Recep Tayyip Erdoğan

Forseti Tyrklands
(Endurbeint frá Recep Tayyip Erdogan)

Recep Tayyip Erdoğan (fæddur 26. febrúar 1954) er núverandi forseti Tyrklands og tólfta manneskjan sem hefur verið í því embætti. Hann tók við af Abdullah Gül sem forseti Tyrklands í ágúst 2014. Hann var áður forsætisráðherra Tyrklands frá 2003 til 2014, og borgarstjóri Istanbúl frá 1994 til 1998.

Recep Tayyip Erdoğan
Erdoğan árið 2018.
Forseti Tyrklands
Núverandi
Tók við embætti
28. ágúst 2014
ForsætisráðherraAhmet Davutoğlu
Binali Yıldırım
VaraforsetiFuat Oktay
Cevdet Yılmaz
ForveriAbdullah Gül
Forsætisráðherra Tyrklands
Í embætti
14. mars 2003 – 24. ágúst 2014
ForsetiAhmet Necdet Sezer
Abdullah Gül
ForveriAbdullah Gül
EftirmaðurAhmet Davutoğlu
Borgarstjóri Istanbúl
Í embætti
27. mars 1994 – 6. nóvember 1998
ForveriNurettin Sözen
EftirmaðurAli Müfit Gürtuna
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. febrúar 1954 (1954-02-26) (70 ára)
Istanbúl, Tyrklandi
ÞjóðerniTyrkneskur
StjórnmálaflokkurRéttlætis- og þróunarflokkurinn (AKP)
MakiEmine Gülbaran (g. 1978)
TrúarbrögðSúnní
Börn4
HáskóliMarmaraháskóli
Undirskrift

Stjórnmálabakgrunnur Erdoğans liggur í íslamisma og hann hefur kallað sig „íhaldssaman demókrata“. Ríkisstjórn hans hefur lýst yfir ýmsum samfélagslega íhaldssömum og efnahagslega frjálslyndum stefnum. Hann stofnaði Réttlætis- og þróunarflokkinn (Adalet ve Kalkınma Partisi, eða AKP) árið 2001, sem sigraði í kosningum árin 2002, 2007, 2011, 2015, 2018 og 2023. Hann sagði af sér sem leiðtogi flokksins árið 2014 þegar hann var kosinn í forsetaembætti. Erdogan hefur verið sakaður um gerræðislega tilburði eftir valdaránstilraunina í Tyrklandi árið 2016 þegar tugþúsundir ríkisstarfsmanna voru reknir úr starfi.

Erdoğan hlaut verulega aukin völd árið 2017 þegar Tyrkir samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að gera breytingar á stjórnarskrá Tyrklands til að breyta ríkinu úr þingræði í forsetaræði. Í kjölfarið var embætti forsætisráðherra leyst upp og Erdoğan varð í senn þjóðhöfðingi og ríkisstjórnarleiðtogi í krafti forsetaembættisins.[1]

Æviágrip

breyta

Recep Tayyip Erdoğan fæddist þann 26. febrúar árið 1954 í hverfinu Kasımpaşa í Istanbúl. Hann ólst að hluta til upp í bænum Rize við Svartahaf en fjölskylda hans ákvað að flytjast aftur til Istanbúl þegar Erdoğan var þrettán ára. Á táningsaldri aflaði Erdoğan sér aukapeninga með því að selja límonaði og brauðbollur í fátækari hverfum Istanbúl. Hann sótti síðan nám í íslömskum skóla og útskrifaðist síðar með gráðu í viðskiptastjórnun frá Marmaraháskóla.[2]

Erdoğan þótti fær knattspyrnumaður á yngri árum og spilaði meðal annars fótbolta með liði heimaborgar sinnar. Stórliðið Fenerbahçe sóttist um hríð eftir kröftum hans en faðir Erdoğans gaf ekki leyfi sitt fyrir því.[2] Erdoğan ólst upp í fátækt en efnaðist verulega þegar hann varð meðeigandi í matvælafyrirtæki og var orðinn milljónamæringur þegar leið á stjórnmálaferil hans.[3]

Erdoğan hóf stjórnmálaþátttöku með ýmsum íslömskum hreyfingum á áttunda og níunda áratugnum. Hann var á þeim tíma meðlimur í Velferðarflokknum og stuðningsmaður Necmettin Erbakan, sem var forsætisráðherra Tyrklands frá 1996 til 1997. Erdoğan var kjörinn borgarstjóri Istanbúl í kosningum árið 1994 með rúmum fjórðungi atkvæða. Sem borgarstjóri aflaði hann sér talsverðs fylgis og vinsælda með áherslu sinni á að leysa mál eins og vatnsskort, umferðaröngþveiti og mengun og með uppbyggingu nýrra almenningssamgangna.[2] Erdoğan bannaði einnig áfengi á kaffihúsum borgarinnar og hvatti borgarbúa til að velja á milli íslams og veraldlegra lífshátta.[3]

