Umhverfis- og auðlindahagfræði

(Endurbeint frá Natural resource economics)

Umhverfis- og auðlindahagfræði (english: natural resource economics) er fræðigrein sem fjallar um vernd og nýtingu náttúruauðlinda og verðmæti og dreifingu almannagæða. Með greininni er leitast við að brúa bil á milli tveggja fræðasviða og tengja saman sjónarmið umhverfisverndar, þar sem áherslan er á sjálfbæra þróun og ábyrga nýtingu auðlinda og sjónarmið hefðbundinnar hagfræði, þar sem áherslan er á að auðlindir séu frumhráefni við framleiðslu og grundvöllur efnahagslegs vaxtar. Markmið fræðanna er að rannsaka samspil hagkerfa og vistkerfa jarðarinnar og þróa sjálfbært og skilvirkt efnahagskerfi á alþjóðavísu.[4]

Orkunotkun heimsins

Schematic of the global sources of energy in 2010

Heildarnotkun Endurnýjanlegir orkugjafar
   Fossil
   Renewable
   Nuclear
   Hydro
   Ethanol
   Wind
   Oceanic
Heimild: Renewable Energy Policy Network[1]

Orkuframleiðsla

Heildarnotkun helstu orkukosta

  Heildarorkuframleiðsla[2]
   Kína
   Afríka
   Evrópa

Framtíðarspá um orkunotkun

Framtíðarspá um orkunotkun gerð árið 2011[3]
Mannfjöldaþróun eftir svæðum
Jörðin að næturlagi.
Virkjunin í Moss Landing í Kaliforníu, þar sem jarðgasi er breytt í rafmagn.
Borað eftir jarðgasi í Texas.
Vindmyllur.
Stærsta vatnsaflsvirkjun í heimi, Three Gorges Dam í Kína sem framleiðir 22.500 MW af rafmagni.
Stærsta sólarvirkjn í heimi Topaz Solar Farm.
Jarðgufuvirkjunin á Nesjavöllum.
Vatnsaflsvirkjunin í Ffestiniog í Wales.

Greinin leitast við að rannsaka og upplýsa hvernig nýting auðlinda er ástunduð og hvort dreifing almannagæða fari fram með ábyrgum og réttlátum hætti, ekki síst í ljósi fjölgunar mannkyns og spám um mannfjöldaþróun næstu áratuga.[5]

Greinin leitast við að leggja fram og kynna samfélagslega ábyrgar leiðir um vernd og nýtingu auðlinda og þróa lausnir sem gagnast samfélagi mannanna sem heild, þegar til lengri tíma er litið. Fræðin fjalla einnig um og rannsaka möguleika nýrra orkugjafa, ekki síst þeirra sem geta komið í stað kolefnaeldsneyta, orðið grunnur að orkubúskap mannkyns og staðið undir framleiðslu, neyslu og efnahagslegum vexti til framtíðar.[4]

Mikilvæg álitamál í umhverfis- og auðlindahagfræði

breyta

Í umhverfis- og auðlindahagfræði er leitað lausna á hagfræðilegum álitamálum er snerta auðlindir jarðarinnar. Leitað er jafnvægis á milli efnahagslegs vaxtar og umhverfisverndar. Framþróun getur aðeins talist sjálfbær í hagfræðilegum skilningi ef undirliggjandi verðmæti vaxa eða haldast óbreytt yfir ákveðið tímabil. Efnahagsleg verðmæti (e. capital) geta þannig ekki vaxið til lengdar nema náttúruleg verðmæti liggi til grundvallar. Engin trygging er fyrir því að nauðsynlegar tækniframfarir muni verða til þess að hægt verði að skapa verðmæti óháð ásigkomulagi náttúruauðlinda.[6]

Þess vegna ganga kynslóðir samtímans á verðmæti komandi kynslóða, líkt og með yfirdráttarláni. Slíkt fyrirkomulag er ósjálfbært og mun óhjákvæmilega leiða af sér verri lífsgæði fyrir jarðarbúa. Sameiginlegur arfur kynslóðanna er ekki síst fólginn í auðlindum náttúrunnar, orku, hreinu lofti, ferskvatni og landsvæðum. Að eyðileggja þessar auðlindir í þágu hagvaxtar til skamms tíma, bitnar helst á kynslóðum framtíðar, en jafnframt þeim sem nú byggja jörðina.[6]

