Staðarkirkja (Steingrímsfirði)

Staðarkirkja stendur í Staðardal fyrir botni Steingrímsfjarðar á Ströndum. Talið er að þar hafi verið prestsetur frá frumdögum kristni á Íslandi. Kirkjan var í kaþólskum sið Maríukirkja og allra heilagra.

Staðarkirkja (Steingrímsfirði)
Staðarkirkja (Steingrímsfirði)
Staðarkirkja í Staðardal (2004) Jón Jónsson
Almennt
Byggingarár:  1855
Breytingar:  Endurbætur (1981-'90)
Kirkjugarður:  Í kringum kirkjuna
Arkitektúr
Efni:  Timbur
Turn:  Er yngri en kirkjan sjálf

Staður var lengi meðal eftirsóttustu brauða landsins. Jón Árnason (1665-1743) sem síðar varð Skálholtsbiskup sat Stað í 15 ár frá 1707. Jón er þekktur fyrir ýmsar ritsmíðar, samdi meðal annars Fingrarím árið 1739. Hann var vel að sér í guðfræði, stærðfræði, rúmfræði og söngfræði.

Annar merkur prestur sem setið hefur á Stað var séra Sigurður Gíslason (1798-1874). Hann þjónaði þar í þrjá áratugi og lét reisa kirkjuna sem nú stendur á Stað árið 1855. Hún er þriðja elsta hús í Strandasýslu, aðeins Kaldrananeskirkja (1851) og Árneskirkja (1850) eru eldri.

Kirkjan á Stað var um tíma í hálfgerðri niðurníðslu eftir að Hólmavíkurkirkja tók við hlutverki hennar, en var síðan tekin til gagngerra endurbóta. Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands beitti sér fyrir stofnun sjóðs í því skyni eftir heimsókn á Strandir 1981. Viðgerðunum lauk árið 1990 og þá var kirkjan endurvígð. Kirkjan var endurbyggð í upphaflegum stíl, að því frátöldu að turninn sem er síðari tíma viðbót var látinn halda sér. Þá var kirkjugarðurinn stækkaður og girtur að nýju.

Staðarkirkja á nokkra merka gripi. Halldór Einarsson, prestur á Stað 1724-38, og Sigríður Jónsdóttir kona hans gáfu Staðarkirkju predikunarstólinn sem er þar enn. Þarna eru einnig tvær fornar klukkur, önnur með ártalinu 1602, silfurkaleikur og altaristafla frá 18. öld. Kaleikurinn er smíðaður af gullsmiðnum Sigurði Þorsteinssyni. Þá á kirkjan fornt skírnarfat úr messing með ártalinu 1487 og oblátudósir úr silfri, gefnar af séra Hjalta Jónssyni sem var prófastur á Stað 1798-1827.

Tenglar breyta