuhlutverk, meðal annars hlutverk Mimi í La Bohéme.
Söngkonan
breytaVorið 1955 stóðu Tónlistarfélagið og Félag íslenskra einsöngvara fyrir uppsetningu á La Bohéme í Þjóðleikhúsinu. Guðrún söng hlutverk berklaveiku stúlkunnar Mimi á tólf sýningum. Óperan vakti mikla hrifningu, fékk afbragðsdóma og var sýningin talin sögulegur viðburður sem hleypti tónlistarunnendum kappi í kinn. Næst söng Guðrún í óperunni Ráðskonuríki eftir Pergolesi sem Ríkisútvarpið stóð að. Síðan var haldið í söngför um Norðurlönd sem tókst vonum framar.
-
Tónlistarfélagið og Félag íslenskra einsöngvara setti óperuna La Bohéme upp í júní 1955.
-
Sönghópurinn og aðrir þáttakendur.
-
Helstu hlutverkin voru í höndum okkar fremstu söngvara sem Fritz Weisshappel æfði fyrir sýninguna en Ragnar Björnsson æfði kórinn.
Rússland tekið með trompi
breytaÁrið 1957 var Guðrúnu boðið í þriggja vikna söngferðalag um Sovétríkin á vegum sovéska menntamálaráðuneytisins. Um þá för sagði Mánudagsblaðið meðal annars:
Áheyrendur fögnuðu Guðrúnu Símonar ákaft. Lofið, sem hún fékk frá mörgum söngvurum og öðrum tónlistarmnönnum í Moskvu, var fyllilega verðskuldað. „Mér fannst söngur Guðrúnar Símonar ágœtur“, sagði hin vinsæla koloratúr söngkona, Nadezhda Kazantseva. „Hún hefur fallega, hljómþýða og fágaða rödd. Hún leggur jafn hárfínan skilning og næma tilfinningu í túlkun sönglaga ættjarðar sinnar sem laga Monteverdi og Pergulesi“.
N. Oleneichenko, sigurvegari í alþjóðlegum og sovézkum söngkeppnum, sagði: „Hin íslenzka söngkona hrífur áheyrendur með hinni fögru og hreinu rödd sinni, frábærum músíkhæfileikum, fágaðri framkomu og athyglisverðri fjölbreyttri söngskrá“. |
||
Sama ár söng Guðrún hlutverk Toscu í samnefndri óperu Puccinis. Óperan var sett upp í Þjóðleikhúsinu í tilefni af fimmtugsafmæli söngvarans Stefáns Íslandi, 6. október 1957 og söng Stefán hlutverk Cavaradossis í óperunni á móti Guðrúnu.
Hljómplötur á heimsmarkað
breytaÁrið 1957 kom Haraldur V. Ólafsson forstjóri Fálkans að máli við Guðrúnu og bauð henni að fara til Englands og syngja sex lög inn á hljómplötur á vegum Fálkans hjá fyrirtækinu His Master's Voice í London. Samningar tókust og Guðrún hélt út. Úr bókinni Eins og ég er klædd eftir Gunnar M. Magnúss, bls. 127 -130. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973.
— Ég hlakkaði til að fara aftur til Bretlands, segir söngkonan, — því að mér hefur alltaf þótt vænt um Bretland og sérstaklega um London.