Ábyrg nýting auðlinda

breyta

Ein meginspurningin sem liggur til grundvallar, þegar kemur að því að meta hvort nýting auðlinda jarðarinnar sé með ábyrgum hætti, er hvort framboð auðlinda og orkukosta muni vera nægjanlegt til þess að standa undir efnahagslegum þörfum þeirra kynslóða sem nú byggja jörðina, barna þeirra, barnabarna og nýrra kynslóða um ókomna framtíð? Hvort skortur á náttúruauðlindum muni verða svo víðtækur að hann muni ógna lífsgæðum og lífi jarðarbúa? Mun skorturinn leiða til hruns í lífsgæðum og þar með afturhvarf til forna búskaparhátta eða mun manninum takast að uppgötva nýjar og umhverfisvænni leiðir til orkuframleiðslu?[4]

Sjálfbær þróun

breyta

Hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun (e. sustainable development) og sjálfbærni (e. sustainability) fæddist um svipað leyti og umhverfis- og auðlindahagfræði og hefur, ásamt efnahagslegri skilvirkni (e. economic efficiency), verið eitt meginviðfangsefnið innan fræðanna, enda jafnvægi á milli efnahagslegs vaxtar og umhverfisverndar lykilþáttur í sjálfbærri þróun. Upphaf hugmyndarinnar má rekja til þess markmiðs um að tengja sjónarmið náttúruverndar við hagfræði og efnahagslegar áherslur. Markmiðið var að gera hugmyndafræði umhverfissinna gjaldgenga í opinberri stefnumörkun, þar sem hagfræðilegar áherslur voru ríkjandi áður. Hugtakinu var þannig upphaflega ætlað að mýkja ásýnd umhverfisverndar í augum hagfræðinga. Í stað þess að hafna alfarið hugmyndum um vöxt og framþróun, var lagt upp með að stefnunni um vöxt yrði breytt í samræmi við nýjar og auknar kröfur um umhverfisvernd.[4]

Samspil manns og náttúru

breyta

Aukin útbreiðsla hugtaksins um sjálfbæra þróun og áhugi á umhverfisvernd á síðustu áratugum, er til marks um breytt viðhorf. Skilningur á samspili manns og náttúru hefur aukist. Ekki er lengur litið svo á, að maðurinn drottni yfir náttúrunni og ekki er litið svo á að maður og náttúra séu aðskilin fyrirbæri, líkt og talið var síðustu 200 árin eða svo. Ekki er lengur litið á náttúruna sem forðabúr fyrst og fremst, ætlað að fullnægja þörfum mannsins til efnahagslegs vaxtar og vaxandi skilningur er á því, að grípa þurfi til aðgerða, svo koma megi í veg fyrir auðlindaskort.[7] Sérstaklega virðist á því nokkuð almennur skilningur meðal þjóða heims, að lyfta þurfi þeim samfélögum sem einna verst eru stödd, upp úr sárri fátækt og til hagsældar.[8]

Reikningsskil umhverfisþátta

breyta

Ein aðferð til þess að finna jafnvægi á milli umhverfis og efnahags er að umhverfisþáttum séu gerð reikningsskil við stefnumótun, í hagfræðilíkönum og við útreikninga á hagsæld samfélaga (e. environmental accounting). Til dæmis ef reikna á mögulega velferð framtíðarkynslóða, væri hægt að taka með í reikninginn hversu mikið náttúruauðlindir hefðu rýrnað á milli tímabila. Hægt væri að setja markmið um enga rýrnun náttúrugæða, eða, að verði rýrnun á einu sviði, verði að bæta hana upp á öðru sviði með sambærilegum eða meiri gæðum. Til þess að þróun samfélags geti talist sjálfbær verða heildarverðmæti samfélagsins að aukast, náttúruauðlindir mega ekki rýrna og sjálfbær landsframleiðsla (e. sustainable net national income) má ekki verða meiri en sem nemur endurnýjanleika undirliggjandi auðlinda.[6]

Áskoranir tengdar umhverfis- og auðlindahagfræði

breyta

Innan umhverfis- og auðlindahagfræði er tekist á við helstu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir á komandi árum og áratugum. Fjölgun mannkyns í ljósi yfirstandandi loftslagsbreytinga og afleiðinga hlýnunar jarðar kallar á nýjar og róttækar lausnir. Þær lausnir þurfa meðal annars að fela í sér breytingar á þeim framleiðslu- og neysluháttum sem íbúar Vesturlanda hafa stundað um áratugaskeið. Alþjóðasamfélagið verður því að bregðast við þeim samfélagslega kostnaði og hnattrænum úthrifum sem hlotist hafa af neysluháttum og hegðun nútímamannsins.

