Fellsströnd er sveit í Dalasýslu. Hún tekur við utan við Hvammssveit og eru sveitarmörkin um Hólsá en ströndin nær út að Klofningi, þar sem Skarðsströnd tekur við. Þar er allmikil skógrækt. Margar jarðir í sveitinni eru nú komnar í eyði.

Fellsströnd

Innsti bær sem nú er í byggð á Fellsströnd er Breiðabólstaður. Þar hefur sama ættin búið frá miðri 18. öld. Þaðan var Friðjón Þórðarson ráðherra. Nokkru utar er eyðibýlið Skógar og þaðan er nær samfellt skóglendi út að Staðarfelli, kirkjustað og fornu höfuðbóli á ströndinni, þar sem höfðingjar sátu löngum. Einn hinna fyrstu var Þórður Gilsson, faðir Hvamm-Sturlu. Af síðari alda bændum á Staðarfelli er Bogi Benediktsson fræðimaður einna þekktastur og seint á 19. öld var Hannes Hafstein þar um tíma. Seinna var húsmæðraskóli á Staðarfelli en nú er þar starfsemi á vegum SÁÁ.

Við Ytrafellsmúla breikkar undirlendið og margar eyjar eru fyrir landi. Flekkudalur og Galtardalur ganga inn á milli fjallanna. Þar er svokölluð Efribyggð. Í landi eyðijarðarinnar Ytrafells er eitthvert mesta skóglendi sýslunnar. Landnámsjörð Kjallaks gamla, Kjallaksstaðir, er vestan Kjallaksstaðaár og síðan tekur við Vogur, sem Bjarni Jónsson frá Vogi kenndi sig við. Þar er minnisvarði um hann.

Utarlega á Fellsströnd er Arnarbæli, sem þótti ein besta jörð landsins fyrr á öldum. Vestan Arnarbælis er Dagverðarnes,sem nú er í eyði. Þar nær Dalasýsla lengst til vesturs, að eyjunum frátöldum. Klofningsfjall er yst á nesinu. Fram af því er klofinn klettastapi, Klofningur. Sprengt var úr honum miðjum þegar vegurinn var lagður. Um hann eru mörkin milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar.

Heimildir

breyta
  • „Strandahringurinn. Af www.dalabyggð.is“.