Árið 1997 neyddi tyrkeski herinn Erbakan til að segja af sér sem forsætisráðherra og næsta ár var Velferðarflokkurinn bannaður með lögum fyrir að brjóta gegn ákvæði stjórnarskrár Tyrklands um aðskilnað ríkis og trúmála. Erdoğan var í kjölfarið ákærður, sviptur embætti og dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir að flytja brot úr ljóði sem yfirvöld túlkuðu sem trúaráróður og ákall til ofbeldisaðgerða.[3] Erdoğan afplánaði fjögurra mánaða fangelsisvist en var síðan sleppt.[2]

Forsætisráðherra Tyrklands (2003–2014)

breyta

Árið 2001 stofnaði Erdoğan nýjan stjórnmálaflokk, Réttlætis- og þróunarflokkinn (AKP), ásamt bandamanni sínum, Abdullah Gül. Nýi flokkurinn hlaut 34,3 prósent atkvæða í þingkosningum árið 2002 og Gül tók við embætti forsætisráðherra Tyrklands fyrir flokkinn. Erdoğan var hins vegar meinað að bjóða sig fram á þing vegna dómsins yfir honum frá árinu 1998 þar til ríkisstjórn AKP náði fram stjórnarskrárbreytingu árið 2003. Í aukakosningum sem haldnar voru í mars 2003 náði Erdoğan kjöri á tyrkneska þingið og tók í kjölfarið við af Gül sem forsætisráðherra.[2]

Efnahagsfarsæld ríkti á fyrstu valdaárum Erdoğans og varð þetta honum til mikilla vinsælda, jafnvel meðal Tyrkja sem þó studdu annars ekki flokk hans eða stefnumál. Hagvöxtur á fyrsta áratugi hans við völd var að meðaltali 4,5 prósent og stjórninni tókst að halda verðbólgu í skefjum, sem var verulegur viðsnúningur frá bágu efnahagsástandi tíunda áratugarins.[2] Hlutfall ríkisskulda var lágt og meðaltekjur Tyrkja höfðu þrefaldast undir stjórn Erdoğans árið 2011.[3]

Andstæðingar Erdoğans hafa ætíð vænt hann um að vilja brjóta niður aðgreiningu trúar og ríkismála í Tyrklandi og þröngva íslömskum gildum upp á þjóðina. Erdoğan hafnar slíkum ásökunum en segist þó styðja aukinn rétt Tyrkja til að tjá trú sína opinberlega, sem hefur orðið honum til frekari vinsælda á tyrknesku landsbyggðinni.[2] Erdoğan var einnig gagnrýndur fyrir að stuðla að rýrnun fjölmiðlafrelsis í Tyrklandi og fyrir versnandi samfélagsstöðu tyrkneskra kvenna, en svokölluðum heiðursmorðum á tyrkneskum konum snarfjölgaði á fyrstu sjö valdaárum Erdoğans.[3]

Forseti Tyrklands (2014–)

breyta

Árið 2014 bauð Erdoğan sig fram í embætti forseta Tyrklands og vann sigur með um 51,8% atkvæða þann 10. ágúst. Þetta voru fyrstu almennu forsetakosningarnar sem haldnar voru í Tyrklandi. Forseti lýðveldisins hafði áður verið kjörinn af þinginu en stjórn Erdoğans hafði árið 2007 gert stjórnarskrárbreytingu til þess að þjóðin fengi að kjósa forsetann.[4] Forseti Tyrklands hafði lengi verið að mestu valdalaus og táknrænn þjóðhöfðingi en Erdoğan fór ekki leynt með að hann hygðist auka völd embættisins verulega.[5][6]

 
Stuðningsmenn Erdoğans safnast saman þann 22. júlí til að hylla forsetann eftir valdaránstilraun hersins fáum dögum fyrr.