Fjölgun mannkyns

breyta

Þróun mannfjölda á jörðinni var í jafnvægi framanaf æviskeiði mannsins og fjölgunin hægfara. Iðnbyltingunni fylgdi mikil fólksfjölgun og sama má segja um tæknibyltingu síðustu áratuga. Á 20. öldinni tók mannkyninu að fjölga verulega og mun hraðar en áður. Um miðja 20. öldina voru tveir milljarðar manna á jörðinni. Aðeins þremur áratugum síðar hafði sú tala tvöfaldast og nú í upphafi 21. aldar telur mannkynið rúmlega sjö milljarða, sem er meira en þreföldun á einni mannsævi. Hröðun fjölgunarinnar virðist þó hafa náð hámarki, þótt fjölgunin haldi áfram.[9]

Þessi mikla fólksfjölgun helst í hendur við hlýnun jarðar og er einn helsti áhrifavaldur þegar kemur að aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Náttúran er því undir stórauknu álagi og hratt gengur á auðlindirnar, ekki síst þegar fjölgar í millistéttum stærstu þjóðríkja heims. Álagið á helstu hráefni, svo sem málma og kol eykst samhliða og jarðefnaeldsneyti hafa aldrei verið notuð í meira mæli. Notkun vatns eykst að sama skapi og ferskvatn er orðið ein eftirsóttasta auðlind jarðar.[10]

Hluti af lausninni hlýtur að vera að koma böndum á mannfjöldaþróunina. Talið er líklegt er að um miðja öldina muni mannkynið telja yfir níu milljarða. Samkvæmt spám mun þá hægja á aukningunni og jafnvægi komast á þróunina. Fjölgunin er talin ná hámarki í lok aldarinnar, þegar um ellefu milljarðar manna munu búa á jörðinni. Þetta er þó háð nokkrum afgerandi þáttum, svo sem hvort hægt verði að koma böndum á ótímabærar þunganir í þróunarríkjum og hægja á aukningunni sem nú á sér stað, einkum á Indlandi, í Kína, Indónesíu og í mörgum fátækustu löndum Afríku.[11][12]

Krafa um breytta neysluhætti

breyta

Bein afleiðing af mannfjöldaþróuninni, er að neysla og framleiðsla á hvers konar vöru og þjónustu hefur aukist verulega og að öllu óbreyttu mun hún halda áfram að aukast. Neyslan eykst á áður óþekktum hraða og matvælaframleiðsla hefur náð nýjum hæðum sem gerir það að verkum að aukið álag er á bústofna og landbúnað almennt, auk þess sem nýting ræktarlands verður sífellt meiri. Í þessu ljósi hlýtur að koma að því að sjálfbærni í neysluháttum verði vart möguleg, án þess að verulegar breytingar verði gerðar á núverandi framleiðslu- og neyslumynstri. Alþjóðasamfélagið verður þannig að svara því hversu raunhæfar kröfurnar séu um óbreytt eða bætt lífsgæði, ekki síst á Vesturlöndum, þegar ljóst er að þær lífsgæðakröfur sem uppi eru munu leiða til auðlindaskorts og eru ósjálfbærar, þegar til lengri tíma er litið.[6]

Loftslagsbreytingar

breyta

Loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar eru stærsta viðfangsefni mannkyns. Loftslagsváin er helsta áskorun okkar daga og ógn við komandi kynslóðir. Hlýnun jarðar getur þannig hindrað að hægt verði að skila jörðinni til framtíðarkynslóða í líku ásigkomulagi gagnvart lífvænleika mannsins. Hnattrænt eðli loftslagsbreytinga gerir vandann flóknari viðfangs og kallar á samræmdar aðgerðir fjölmargra aðila. Sú staðreynd að afleiðingarnar bitna oft og tíðum á þeim sem eru alfarið ótengdir orsökunum, gerir það að verkum að bein ábyrgð hvers og eins aðila er óljós.[13]