Þegar ég kom út, fór ég til Lorenzo Medea, söngkennara míns, og æfði röddina. Svo kom Haraldur Ólafsson, framkvæmdastjóri Fálkans, út. Hann kynnti mig fyrir mönnunum hjá His Master's Voice. Síðan var ég kynnt fyrir hljómsveitarstjóranum, Johnny Gregory, sem var af ítölskum ættum. Hann spurði: „Hvernig viljið þér hafa lögin?“ Ég varð eiginlega hálf hvumsa við, því að ég hafði aldrei vitað það fyrr, að ég ætti að ráða, hvernig lögin væru sungin, — heldur ætti að syngja þau eins og tónskáldið skrifaði þau. Mér kom þetta dálítið einkennilega fyrir sjónir, en þá var þessi alda komin að laga lögin að hæfi söngvaranna. Við fórum svo að athuga, hvað væri heppilegt fyrir mína rödd. Hann var afar fjölhæfur maður, líka klassískt menntaður og kunni sitt fag. Svo var byrjað að æfa. Þarna var 25 manna hljómsveit, mjög færir menn. Þegar þeir voru að taka upp, var maður við mann, einn sá um þennan takka, annar sá um hinn takkann, einn sá um nóturnar, hvort ég færi upp eða niður, — það var allt iðandi af fólki í kringum mig. Heldurðu, að það sé munur að taka svona upp. Þetta varð líka fyrsta flokks upptaka. Ég átti að kunna mitt og það gerði ég. Þeir voru mjög hrifnir af því að ég söng þetta allt alveg inn. Þeir voru áður búnir að taka upp hjá einhverjum dægurlagasöngvurum, sem kunnu ekki neitt. Einhverjir agentar höfðu þá á sínum snærum og vildu láta þá syngja inn á plötu. Þá gátu þeir ekki sungið eitt lag skammlaust í gegn, heldur urðu þeir að syngja laglínu eftir laglínu, svo var þetta klippt og svo aftur límt saman, en hljómsveitin varð að bíða á meðan. Ég var látin standa þarna í nokkurskonar símaklefa, var með heyrnartæki, hlustaði á hljómsveitina og sá hana fyrir framan mig. Þannig söng ég þetta inn. Mér fannst stórkostlegt að uppgötva þetta, því ég var búin að venjast öðru í Ríkisútvarpinu. Því miður verð ég að segja það, þó að mér þyki afar vænt um Ríkisútvarpið, það hefur verið mér einstaklega vingjarnlegt, að það eru mikil viðbrigði, hvernig þeir taka upp. Hér er kannski einn maður, sem situr við alla takka, og það er sama, hvort maður fer upp eða niður, það skiptir engu máli, — og svo er kannski einn, sem á að hlusta, en hann þarf þá að skreppa út, þegar hann ætti að vera að hlusta. Haraldur var þarna og fylgdist með öllu. Hann var elskulegur og kurteis og bauð mér út á góða staði að borða. Ég naut þess bara virkilega vel. — Var þetta fyrsta platan þín, Guðrún? — Nei, þetta var ekki fyrsta platan mín, ég söng fyrir Íslenzka tóna, sem Tage Ammendrup var með. Upptakan var hérna heima, en hert í Noregi. Þá voru einnig tekin upp á plötu lög úr óperettunni Í álögum eftir Sigurð Þórðarson og Dagfinn Sveinbjörnsson. Þar sungu Guðmundur, Magnús, Þuríður og ég en dr. Urbancic stjórnaði. En ég get sagt þér alveg eins og er, að það var farið svo klaufalega með þessa plötu, að þegar hún kom til baka, var vitlaus hraði á henni, svo það var eins og búið væri að hengja okkur upp á snúrustaura. Svo var platan send út aftur og reynt að lagfæra hana, en hún hefur aldrei verið góð, og þegar ég heyri plötuna spilaða í útvarpið, þá langar mig mest til að brjóta hana. |
||
-
JOR_230-A - Guðrún Á. Símonar - Suðrænar nætur - 1957
-
JOR_230-B - Guðrún Á. Símonar - Banvæn ást - 1957 ⓘ
-
JOR_231-A - Guðrún Á. Símonar - Siboney - 1957
-
JOR_231-B - Guðrún Á. Símonar - Little things mean a lot - 1957 ⓘ
-
JOR_232-A - Guðrún Á. Símonar - Malaguena - 1957
-
JOR_232-B - Guðrún Á. Símonar - Þín hvíta mynd - 1957 ⓘ
Hljómplata Guðrúnar kom út um haustið. Haraldur Ólafsson hélt þá fund með blaðamönnum og sagði allt af létta um upptöku hljómplötunnar. Verður hér tekinn meginþráðurinn úr því, sem blöðin sögðu frá.