Dagana 15. og 16. júlí árið 2016 gerði tyrkneski herinn tilraun til valdaráns gegn stjórn Erdoğans. Á meðan valdaránstilraunin fór fram var Erdoğan í fríi á Marmaris en kvöldið 15. júlí gaf Erdoğan yfirlýsingu í gegnum farsíma á fréttastofunni CNN Turk þar sem hann hvatti stuðningsmenn sína til að halda út á götur til að mótmæla valdaráninu.[7] Ákall Erdoğans hafði tilætluð áhrif og næsta kvöld hafði stuðningsmönnum forsetans tekist að vinna bug á valdaránsmönnunum. Í kjölfar valdaránstilraunarinnar lýsti Erdoğan yfir þriggja mánaða neyðarlögum og hóf fjöldahandtökur á grunuðum stuðningsmönnum valdaránsmannanna.[8] Á næstu dögum eftir valdaránstilraunina vék Erdoğan um 3.000 hermönnum og 30 hershöfðingjum úr embætti. Auk þess voru 2.745 dómarar og saksóknarar leystir frá störfum, þar á meðal fimm dómarar við stjórnlagadómstólinn, æðsta dómstól Tyrklands, sem höfðu áður átt í deilum við Erdoğan.[9] Erdoğan vændi fyrrum samherja sinn, klerkinn Fethullah Gülen, sem er búsettur í Bandaríkjunum, um að hafa staðið að baki valdaráninu og fór fram á að hann yrði framseldur í hald Tyrkja.[10]

Árið 2017 blés Erdoğan til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar til að breyta stjórnkerfi Tyrklands formlega úr þingræði í forsetaræði að bandarískri og franskri fyrirmynd. Í atkvæðagreiðslunni þann 16. apríl 2017 kusu Tyrkir með 51,3% atkvæða að samþykkja stjórnarskrárbreytingarnar. Með breytingunum var embætti forsætisráðherra lagt niður og framkvæmdavaldið færðist að fullu til forsetans, sem hlaut meðal annars vald yfir gerð fjár­mála­á­ætl­ana og aukin völd til að stjórna skipan dómara.[1]

Erdoğan hefur skipað inngrip tyrkneska hersins í sýrlensku borgarastyrjöldina, einkum til þess að koma í veg fyrir að landsvæði við landamæri Sýrlands og Tyrklands komist undir stjórn kúrdískra sjálfstæðishreyfinga sem stjórn Erdoğans telur ógna öryggi Tyrklands.[11] Í janúar árið 2018 hratt Erdoğan af stað Ólífugreinaraðgerðinni svokölluðu þar sem tyrkneski herinn réðst inn í Afrin-hérað í Sýrlandi. Tilgangurinn var að ná svæðinu úr höndum Varnarsveita Kúrda (YPG), sem tyrknesk stjórnvöld álíta hernaðarvæng Verkalýðsflokks Kúrda (PKK), sem er flokkaður sem hryðjuverkahópur innan Tyrklands.[12] Tyrkneski herinn hefur haldið uppi hernámssvæði í Afrin frá mars 2018.

Erdoğan var kjörinn til annars kjörtímabils sem forseti þann 24. júní árið 2018.[13] Eitt af fyrstu verkum hans eftir endurkjör var að útnefna tengdason sinn, Berat Albayrak, í embætti fjármálaráðherra Tyrklands.[14] Efnahagur Tyrklands hefur hægt mikið á sér á síðari valdaárum Erdoğans og í ágúst 2018 hrundi gengi tyrknesku lírunnar um 20% gagn­vart Banda­ríkja­dal.[15]

Vinsældir Erdoğans hafa dalað nokkuð vegna efnahagslægðarinnar, ekki síst í stórborgum Tyrklands. Í sveitarstjórnarkosningum sem fóru fram í Tyrklandi árið 2019 vann Réttlætis- og þróunarflokkurinn flest atkvæði á landsvísu en tapaði hins vegar borgarstjórnarkosningum í Istanbúl, Ankara og İzmir, þremur stærstu borgum Tyrklands, fyrir frambjóðendum Lýðveldisflokks alþýðunnar (CHP). Að tapa Istanbúl þótti sér í lagi mikill táknrænn persónuósigur fyrir Erdoğan, sem hafði byrjað eigin stjórnmálaferil sem borgarstjóri borgarinnar. Flokkur Erdoğans kærði kosningarnar í Istanbúl vegna meints kosningamisferlis og því voru kosningarnar í borginni endurteknar, en þegar gengið var til kosninga á ný þann 23. júlí varð niðurstaðan sú sama og Ekrem İmamoğlu, frambjóðandi CHP, náði aftur kjöri til borgarstjóra.[16]