 Hin hagræna mótsögn þegar kemur að viðbrögðum við vandanum, er að helsta orsök vandans – aukinn koltvísýringur í andrúmsloftinu – er afleiðing efnahagslegrar framþróunar og uppgangs í efnahagslífi heimsins. Í hefðbundnum hagfræðilegum skilningi getur þetta þýtt að hægja þurfi á framförum og uppgangi, til þess að minnka útblástur koltvísýrings. Líkt og dæmin sanna hafa fá þjóðríki þó verið tilbúin til að fara í þá vegferð upp á sitt einsdæmi, án þess að heildstæð og hnattræn áætlun liggi fyrir, slík er fórnin efnahagslega.[13] 

Samfélagslegur kostnaður og úthrif

breyta

Sá mikli samfélagslegi kostnaður (e. social cost) og þau úthrif (e. externalities) sem stafa af hlýnun jarðar geta komið í veg fyrir að framþróun mannkyns geti orðið með þeim hætti og af þeim krafti sem hún helst þyrfti að vera. Áframhaldandi nýting mannkyns á kolefnaeldsneyti með sama þunga og verið hefur, mun gera það sífellt erfiðara að snúa af ósjálfbærri nýtingu auðlinda. Í þessu stóra samhengi má segja að ábyrg nýting auðlinda sé lítið annað en fjarlægur draumur, því ef ekki tekst að hemja olíufíkn nútímasamfélagsins verður framtíðarþróunin alls ekki arðbær né sjálfbær og þar með ekki hagfelld lífi mannsins á jörðinni.[4]

Uppruni umhverfis- og auðlindahagfræði

breyta
 
Ljósmyndin Earthrise sem tekin var 24. desember 1968 um borð í Apollo áttunda á sporbaug um jörðu.
 
Forsíða skýrslunnar Our Common Future.

Umhverfis- og auðlindahagfræði kom fyrst fram sem fræðigrein á sjöunda áratugnum og mótaðist í kjölfar aukinnar vitundar um takmarkanir á nýtingu auðlinda, ekki síst þegar vitneskja fór vaxandi um að nýting kolefnaeldsneyta (e. fossil fuels) nálgaðist endimörk. Fræðin þróuðust frekar og náðu flugi í kjölfar vitundarvakningar um vaxandi hnattræn umhverfisvandamál, aukin félagsleg og hagræn vandamál vegna fátæktar og ójöfnuðar, sem og vaxandi áhyggjur af grundvelli efnahagskerfa heimsins og þar með framtíð mannkyns almennt. Fræðin tengja þannig ógnir sem umhverfið stendur frammi fyrir við hinar hagrænu, efnahagslegu og félagslegu áskoranir samfélags mannanna.[4]

Óttinn við skort

breyta

Óttinn við skort á framboði og minnkandi forða auðlinda er ekki nýtt viðfangsefni. Löngu fyrir iðnbyltinguna, þegar hagkerfi voru að mestu leyti háð staðbundinni auðlindanýtingu, var ótti við skort á eldivið og vatni algengur. Á meðan iðnbyltingin stóð yfir, tók við ótti um að kolanámur myndu tæmast og orsaka efnahagshrun, enda kol óendurnýjanleg auðlind.[4]

Í olíukreppunni á áttunda áratugnum beindust augu heimsins, þó einna helst Vesturlanda, að óttanum við skort og hvað tæki við ef auðlindum jarðarinnar og olíunni nyti ekki við í sama mæli um ókomna framtíð. Spurt var hvort fórna þyrfti lífsgæðum stærsta hluta jarðarbúa eða hvort efnahagskerfi heimsins myndu að lokum hrynja vegna skorts á möguleikum til frekari auðlindanýtingar.[4]

Vitundarvakning

breyta

Ferðalag mannsins til Tunglsins árið 1969 og þær einstöku ljósmyndir af jörðinni sem birtust í tengslum við leiðangurinn, kölluðu meðal annars fram vitundarvakningu um nauðsyn þess að vernda vistkerfið og náttúruna og ganga ekki á auðlindir með óábyrgum hætti. Jörðin væri eina heimili mannkyns um ókomna framtíð og því bæri núverandi kynslóðum að vernda hana og skila auðlindum til framtíðarkynslóða í líku eða betra ásigkomulagi.[14]

Ljósmynd sem tekin var í Apollo áttunda og fékk nafnið Jarðaruppkoma (e. Earthrise) kallaði fram hnattræna hugarfarsbreytingu um náttúruvernd og hefur verið kölluð áhrifamesta umhverfismynd allra tíma.[15] Önnur ljósmynd sem geimfarar í Apollo sautjánda tóku árið 1972 vakti álíka athygli og fékk nafnið Bláa marmarakúlan (e. The Blue Marble). Myndin sýndi jörðina í fyrsta sinn með heildstæðum hætti utanfrá.[16]

Umhverfishreyfingin

breyta

Segja má að hnattræn en hægfara umhverfisbylting hafi verið viðvarandi um áratugaskeið samhliða síðustu framfaraskeiðum mannsins og öðrum tæknibyltingum, svo sem iðnbyltingunni og stafrænu byltingunni. Grunnstef hreyfingarinnar nú, er að skipta beri út mengunarfrekum og ósjálfbærum orkukostum fyrir umhverfisvæna og græna orku og koma þannig í veg fyrir, aðlagast eða stemma stigu við afleiðingum loftslagsbreytinga.[17][18]

Umhverfishreyfingin á rætur að rekja til ársins 1892, þegar John Muir leiddi hóp Kaliforníubúa og stofnaði umhverfissamtökin Sierra Club til þess að berjast fyrir verndun náttúruperla í Delaware. Bandaríkjaþing hafði fengist til að friðlýsa Yosemite sem þjóðgarð tveimur árum áður, en þrýstingur á að auðlindir á svæðinu yrðu nýttar til orkuframleiðslu hélt samt áfram.[14][19][20]

Umhverfishreyfingin lét líka til sín taka á sjöunda áratug 20. aldar, þegar alvarleg umhverfisvandamál komust í hámæli, meðal annars í kjölfar útgáfu bókanna Raddir vorsins þagna (e. Silent Spring), Mannfjöldasprengjan (e. The Population Bomb) og Endimörk vaxtar (e. Limits to Growth), sem og í kjölfar skýrslu Sameinuðu þjóðanna, Okkar sameiginlega framtíð (e. Our Common Future).[14][21][22][23][24]

Umhverfishreyfing sjöunda áratugarins var tengd öflugum grasrótar- og mannréttindahreyfingum hippatímabilsins, sem meðal annars voru andvígar ríkjandi þjóðfélagsmenningu, friðarhreyfingum sem mótmæltu þátttöku Bandaríkjanna í Víetnamstríðinu og baráttuhreyfingum fyrir borgaralegum réttindum. Allar voru hreyfingarnar hluti af hinni svokölluðu Réttindabyltingu í Bandaríkjunum á sjötta-, sjöunda- og áttunda áratugnum.[25][26][27]

Í lok 20. aldar varð vaxandi krafa um nýja græna orkukosti og umhverfisvæna tækni vatn á myllu umhverfishreyfingarinnar, sem og þróun rafrænna bíla og endurnýjanlegra orkugjafa. Kallað var eftir því í síauknum mæli að mannkynið endurhugsaði samspil sitt við náttúruna og skapaði vistvænt og grænt hagkerfi; nýtt framleiðsluhagkerfi sem byggði ekki á jarðefnaeldsneyti heldur endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku. Á allra síðustu árum hefur umhverfishreyfingunni vaxið fiskur um hrygg, ekki síst þegar afgerandi vísindaleg gögn hafa verið kynnt um afleiðingar hlýnunar jarðar.[28]

Atburðir í sögu umhverfis- og auðlindahagfræði

breyta

Jarðardagurinn

breyta

Jarðardagurinn (e. Earth Day) er alþjóðlegur dagur umhverfis- og náttúruverndar sem haldinn er 22. apríl ár hvert, í um 192 þjóðríkjum. Jarðardagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1970 og er skipulagður af Earth Day Network. Á Jarðardeginum hafa í gegnum tíðina fjölmargir viðburðir og mótmælaaðgerðir verið skipulagðar til þess að vekja athygli á helstu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir í umhverfis- og auðlindamálum, sem og að kalla eftir friði í heiminum.[29][30] 