19. október 1957:
Þessa dagana munu margir minnast söngfarar Guðrúnar Á. Símonar til Norðurlanda haustið 1954 og hins ágæta orðstírs, er hún gat sér, að loknum tónleikum sínum í Oslo og Kaupmannahöfn. Enn hefur þessi mikilhæfa íslenzka listakona bætt við þessa söngsigra sína nýjum sigrum á erlendri grund og orðið sér og þjóð sinni til mikillar sæmdar. Hefur hún nú hlotið einróma viðurkenningu hinna vandfýsnustu gagnrýnenda Lundúnaborgar fyrir listrænan söng sinn. Af þessu hefur þegar leitt, að hljómplötur með söng hennar verða gefnar út og seldar um heim allan, ennfremur syngur hún í brezka útvarpið og kemur fram í sjónvarpi. Þetta afrek Guðrúnar er sérstaklega eftirtektarvert, að því athuguðu, að í heimsborginni er jafnan við að keppa hina ágætustu listamenn frá fjölmörgum þjóðlöndum. Guðrún Á. Símonar fór héðan til Lundúna s. l. vor, til þess m. a. að syngja inn á hljómplötur fyrir Fálkann h/f og skyldu þær seljast á Íslandi. Upptökuna framkvæmdi hljómplötufyrirtækið His Master's Voice. Forstjóri Fálkans, Haraldur Ólafsson, vildi fyrir sitt leyti vanda hið bezta til þessarar upptöku, t. d. annaðist undirleik Hljómsveit Johnny Gregory, ágæt og víðkunn, skipuð 25 mönnum. Platan var sett á alheimsmarkað. Lögin, sem Guðrún söng á hljómplöturnar, voru þessi: Malaguena eftir Lecuona, Siboney eftir sama, Begin the Beguine (Suðrænar ástir) eftir Porter, Jealousy (Banvæn ást) eftir Jacob Gade, Little Things Mean a Lot eftir Lindeman, og Þín hvíta mynd eftir Sigfús Halldórsson við ljóð Tómasar Guðmundssonar. Fjórum textanna snéri Egill Bjarnason á íslenzku. Hljómplöturnar voru þrjár með sex lögum og komu á markað hérlendis í lok nóvembermánaðar. Þær urðu allar metsöluplötur, seldust tvær sendingar fyrir jól. Einnig kom 45 snúninga plata með 4 af þessum lögum. |
||
Söngför um Bandaríkin og Kanada
breytaÁrið 1958 var Guðrúnu Á. Símonar boðið í þriggja mánaða söngferðalag um Bandaríki Norður-Ameríku og Íslendingabyggðir í Kanada. Um þá frægðarför sögðu blöðin á Íslandi:
TÓNLEIKAR Í WINNIPEG Celebrity Concerts (Canada) Ltd. Þjóðræknisfélagið og The Canada-Iceland Foundation — stóðu að tónleikum þeim, sem Guðrún hélt í Playhouse leikhúsinu í Winnipeg miðvikudaginn 5. nóvember. Þar var fjölmenni, og m.a. voru viðstaddir margir þekktustu söngvarar borgarinnar og fleiri tónlistarmenn. Söngskráin var prýðilega samsett, íslenzk og erlend úrvalslög, svo sem á öllum tónleikunum í þessari miklu söngför Guðrúnar og árangursríku. Borgarstjóri Winnipegborgar, Stephen Juba, ávarpaði Guðrúnu að tónleikunum loknum, þakkaði henni fyrir komuna og lýsti því yfir, að hún hefði verið kjörin heiðursborgari Winnipegborgar, og síðan afhenti hann henni heiðursskjalið innrammað. Vakti þetta geysifögnuð allra viðstaddra, enda er Guðrún fyrsti Íslendingurinn, sem slíkum metorðum er sæmd í Winnipeg, en í Kanada eins og öðrum brezkum samveldislöndum er slíkur heiðursvottur fátíður. — Dagblöð borgarinnar skýrðu frá þessum atburði sérstaklega, t.d. eitt þeirra, Winnipeg Tribune, með þessari fyrirsögn: „Soprano honoured“ — (sópransöngkona heiðruð). UMMÆLI LÖGBERGS „Áheyrendur ungfrú Símonar létu óspart fögnuð sinn í ljós yfir