Erdoğan fyrirskipaði aðra hernaðaraðgerð gegn kúrdískum samtökum í Rojava í Norður-Sýrlandi í október árið 2019. Innrás Tyrkja hófst undir aðgerðarnafninu „Friðarvorið“ þann 9. október eftir að Erdoğan hafði fengið fullvissu frá Donald Trump Bandaríkjaforseta um að bandarískir hermenn á svæðinu myndu ekki skipta sér að hernaði Tyrkja gegn kúrdískum samstarfsmönnum þeirra.[17] Yfirlýstur tilgangur innrásarinnar er að hreinsa upp hryðjuverkamenn á svæðinu og búa til öruggt svæði fyrir flóttamenn á landamærum Sýrlands og Tyrklands.[18]

Í júlí árið 2020 fékk Erdoğan því framgengt að Ægisif, sem hafði verið safn frá árinu 1935, skyldi gerð að mosku á ný.[19]

Erdoğan var endurkjörinn forseti í annarri umferð kosninga með um 52 prósentum atkvæða þann 28. maí 2023. Þetta var í fyrsta skipti sem halda þurfti aðra kosningaumferð í sögu Tyrklands þar sem enginn hafði hlotið meirihluta atkvæða í fyrri umferðinni.[20]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Oddur Stefánsson (23. apríl 2017). „Naumur og umdeildur sigur Erdogan“. Kjarninn. Sótt 20. september 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 Atli Ísleifsson (19. ágúst 2016). „Recep Tayyip Erdogan: Hinn vægðarlausi forseti Tyrklands“. Vísir. Sótt 24. september 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Karl Blöndal (19. júní 2011). „Efnahagsundur og afturhald“. SunnudagsMogginn. Sótt 24. september 2019.
  4. „Örugg­ur sig­ur Er­dog­ans“. mbl.is. 10. ágúst 2014. Sótt 24. september 2019.
  5. Kristján Jónsson (13. ágúst 2014). „Fyrrverandi götusali vill auka völd sín“. Morgunblaðið. Sótt 24. september 2019.
  6. Kristján Róbert Kristjánsson (1. október 2016). „Lagt til að völd forseta verði aukin“. RÚV. Sótt 24. september 2019.
  7. „„Við kom­umst í gegn­um þetta". mbl.is. 15. júní 2016. Sótt 24. september 2019.
  8. Ásgeir Tómasson (20. júlí 2016). „Tyrklandsforseti lýsir yfir neyðarástandi“. RÚV. Sótt 24. september 2019.
  9. Ævar Örn Jósepsson (16. júlí 2016). „Pólitískar hreinsanir hafnar í Tyrklandi“. RÚV. Sótt 24. september 2019.
  10. Freyr Rögnvaldsson (26. maí 2017). „Var valdaránstilraunin í Tyrklandi blekking?“. Dagblaðið Vísir. Sótt 24. september 2019.
  11. „Tyrkir senda í fyrsta sinn landher inn í Sýrland gegn Daesh og Kúrdum“. Varðberg. 26. ágúst 2016. Sótt 24. september 2019.
  12. Freyr Rögnvaldsson (18. mars 2018). „Miðborg Afrin „algjörlega" sigruð“. RÚV. Sótt 24. september 2019.
  13. Bára Huld Beck (25. júní 2018). „Erdogan lýsir yfir sigri – „Allir ríkisborgarar landsins sigurvegarar". Kjarninn. Sótt 24. september 2019.
  14. Stefán Ó. Jónsson (10. júlí 2018). „Gerði tengdasoninn að efnahagsráðherra“. Vísir. Sótt 24. september 2019.
  15. „Tyrk­neska lír­an hryn­ur í verði“. mbl.is. 10. ágúst 2018. Sótt 24. september 2019.
  16. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (23. júní 2019). „Stjórnar­flokkur Erdogan bíður ó­sigur í kosningum í Istanbúl“. Vísir. Sótt 24. september 2019.
  17. Kjartan Kjartansson (7. október 2019). „Kúvending eftir símtal Trump og Erdogan í gær“. Vísir. Sótt 15. október 2019.
  18. „Ætla að „hreinsa upp" hryðju­verka­menn“. mbl.is. 7. október 2019. Sótt 15. október 2019.
  19. „Breyt­ir Ægisif í mosku á ný“. mbl.is. 10. júlí 2020. Sótt 11. júlí 2020.
  20. Alexander Kristjánsson (28. maí 2023). „Erdogan endurkjörinn“. RÚV. Sótt 28. maí 2023.


Fyrirrennari:
Abdullah Gül
Forsætisráðherra Tyrklands
(14. mars 200324. ágúst 2014)
Eftirmaður:
Ahmet Davutoğlu
Fyrirrennari:
Abdullah Gül
Forseti Tyrklands
(28. ágúst 2014 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti