Plágan síðari var mjög mannskæð farsótt sem gekk á Íslandi á árunum 1494-1495. Yfirleitt er talið að þetta hafi verið lungnapest, sú sama og Svartidauði, sem gekk um landið í upphafi aldarinnar, en þó er ekki fullvíst um hvers konar sjúkdóm var að ræða, en hann var bráðsmitandi og bráðdrepandi.

Plágan er sögð hafa borist til landsins með ensku skipi sem kom til Hafnarfjarðar og segir svo í Árbókum Espólíns: „Um sumarid komu enskir kaupmenn út í Hafnarfyrdi; þar þótti mönnum sem fugl kæmi úr klædi bláu, at því er Jón prestr Egilson segir, og þá var talat; giördi þvínæst sótt mikla, og mannskiæda í landi hér. ... tókst mannfallid um alþíng, oc stód yfir, fyrir sunnann land, fram yfir Krossmessu um haustid, en rénadi nockud þá loft kólnadi.“

Pestin gekk þetta sumar um Suður- og Vesturland en árið eftir um Norður- og Austurland. Vestfirðingum tókst að verjast smiti og barst hún aldrei til Vestfjarða. Í sögnum er sagt að konur hafi fundist dauðar með skjólur sínar undir kúm á stöðlum eða við keröld í búrum og ungbörn hafi sogið mæður sínar dauðar. Þeir sem fylgdu líki til grafar hrundu niður á leiðinni og fóru stundum sjálfir í þær grafir sem þeir grófu öðrum.

Hvað sem þessum sögum líður er líklegt að mannfall hafi verið heldur minna en í Svartadauða, a.m.k. virðast áhrifin á þjóðfélagið og atvinnulífið ekki hafa verið alveg jafnmikil. Þó fjölgaði eyðibýlum verulega og sagt er að fátækt fólk hafi komið frá Vestfjörðum eftir pestina og getað fengið góðar jarðir til búsetu. Kirkjan eignaðist líka margar jarðir, sem fólk gaf sér til sáluhjálpar.

Sjá einnig breyta

Heimildir breyta

  • „Svartidauði. - Pestin. Eimreiðin, 12. árg. 1906, 2 tbl“.
  • „Hugleiðingar í tilefni af Miðaldasögu Björns Þorsteinssonar. Morgunblaðið, 16. mars 1979“.