Vistkerfi er svæði sem hefur verið tilgreint þar sem lífverur tengjast hver annarri og umhverfi á einn eða annan hátt. Vistkerfi geta verið misstór. Stöðuvatn, tún, eyja, skógarlundur eða miklu minna svæði, t.d. bara jarðvegur undir steini eða fiskabúr er dæmi um vistkerfi. Mestu máli skiptir að svæðið hafi skýr og greinileg mörk. Hafið við strendur Íslands og hafið við Ástralíu eru mjög ólík og því um tvö mismunandi vistkerfi að ræða. Vistkerfi er að finna alls staðar alveg frá heimskautunum og að miðbaug. Þau eru neðanjarðar, í lofti, í vatni og á landi. Allar lífverur á tilteknu svæði og allt sem þær þurfa til að lifa er hluti af vistkerfi. Lífverur þurfa t.d. vatn, súrefni, næringu, skjól, sólarljós og hæfilegt hitastig. Vindur, gerð jarðvegs og berggrunnur skiptir líka máli. Í vatni skiptir t.d. straumur og selta miklu máli. Plöntur þurfa vatn, koltvíoxíð og sólarorku. Margar plöntur þurfa jarðveg og svo eru þær í samkeppni við aðrar plöntur. Sumar þarfnast skordýra til að dreifa frjókornum og sum dýr éta af þeim t.d. ber eða ávexti. Hæfilegt hitastig þarf að vera til staðar og sumar þurfa skjól á meðan aðrar þola meiri vind. Ef við tökum laufskóg sem dæmi að þá lifa þar refir og aðrar lífverur sem reika um skóginn í leit að æti. Refir éta ánamaðka, fugla, ávexti, mýs og önnur smádýr. Þeir grafa göng neðanjarðar sem kallast greni. Fuglar í skóginum lifa til dæmis á skordýrum og ánamöðkum og þeir finna sér skjól í trjánum. Þessar lífverur eru allar háðar hver annarri. Ef allar mýs myndu skyndilega hverfa myndi það hafa áhrif á fæðuöflun hjá þeim tegundum sem veiða mýs. Þær yrðu að finna aðra fæða og líklega myndi fækka í stofninum vegna fæðuskorts. Ef tré á stóru svæði í skóginum yrðu höggin gæti það leitt til að margir fuglar og önnur dýr myndu missa skjól og þurfa að færa búsetu sína og mörg dýr myndu drepast. Það hefur líka áhrif á fæðuöflun á svæðinu þar sem margar dýrategundur lifa á plöntum. Þar sem allar lífverur í vistkerfi eru tengdar með einum eða öðrum hætti eru þær viðkvæmar fyrir raski og ekki þarf nema lítill hluti að breytast til þess að afleiðingarnar geti orðið afdrifaríkar.[1][2]

Vistkerfi er einhver skilgreindur hluti af lífhvolfi jarðar.

Í hverju vistkerfi eru ávallt margar tegundir plantna, dýra, sveppa og örvera. Saman mynda þessar lífverur líffélag. Allar tegundir plantna sem vaxa á tilteknu svæði kallast gróðursamfélag. Lífverur af sömu tegundi í viskerfi kallast einu nafni stofn. Tengslum innan vistkerfis er oft lýst með einföldum fæðukeðjum. Tengslin eru þó yfirleitt mun flóknari og er þeim þá lýst í fæðuvef sem er gerður úr mörgum tengdum fæðukeðjum.

Tenglar

breyta
  • „Hvað gerist í vistkerfinu ef mikil fjölgun eða fækkun verður hjá einni tegund?“. Vísindavefurinn.
  • https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/madurognattura/

Tilvísanir

breyta
  1. Fabricius, S. ofl. (2011). Maður og náttúra. Hálfdán Ómar Hálfdánarson þýddi og staðfærði. Reykjavík. Menntamálastofnun.
  2. Hurd D.; og fleiri (1996). Einkenni lífvera. Hálfdán Ómar Hálfdánarson og Þuríður Þorbjarnardóttir þýddu og staðfærðu. Reykjavík. Námsgagnastofnun.