Endimörk vaxtar

breyta

Eitt markverðasta innlegg í umhverfisumræðu þess tíma var rannsókn Rómarklúbbsins (e. Club of Rome), Endimörk vaxtar (e. Limits to Growth), sem birt var árið 1972.[31] Niðurstaða rannsóknarinnar var að siðmenning mannanna væri að þurrka upp stærstan hluta þeirra auðlinda sem nútímasamfélög byggja grundvöll sinn á. Áframhaldandi iðnvæðing og óbreytt neyslumynstur væri ósjálfbært og þess vegna væru umtalsverðar breytingar óumflýjanlegar, ef ekki ætti illa að fara.[14][23]

Endimörk vaxtar er af mörgum talin tefla fram of svartsýnni framtíðarsýn, enda auðvelt að benda á að spádómarnir hafi ekki ræst, nema að hluta. Margar viðvörunarbjöllur í skýrslunni hafa þó reynst á rökum reistar. Rannsóknin byggðist á flóknum tölvulíkönum og var meginniðurstaðan sú að auðlindaskortur myndi leiða til verulegs samdráttar í hagkerfum Vesturlanda í upphafi 21. aldarinnar.[4][14][23]

Okkar sameiginlega framtíð

breyta

Okkar sameiginlega framtíð (e. Our Common Future), er skýrsla alþjóðlegrar nefndar Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og framþróun (e. United Nations World Commission on Environment and Development – WCED). Skýrslan kom út árið 1987 í kjölfar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi mannkyns (e. United Nations Conference on the Human Environment) sem haldin var í Stokkhólmi árið 1972. Skýrslan er einnig þekkt sem Brunthland-skýrslan eftir formanni nefndarinnar Gro Harlem Brunthland, fyrrum forsætisráðherra Noregs.[24][32]

Okkar sameiginlega framtíð markaði tímamót og er einn hornsteina umræðunnar um umhverfisvernd. Innihald skýrslunnar er jafnframt eitt markverðasta innlegg þess tíma varðandi hugmyndafræðina um sjálfbærni og sjálfbæra þróun. Í skýrslunni er grunnstefið í hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun skilgreint á þennan hátt: Framþróun sem uppfyllir þarfir samtímans, án þess að fórna möguleikum framtíðarkynslóða á því að uppfylla sínar þarfir.

Markmið skýrslunnar var að sameina samfélög og þjóðir heims, þvert á landamæri og heimsálfur, í því verkefni að horfa til framtíðar með umhverfis- og náttúruvernd að leiðarljósi. Skýrslan var afrakstur víðtæks samráðs vísindamanna, sérfræðinga, umhverfisverndarsamtaka, stjórnvalda og almennings í kortlagningu þeirra áskorana sem heimurinn stæði frammi fyrir í lok 20. aldar.[24]

Í skýrslunni var ákall til stjórnmálamanna á heimsvísu um að stuðla samhliða að vernd umhverfisins við gerð áætlana um framþróun og vöxt efnahagslífsins. Viðurkennt var að umhverfisvandamál væru að mestu hnattræn og því þyrftu viðbrögð þjóða heims að vera samræmd og hnattræn.[24]

Útgáfa skýrslunnar og starf Brunthland-nefndarinnar lagði meðal annars grunninn að Jarðarráðstefnunni (e. Earth Summit) sem fyrst var haldin í Ríó í Brasilíu árið 1992, alþjóðaverkefninu Staðardagskrá 21 (e. Agenda 21) og var undanfari stofnunar nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. United Nations Commission on Sustainable Development).[24][33][34][35]

Óþægilegur sannleikur

breyta

Heimildarmyndin Óþægilegur sannleikur (e. An Inconvenient Truth) með Al Gore (sem einu sinni var næsti forseti Bandaríkjanna eins og hann kynnir sig í myndinni), er eitt öflugasta framlagið í umræðunni um hlýnun jarðar. Þegar myndin var frumsýnd árið 2006 má segja að umræðan hafi stokkið upp á stærra svið og inn í almenna umræðu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Gore byggir með myndinni mikilvæga brú á milli vísinda, stjórnmálamanna og almennings. Myndin er þannig öflugt ákall um viðbrögð umheimsins við loftslagsvánni.[36] 