hinum hrífandi söng hennar í Playhouse leikhúsinu á miðvikudagskvöldið, með því að krefjast með dynjandi lófataki, að hún kæmi fram aftur og aftur, og söng hún sex aukalög, öll íslenzk. Flestir sem þarna voru, hefðu gjarnan viljað hlýða á fleiri íslenzk tónverk, ekki einungis vegna þess, að þau finna jafnan dýpstan hljómgrunn í hjörtum Íslendinga, heldur og vegna þess að söngkona eins og ungfrú Símonar, gædd óvenju fagurri og þjálfaðri rödd, sem kann að túlka söngvana af næmri innlifun og smekkvísi, gæti þannig borið hróður tónmenningar þjóðar sinnar víða um lönd. Og sennilega á ungfrú Símonar eftir að fara víða og geta sér og þjóð sinni mikinn orðstír með söng sínum. Til Winnineg hafa komið fjöldi víðfrægra söngkvenna, en þær eru ekki margar, sem hlotið hafa eins ágæta dóma frá hljómlistargagnrýnendum dagblaða borgarinnar eins og ungfrú Símonar.“ SÖNGDÓMAR Birtast hér nokkur ummæli helztu dagblaðanna í Winnipeg: Winnipeg Free Press birtir söngdóm með þessarl fyrirsögn: „Guðrún Símonar: Besta söngkona hér á þessu söngári“. „Söngrödd ungfrú Símonar er frábær, óþvinguð og jöfn að gæðum á öllu tónsviðinu. Söngur hennar er fagur, hreinn og leikandi léttur. Ég gat í rauninni ekkert að honum fundið“. The Winnineg Tribune: „Ungfrú Símonar hefur einhverja beztu söngrödd, sem heyrzt hefur í mörg söngár. Hún syngur í hreinun bel canto stíl, sem ekki er að undra, því að hún stundaði nám hjá Carmen Melis í Mílano eins og Renata Tebaldi“. Dagblaðið Vísir, Fimmtudaginn 9. júlí 1959, bls 5. fjallaði um tónleika Guðrúnar í New York. Í tímaritinu Musical Courier í New York er t. d. birt samtal við hana eftir Lillian Kraff, þekkta söngkonu. Segir þar m. a.: „Guðrún Á. Símonar, sópransöngkona, hefir blæbrigða- og hljómmikla rödd með hinum sjaldgæfa hreim og eðliseigind hins sanna lirico-spinto sóprans. Auk þess hefir hún ljúfa framkomu. Ungfrú Símonar hóf söng sinn með ljóðaflokki eftir Dvorák, sem hún söng af innlifun og stílþokka. í næsta ljóðaflokki eftir Falla kom í ljós yndislegt pianissimo í lögunum Nana og Cancion, sem hún söng af hlýju og innileik. En meðal þess, sem mesta athygli vakti, voru sex lög frá Íslandi.“ Og um hina sömu hljómleika Guðrúnar í Town Hall farast George Christy í National Herald orð á þessa leið: „Á miðvikudagskvöld veittist mér sú mikla ánægja að uppgötva ..stjörnu“ á konsert í Town Hall. Guðrún Símonar, fremsta óperusöngkona Íslands, er að öllu leyti stjarna á sama hátt og Poeelle og Patti. Þetta var glæsileg samkoma. Og þess er vert að geta, að frammistaða ungfrú Símonar var minnisstæð. Það gefur að skilja, að hún söng einnig þjóðlög frá ættlandi sínu, Íslandi. (Þau bera einföld en skáldleg heiti — Kom ég upp í Kvíslarskarð, Fífilbrekka, gróin grund og Sortnar þú ský). Þessi lög söng hún á hinu víða söngsviði í Town Hall, eins og sá sem valdið hefir. Ekki tókst henni síður upp við hinar erfiðu ariur úr Manon eftir Puccini og Valdi örlaganna eftir Verdi. Lófaklappið var ofsalegt og hún var þrábeðin um aukalög. |
||
Eftir þessa frægðarför settist Guðrún að í New York og stofnaði fjölskyldu. Hún gerðist líka kattabóndi og ræktaði síamsketti sem urðu lifibrauð hennar í Ameríku.
„Heima er best“
breytaÞrátt fyrir afbragðs dóma og vinsældir erlendis, lét frægðin á sér standa og eftir misheppnað hjónaband flutti Guðrún heim ásamt einkasyninum Ludvig Kára. Hér var í nógu að snúast. Guðrún hélt söngskemmtanir víða um land, kenndi söng og skrifaði um tónlist í dagblöð.
Árið 1970 varð mikið fjaðrafok í kjölfar harðrar gagnrýni Guðrúnar í Alþýðublaðinu um sýningu Þjóðleikhússins á Brúðkaupi Fígarós. Þar hafði lítt menntaðri söngkonu, eiginkonu þjóðleikhússtjóra, verið falið aðalhlutverk en vel menntaðar söngkonur sniðgengnar.
Þá er „Brúðkaup Figarós" komið í Þjóðleikhúsið. Mikið hefur verið pukrað og pískrað í sambandi við það, en enginn, og ég meina enginn var nógu hreinskilinn við þá aðila, sem hlut áttu að máli. Það er eins og allir séu hræddir, hver í sínu horni. Þetta er táknrænt á þessu landi. Ég hef aldrei skilið þessa óhreinskilni, við hvað er fólk hrætt?
„Brúðkaup Figarós“ er dásamleg ópera, sem hefur allt til að bera, það er að segja ef það er valinn söngvari í hverju hlutverki, einnig að hljómsveitin sé góð og leiki vel Mozart. Að hafa fimm nýliða í þessari óperu sýnir mikið þekkingarleysi. Einn nýliðinn átti að slá í gegn fyrirhafnarlítið, hinir fjórir fengu að fljóta með, sem góð afsökun. Það er ekki erfitt að fá þennan „Íslandsfræga“ titil „óperu söngvari“. Bara eitt hlutverk og þá er sigurinn vís. Hér spretta. söngvarar eins og gorkúlur og segjast hafa 6—8 ára nám að baki, þó maður hafi aldrei heyrt þeirra getið í sambandi við alvarlega söngstarfsemi. Er þetta eitthvert tízkufyrirbæri? Í dag virðist vera bezt að kunna sem minnst. Hvílík fásinna að flytja óperuna á ítölsku. í Brúðkaupi Figarós er rezitativ söngur, sem áheyrendur þurfa nauðsynlega að skilja til að hafa einhverja ánægju af því, sem fram fer á leiksviðinu. Ítalskan er fallegt mál. það er hræðilegt að heyra því misþyrmt. Ég segi það einu sinni enn, (hef sagt það áður í annarri gagnrýni), að allir söngvarar ættu að læra hljóðfræði. Það hjálpar mikið þegar syngja þarf á tungumáli sem maður ekki talar. Síðan fjallar Guðrún um þátt söngvaranna í óperunni og hælir sumum en aðrir fá misharða útreið, sumir mjög harða og í lokin sagði Guðrún þetta. Alþýðublaðið 3. janúar 1970, bls. 11. Það er kominn tími til að meðalmennskan og pólitík fari að víkja fyrir menningu. Það er nefnilega talað og skrifað mjög mikið um menningu hérna, en það eru innantóm orð, því staðreyndirnar segja allt annað. Ég hef eflaust dæmt sjálfa mig til dauða i Þjóðleikhúsinu með þessum skrifum mínum, en eins og ég sagði áðan. „Af hverju á maður að vera hræddur“? |
||
Útgefið efni
breytaÍslenskir Tónar
breyta78 snúninga
- IM 15 - Guðrún Á. Símonar - Svörtu augun // Af rauðum vörum - 1953
- IM 16 - Guðrún Á. Símonar - Svanasöngur á heiði // Dicincello Vuie - 1953
- IM 65 - Guðrún Á. Símonar - Tvær vorvísur // Mánaskin - 1955
- IM 66 - Guðrún Á. Símonar - Lindin // Vögguvísa - 1954 - lögin eru gefin út í samvinnu við Tónmenntasjóð Íslands.
