Magnús Ketilsson (29. janúar 173218. júlí 1803) var sýslumaður Dalamanna á síðari hluta 18. aldar, mikill jarðræktarfrömuður og stundaði tilraunir í garð- og trjárækt. Hann var einnig einn helsti forsvarsmaður Hrappseyjarprentsmiðju og gaf út fyrsta tímarit landsins.

Magnús var sonur Ketils Jónssonar (1698 – 24. mars 1778) prests á Húsavík og konu hans Guðrúnar Magnúsdóttur, systur Skúla landfógeta. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla en varð sýslumaður í Dalasýslu 1754, 22 ára að aldri, og gegndi því embætti til dauðadags, eða í 49 ár. Hann bjó í Búðardal á Skarðsströnd og rak þar stórbú, eitt það stærsta á Vesturlandi. Magnús þótti röggsamur og duglegur embættismaður en nokkuð ráðríkur og harður í horn að taka, stjórnsamur og tók sérlega hart á betli og flakki, en rækti embætti sitt vel þótt hann væri nokkuð drykkfelldur á efri árum.

Hann var vel lærður, mjög vel að sér í latínu og grísku og las líka ensku, frönsku og þýsku auk dönskunnar. Hann skrifaði meðal annars um guðfræði, lögfræði, sagnfræði og ættfræði og voru mörg verka hans prentuð í Hrappseyjarprentsmiðju, sem hann átti stóran þátt í að móta. Hann gaf út fyrsta tímarit sem prentað var á Íslandi, Islandske Maanedstidende, sem var á dönsku og flutti fréttir frá Íslandi. [heimild vantar]

Magnús átti eitt stærsta bóka- og handritasafn á landinu. Dætrum sínum kenndi hann latínu og grísku og sendi til menntunar. Hann var ekki aðeins einhver áhugasamasti ræktunarmaður sinnar samtíðar, og þótt lengra væri leitað, heldur einnig einhver hinn atorkumesti og framtakssamasti um flest er til framfara horfði. Hann var mikill áhrifamaður á sinni tíð, afkastaði meiru við að frumsemja og gefa út bækur en nokkur annar allt frá dögum Guðbrands biskups, forföður síns, eða þar til Magnús Stephensen kom til skjalanna.

Magnús átti langspil. Hann var einnig listaskrifari og hafði fagra söngrödd. Magnús var orðvar og laus við stóryrði, heyrðist aldrei fara með blótsyrði eða klám. Það versta sem frá honum heyrðist var: "Gastu ekki haft það öðruvísi ólukkan þín?" [heimild vantar]

Magnús var mikill áhugamaður um hvers kyns fróðleik og framfarir og þó sérstaklega um bætta búnaðarhætti, og samdi ýmis rit um búfræði og búnaðarhætti til leiðbeiningar fyrir bændur. Sjálfur stundaði hann miklar tilraunir í jarðyrkju og garðrækt og slíku og ræktaði ýmiss konar grænmeti í garði sínum í Búðardal. Á meðal þess sem hann ræktaði eða reyndi að rækta voru kartöflur, rófur, næpur, nípur, gulrætur, hreðkur, rauðrófur, piparrót, laukur, hvítkál, blöðrukál, grænkál, salat, spínat, karsi, steinselja og salvía og árið 1778 ræktaði hann spergil (aspargus). Hann ræktaði líka bygg og hafra og gerði tilraunir til að rækta rúg og hveiti en það tókst þó ekki. Einnig reyndi hann að rækta lín og hamp og jafnvel tóbak. Ýmsar trjátegundir reyndi hann líka að gróðursetja með misjöfnum árangri. Hann lét reisa vatnsmyllu í gili fyrir ofan bæinn og mun hafa verið einna fyrstur til þess á Íslandi.

Magnús var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Ragnhildur Eggertsdóttir (1740 - 6. nóvember 1793), dóttir Eggerts ríka Bjarnasonar á Skarði, en hin síðari var Elín Brynjólfsdóttir (1741 - 15. júní 1827) frá Fagradal, og voru þær Ragnhildur bræðradætur og báðar af ætt Skarðverja. Þegar Magnús lést eftir byltu af hestbaki 1803 tók Skúli sonur hans við sýslumannsembættinu og bjó á Skarði. Eftir hann tók sonur hans Kristján Skúlason við og þegar hann lét af embætti 1859 höfðu þeir langfeðgarnir verið sýslumenn Dalamanna í 105 ár samfleytt.

Heimildir breyta

  • „Búnaðarfrömuðurinn í Búðardal. Sunnudagsblað Tímans, 24. október 1965“.
  • „Magnús Ketilsson sýslumaður. Morgunblaðið, 21. apríl 1936“.