Í myndinni lýsir Gore þeirri skoðun að framtíð samfélags mannanna sé í húfi ef ekkert verður að gert og færir fyrir því sannfærandi rök. Hann segir það siðferðislega skyldu, ekki síst stjórnmálamanna, að bregðast við. Gore bendir á mörg dæmi þess að olíuiðnaðurinn hafi með skipulegum hætti þaggað niður í þeim sem hafa viljað leggja fram upplýsingar um afleiðingar hlýnunar jarðar. Þrýstihópar á vegum olíufyrirtækja hafi ítrekað grafið undan umræðu með öllum tiltækum ráðum, meðal annars mútugreiðslum. Gore bendir á „að það sé erfitt að fá mann til að skilja eitthvað, séu laun hans háð því að hann skilji það ekki.“ [36]

Gore kynnir leiðir til úrbóta og segir að öll nauðsynleg tæki séu til reiðu. Tæknin sé þegar til staðar sem til þurfi, svo snúa megi þróuninni við og takast á við vandamálið. Gore segir: „Við höfum allt sem við þurfum nema kannsi pólitískan vilja. En vitiði hvað? Í Bandaríkjunum er pólitískur vilji endurnýjanlegt hráefni.“ (We have everything we need but, say perhaps, political will. But do you know what? In America, political will is a renewable resource).[36][37]

Heimildir

breyta
  1. REN21 – Renewable Energy Policy Network for the 21st Century Renewables 2012: Global Status Report Geymt 15 desember 2012 í Wayback Machine
  2. EIA – Energy Information Administration International Energy Statistics
  3. World energy consumption outlook from the International Energy Outlook, published by the U.S. DOE Energy Information Administration
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 4,7 4,8 Field, B. C. (2008). Natural Resource Economics - An Introduction. Long Grove: Waveland Press.
  5. Sameinuðu þjóðirnar - UN Department of Economic and Social Affairs Population Division
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 Todaro, M. P. & Smith, S. C. (2011). Economic Development. Essex: Pearson Education Limited.
  7. Hopwood, B., Mellor, M. & O'Brian, G. (2005). Sustainable Development: Mapping Different Approaches. Sustainable Development, 13, 38–52.
  8. Giddens, A. (2011). The Politics of Climate Change. Cambridge: Polity Press.
  9. Sameinuðu þjóðirnar - UN Department of Economic and Social Affairs: Population Division
  10. Sameinuðu þjóðirnar - UN World Population Prospects
  11. Sameinuðu þjóðirnar - UN World Population Chart
  12. Sameinuður þjóðirnar - UN Sustainable Development
  13. 13,0 13,1 Groenwegen, J., Spithoven, A. & van den Berg, A. (2010). Instututional Economics – An Introduction. Basingstoke, Hampshire: Palgrave Macmillan.
  14. 14,0 14,1 14,2 14,3 14,4 Dresner, S. (2002). The Principles of Sustainability. London: Earthscan Publications.
  15. NASA - Earthrise
  16. NASA - The Blue Marble
  17. „Earth Policy Institute - Building a New Economy: The Environmental Revolution. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2015. Sótt 14. apríl 2015.
  18. Wikipedia: Environmental Revolution
  19. Sierra Club
  20. Yosemite National Park
  21. Wikipedia: Silent Spring
  22. Wikipedia: The Population Bomb
  23. 23,0 23,1 23,2 Meadows, D. H., Meadows, D. L., Randers, J. & Behrens, W. W. (1972). Limits to Growth. New York: Universe Books.
  24. 24,0 24,1 24,2 24,3 24,4 Our Common Future
  25. Wikipedia: Hippie
  26. Wikipedia: Countercoulture
  27. Wikipedia: Peace Movement
  28. Wikipedia: Environmentalism
  29. Earth Day Network
  30. Wikipedia: Earth Day
  31. Club of Rome
  32. Wikipedia: Brunthland Commission
  33. Earth Summit
  34. Sameinuðu þjóðirnar - Agenda 21
  35. Sameinuðu þjóðirnar - UN Commission on Sustainable Development
  36. 36,0 36,1 36,2 „Take Part: An Inconvenient Truth“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. apríl 2015. Sótt 14. apríl 2015.
  37. Climate Reality Project