- IM 67 - Guðrún Á. Símonar - Nafnið // Salta larilila - 1955 - lögin eru gefin út í samvinnu við Tónmenntasjóð Íslands.
- IM 98 - Ketill Jensson og Þjóðleikhúskórinn - Drykkjuvísa // Guðrún Á. Símonar og Þjóðleikhúskórinn - Lofið Drottinn - 1955
45 snúninga
- EXP-IM 29 - Ýmsir - Óperettan „Í álögum“ (syrpa úr) - 1957
- EXP-IM 66 - Guðrún Á. Símonar - Svanasöngur á heiði / Tvær vorvísur // Lindin / Mánaskin - 1959 - ⓘ
LP
- LPIT 1000/1 - Ýmsir - Söngvar frá Íslandi nr. 1 - 2 - 1961
CD
- IT032 - Guðrún Á. Símonar – Af rauðum vörum - (Sena) 2003
- IT157 - Svona var 1957 – 16 lög frá árinu 1957 – (Sena) - 2005
Fálkinn
breyta78 snúninga
- JOR 230 - Guðrún Á. Símonar - Suðrænar nætur // Banvæn ást - 1957
- JOR 231 - Guðrún Á. Símonar - Siboney // Little things mean a lot - 1957
- JOR 232 - Guðrún Á. Símonar - Malaguena // Þín hvíta mynd - 1957
45 snúninga
- 7EGC 9 - Guðrún Á. Símonar - Jealousy (Banvæn ást)/ Malaguena // Siboney / Suðrænar nætur – 1958 eða 1959
- GEOK 268 - Guðrún Á. Símonar - Alfaðir ræður // Pétur Eggerz (upplestur) - Vík í Mýrdal og Alfaðir ræður - 1972
LP
- FA 23/4 - Guðrún Á. Símonar og Þuríður Pálsdóttir - Endurminningar úr óperum - 1981
SG hljómplötur
breytaLP
- SG 058 - Guðrún Á. Símonar – Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslensk tónskáld - 1972
- SG 088 - Guðrún Á. Símonar & Guðmundur Jónsson - Guðrún Á. Símonar & Guðmundur Jónsson - 1975
- SG 124 - Guðrún Á. Símonar - 40 ára söngafmælishljómleikar - 1979
Tal og Tónar
breytaLP
- TT 1099 – Skaup 73 – Ýmsir – 1973
Helstu viðburðir
breyta- 1941 – Söngkona með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.
- 1945 – Guðrún heldur sína fyrstu opinberu tónleika í Gamla Bíó. Undirleik annast Þórarinn Guðmundsson, Þórhallur Árnason og Fritz Weisshappel.
- 1948 – Guðrún Á. Símonar heldur tónleika fyrir fangana í Holloway fangelsinu í London, frægasta kvennafangelsi Bretlands.
- 1950 – Guðlaugur Rósinkranz bauð Guðrúnu að vera fyrst söngvara til að halda tónleika í nývígðu Þjóðleikhúsi.
- 1952 - Guðrún kom fram í Þjóðleikhúsinu í hlutverki Rosalindu í óperunni Leðurblökunni eftir Johann Strauss.
- 1954 – Þriggja vikna söngferðalag um Norðurlöndin. Blaðadómar : „Guðrún Á. Símonar kom, sá og sigraði“.
- 1954 - Söng hún hlutverk Santuzzu í Cavaleria Rusticana eftir Mascagni í uppfærslu Þjóðleikhússins. Meðleikarar (söngvarar) voru Ketill Jensson, Guðmundur Jónsson, Þuríður Pálsdóttir og Guðrún Þorsteinsdóttir. Hljómsveitarstjóri var dr. Victor Urbancic og leikstjóri var Simon Edwardsen.
- 1955 – Guðrún fór með hlutverk Mímí í La Bohéme eftir Puccini við gríðargóðar viðtökur. Óperan fékk afbragðsdóma og var sýningin talin sögulegur viðburður. Meðleikendur (söngvarar) voru Magnús Jónsson, Þuríður Pálsdóttir, Jón Sigurbjörnsson og Kristinn Hallsson. Hljómsveitinni stjórnaði Rino Castagnino og leikstjóri var Lárus Pálsson.
