Saint-Martin
Saint-Martin er franskt handanhafsland á eyjunni Saint Martin í Karíbahafi.[1] Héraðið nær yfir 2/3 hluta eyjarinnar, auk nokkurra smáeyja eins og Île Tintamarre, en suðurhluti hennar nefnist Sint Maarten og er hluti af Konungsríkinu Hollandi. Íbúar Saint-Martin eru um 34.000 talsins. Höfuðstaður héraðsins er Marigot.
Saint-Martin | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: O Sweet Saint Martin's Land | |
Þjóðsöngur: La Marsellaise | |
Höfuðborg | Marigot |
Opinbert tungumál | franska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Emmanuel Macron |
Umdæmisstjóri | Sylvie Feucher |
Handanhafsland | |
• Aðskilnaður frá Gvadelúp | 15. júlí 2007 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
53,2 km² ~0 |
Mannfjöldi • Samtals (2018) • Þéttleiki byggðar |
34.065 640/km² |
Gjaldmiðill | evra |
Tímabelti | UTC-4 |
Þjóðarlén | .mf |
Landsnúmer | +590 |
Fyrir 2007 var Saint-Martin hluti af franska handanhafshéraðinu Guadeloupe. Milli Saint-Martin og eyjarinnar Angvilla er Angvillasund.[2]
Saga
breytaFornleifar benda til þess að eyjan hafi verið byggð Indíánum frá því um 2000 f.o.t.[3] Líklega hafa þeir íbúar flust þangað frá Suður-Ameríku. Elstu íbúar sem vitað er um voru Aravakar, sem settust þar að milli 800 og 300 f.o.t. Um 1300-1400 e.o.t. komu þangað herskáir Karíbar sem hröktu þá burt.
Oft er sagt að Kristófer Kólumbus hafi nefnt eyjuna eftir heilögum Marteini frá Tours þegar hann kom þangað í annarri ferð sinni til Ameríku, en raunar nefndi hann eyjuna Nevis þessu nafni þegar hann lagðist þar við ankeri á messudegi dýrlingsins, 11. nóvember 1493. Seinni tíma ruglingur með nöfn fjölmargra Hléborðseyja á kortum varð til þess að nafnið fluttist yfir á eyjuna sem nú heitir Saint Martin.[4][5]
Lengst af var eyjan spænsk nýlenda, en önnur Evrópuveldi, aðallega Frakkar og Hollendingar, tókust á um eignarhaldið. Á sama tíma stráféllu frumbyggjar eyjarinnar vegna sjúkdóma sem fluttust þangað með Evrópumönnum.
Árið 1631 reistu Hollendingar Amsterdamvirki á eyjunni og Hollenska Austur-Indíafélagið hóf að grafa þar eftir salti. Hollendingar og Spánverjar áttu formlega í stríði, og árið 1633 lögðu Spánverjar eyjuna undir sig og hröktu hollenska landnema á brott. Hollendingar reyndu að ná eyjunni aftur 1644, undir stjórn Peter Stuyvesant, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Þegar stríðinu lauk 1648 töldu Spánverjar eyjuna ekki lengur vera hernaðarlega mikilvæga. Þeir hurfu þaðan og hollenskir landnemar sneru aftur. Frakkar tóku líka að setjast þar að og ríkin tvö ákváðu að skipta eyjunni á milli sín með Concordia-sáttmálanum.[6] Fyrsti franski landstjórinn á eyjunni var Robert de Longvilliers 1648-1651. Breytingar voru síðar gerðar á landamærum hlutanna tveggja, en þau voru endanlega fest árið 1817.
Hollendingar hófu að flytja inn afríska þræla til að vinna á sykur- og tóbaksplantekrum eyjarinnar, og brátt urðu þrælarnir fjölmennari en íbúar af evrópskum uppruna. Þrælahald var afnumið í Frakklandi árið 1848 og í Hollandi 1863. Franski hlutinn hafði verið felldur undir nýlenduna á Guadeloupe árið 1763.
Á fyrstu áratugum 20. aldar var efnahagur eyjarinnar bágur og margir íbúar fluttust þaðan. Ástandið batnaði aðeins í Síðari heimsstyrjöld þegar Bandaríkjaher byggði flugbraut á hollenska hlutanum.