- 1955 - Söng Guðrún í Ráðskonuríki La Serva Padrona eftir Pergolesi á móti Guðmundi Jónssyni en þá sýningu fóru þau með út á land um veturinn (1955-1956) og stóð Ríkisútvarpið að þeirri uppfærslu sem nefnd var „List um landið“.
- 1956 - Um vorið kom Friðrik Danakonungur í heimsókn til landsins og var haldin hátíðarsýning á Cavalleria Rusticana fyrir hann.
- 1957 - Hún söng hlutverk Toscu í samnefndri óperu Puccinis á móti Stefáni Íslandi sem Cavaradossi en óperan var sett upp í tilefni af 50 ára afmæli hans.
- 1957 – Guðrún fer í söngferðalag til Sovétríkjanna og syngur í fimm borgum fyrir fullu húsi. Rússnesk blöð lofa mjög söng Guðrúnar. Hún kemur líka fram í sjónvarpi og útvarpi. Guðrún er fyrsti Íslendingurinn sem kemur opinberlega fram í Sovétríkjunum. Fyrirsögn úr íslensku dagblaði ; „Guðrún vinnur söngsigur í Moskvu“.
- 1958 – Henni er boðið af Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi til söngfarar um Kanada og Bandaríkin. Ferðin tók þrjá mánuði og alls staðar var Guðrúnu fagnað sem hetju. Ásamt því að syngja á tónleikum, söng hún í sjónvarp og útvarp. Guðrún var gerð að heiðursborgara Winnipegborgar. Gagnrýnandi New Yourk Times hældi Guðrúnu á hvert reipi fyrir söng hennar.
- 1972 – Sjónvarpið tók upp Ráðskonuríki La Serva Padrona eftir Pergolesi með Guðrúnu Á. Símonar, Guðmundi Jónssyni og Þórhalli Sigurðssyni í aðalhlutverkum. Páll P. Pálsson stjórnaði hljómsveitinni.
- 1974 – Guðrún Á. Símonar syngur hlutverk Freyju í Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson á Listahátíð í Þjóðleikhúsinu.
- 1975 - Guðrún leiðir fjöldasöng á Lækjartorgi á Kvennafrídaginn 24. október.
- 1979 - Þá um vorið þegar 40 ár voru liðin frá því að Guðrún uppgötvaði söngröddina hélt hún fimm söngskemmtanir fyrir troðfullu húsi í Háskólabíói undir heitinu Í léttum dúr og moll. Tónleikarnir tókust eins og best var á kosið og Svavar Gests hjá SG hljómplötum sá um hljóðritun þeirra. Hann valdi úr efni tónleikanna og gaf út á hljómplötunni Guðrún Á. Símonar - 40 ára söngafmælishljómleikar.
- 1981 - Guðrún var sæmd Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu sönglistarinnar.
Neðanmálsgreinar
breyta- ↑ Úr bókinni Eins og ég er klædd eftir Gunnar M. Magnúss, bls 29-30. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973.
- ↑ Úr bókinni Eins og ég er klædd eftir Gunnar M. Magnúss, bls 29-30. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973.
- ↑ Útvarpstíðindi 19. nóvember 1945, Bls 327.
- ↑ Mánudagsblaðið - Mánudagur 22. apríl 1957 bls 5.
- ↑ Eins og ég er klædd, bls. 127 -130. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973.
- ↑ Eins og ég er klædd, bls. 127 -130. Bókaforlag Odds Björnssonar 1973.
- ↑ Þjóðviljinn 21. jan 1959 bls 6.
- ↑ Alþýðublaðið 3. janúar 1970, bls. 8,9 og 11.
Tenglar
breyta- http://www.tonlist.is/Music/Artist/2752/gudrun_a_simonar/ - Hljómdiskar
- http://www.rokkland.ruv.is/sarpurinn/gudrun-a-simonar/26022012 Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine - Sjónvarpsþáttur um Guðrúnu Á. Símonar
- Glatkistan