Árið 1946 voru eyjarnar Saint-Martin og Saint Barthélemy gerðar að hverfum (arrondissements) í héraðinu (département) Guadeloupe. Ferðaþjónusta fór vaxandi frá 7. áratugnum og varð uppistaðan í efnahagslífi Saint-Martin.
Árið 1995 gekk fellibylurinn Luis yfir eyjuna og olli víðtækri eyðileggingu og 12 dauðsföllum.
Árið 2007 var Saint-Martin að sjálfstæðu handanhafslandi með eigin umdæmisstjóra og umdæmisráð.
Árið 2017 gekk fellibylurinn Irma yfir Saint-Martin og olli mikilli eyðileggingu um alla eyjuna.[7]
Landfræði
breytaSaint-Martin nær yfir norðurhluta eyjarinnar Saint Martin sem er hluti af Hléborðseyjum í Karíbahafi. Suðurhluti eyjarinnar er hollenska fylkið Sint Maarten. Norðan við eyjuna, hinum megin við Angvillasund, er breska eyjan Angvilla. Suðaustan við eyjuna er franska eyjan Saint Barthélemy og enn sunnar eru hollensku eyjarnar Saba og Sint Eustatius.
Stærð landsins er 53 ferkílómetrar. Landslag er hæðótt og hæsti punkturinn er Pic Paradis í 424 metra hæð. Hann er jafnframt hæsti punktur eyjarinnar í heild. Vestan við höfuðborgina, Marigold, er landsvæðið Terres Basses, Frakklandsmegin við Simpsonlón. Það eru nokkur lítil stöðuvötn á Saint-Martin.
Nokkrar smáeyjar liggja undan strönd Saint-Martin, eins og Tintamarre-eyja og Pinel-eyja.
Frakklandsforseti er þjóðhöfðingi á svæðinu, en fullrúi hans er umdæmisstjóri sem hann skipar samkvæmt tilnefningu frá franska innanríkisráðuneytinu. Núverandi umdæmisstjóri er Sylvie Feucher. Saint-Martin kýs einn fulltrúa í frönsku öldungadeildina, og einn í frönsku fulltrúadeildina ásamt Saint Barthélemy.
Stjórnmál
breytaSaint-Martin var um áratugaskeið franskt sveitarfélag, hluti af héraðinu Guadeloupe. Árið 2003 kusu íbúar aðskilnað frá Guadeloupe. Árið 2007 varð landsvæðið að frönsku handanhafslandi (collectivité d'outre-mer) með lögum frá franska þinginu. Nágrannaeyjan Saint Barthélemy kaus einnig að gerast sjálfstætt handanhafsland. Nýju lögin tóku gildi 15. júlí 2007 þegar búið var að kjósa svæðisþing. Saint-Martin er hluti af Evrópusambandinu.
Svæðisþingið á Saint-Martin situr í einni deild. Þingfulltrúar eru 23, kosnir til 5 ára í senn.
Frakklandsforseti er þjóðhöfðingi landsins. Hann skipar umdæmisstjóra sem sinn fulltrúa, samkvæmt tilnefningu frá franska innanríkisráðuneytinu. Núverandi umdæmisstjóri er Sylvie Feucher. Saint-Martin á einn fulltrúa í frönsku öldungadeildinni, og einn fulltrúa með Saint Barthélemy í frönsku fulltrúadeildinni.
Tilvísanir
breyta- ↑ „CIA World Factbook – Saint Martin“. Sótt 24. júlí 2019.
- ↑ „Encyclopedia Britannica – Saint Martin“. Sótt 24. júlí 2019.
- ↑ „History of Saint Martin“. Sótt 24. júlí 2019.
- ↑ Hubbard, Vincent K. (2002). A History of St Kitts. MacMillan Caribbean. bls. 13. ISBN 0333747607.
- ↑ Morison, Samuel Eliot (1974). The European Discovery of America, The Southern Voyages. Oxford University Press. bls. 108-109.
- ↑ Henocq, Christophe (15. mars 2010), „Concordia Treaty, 23rd March 1648“, Heritage, 6: 13, sótt 17. september 2018
- ↑ Dutch officials: Irma damaged or destroyed 70 percent of St. Maarten homes, leaving island vulnerable to Jose's approach. The Washington Post 9. september 2017. [1] Geymt 20 desember 2018 í Wayback Machine Sótt 9. september 2017