Níkolaj Búkharín

Sovéskur stjórnmálamaður (1888-1938)

Níkolaj Ívanovítsj Búkharín (rússneska: Никола́й Ива́нович Буха́рин; 9. október 1888 – 15. mars 1938) var rússneskur byltingarmaður og sovéskur stjórnmálamaður.

Níkolaj Búkharín
Никола́й Буха́рин
Níkolaj Búkharín á þriðja áratugnum.
Aðalritari framkvæmdanefndar Alþjóðasamtaka kommúnista
Í embætti
Nóvember 1926 – apríl 1929
ForveriGrígoríj Zínovjev
EftirmaðurVjatsjeslav Molotov
Persónulegar upplýsingar
Fæddur9. október 1888
Moskvu, rússneska keisaradæminu
Látinn15. mars 1938 (49 ára) Moskvu, rússneska sovétlýðveldinu, Sovétríkjunum
DánarorsökTekinn af lífi fyrir skotsveit
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Sovétríkjanna (1918–1937)
Sósíaldemókrataflokkur Rússlands (Bolsévikar) (1906–1918)
MakiNadezhda Lúkín
Esfír' Gúrvítsj
Anna Larína
Börn2
HáskóliKeisaralegi háskólinn í Moskvu (1911)

Búkharín tók þátt í rússnesku byltingunni árið 1917 og varð einn af áhrifamestu stjórnmálamönnunum á upphafsárum Sovétríkjanna. Eftir dauða Leníns árið 1924 varð Búkharín bandamaður Jósefs Stalín og hjálpaði honum að jaðarsetja keppinauta sína innan Kommúnistaflokksins.

Ágreiningur jókst hins vegar milli Stalíns og Búkharíns á næstu árum sem leiddi til þess að Stalín lét reka Búkharín úr stjórn flokksins. Árið 1938 varð Búkharín svo fyrir barðinu á hreinsunum Stalíns og var handtekinn, sakaður um landráð og tekinn af lífi eftir sýndarréttarhöld.

Æviágrip

breyta

Níkolaj Búkharín var fæddur 9. október árið 1888 og gekk í byltingarflokk bolsévika árið 1906. Árið 1909 var hann handtekinn af lögreglu keisarastjórnarinnar í Rússlandi og sendur í útlegð til Onega við Hvítahaf. Búkharín tókst að flýja þaðan og á næstu árum dvaldi hann í ýmsum löndum og stofnaði til náins sambands við Vladímír Lenín, leiðtoga bolsévika.[1]

Búkharín var vel menntaður og varði síðustu sex árunum fyrir rússnesku byltinguna í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum. Alla ævi sína var Búkharín fátækur og lét mestallar tekjur sínar renna til bolsévikaflokksins. Búkharín var talinn alþjóðasinnaður í hugsanahætti og kunni bæði ensku, frönsku og þýsku. Hann samdi ritgerðir um Darwin og Goethe og hjálpaði Jósef Stalín árið 1913 að skrifa langa og mikilvæga ritgerð á þýsku í Vínarborg.[2]

Búkharin sneri aftur til Rússlands í aðdraganda rússnesku byltingarinnar árið 1917 og tók virkan þátt í októberbyltingu bolsévika sama ár. Búkharín var á þeim tíma meðlimur í miðstjórn bolsévikaflokksins og varð því einn af helstu ráðamönnum í nýja rússneska sovétlýðveldinu og í Sovétríkjunum eftir valdatöku kommúnista. Þegar Alþjóðasamtök kommúnista (Komintern) voru stofnuð í mars árið 1919 hlaut Búkharín sæti í framkvæmdanefnd þeirra, auk þess sem hann varð ritstjóri Pravda, flokksblaðs Kommúnistaflokksins.[1]

Búkharín var talinn fylgjandi „marxisma með mannlegu yfirbragði“ og á árunum 1921 til 1928 varð hann einn af helstu stuðningsmönnum „nýju efnahagsstefnunnar“ (NEP), sem heimilaði einkaframtak og viðskiptafrelsi upp að nokkru marki innan Sovétríkjanna. Ólíkt öðrum bolsévikaleiðtogum var Búkharín einnig fylgjandi nokkru frjálslyndi í menningarmálum og lagði áherslu á nauðsyn vísindarannsókna og þörf á fólki með afburðahæfileika.[2] Hugmyndir Búkharíns voru um margt á skjön við aðra ráðamenn innan flokksins og því mun Lev Trotskíj hafa sagt um hann: „Við getum verið með Stalín á móti Búkharín. En við getum aldrei verið með Búkharín á móti Stalín.“[3] Þrátt fyrir þetta var Búkharín í uppáhaldi hjá Lenín, sem kallaði hann „ástmögur Kommúnistaflokksins“ árið 1922.[4]

Þar sem Búkharín aðhylltist hægfara þróun til kommúnisma vildi hann að nýju efnahagsstefnunni yrði haldið áfram. Jósef Stalín var sammála honum um tíma og vann því með Búkharín eftir andlát Leníns við að losa sig við helstu keppinauta sína innan Kommúnistaflokksins, Grígoríj Zínovjev og Lev Kamenev. Búkharín var þó á varðbergi gagnvart Stalín og kallaði hann við eitt tilefni „nýjan Djengis Khan“. Til algerra vinslita kom milli Búkharíns og Stalíns á fundi í júlí árið 1928 þegar Búkharín sagði við Kamenev um Stalín að stefna hans myndi tortíma byltingunni og gera Rússland að lögregluríki:

„Stefna Stalíns mun tortíma byltingunni. Ekkert verður eftir nema lögregluríki. Flokkurinn er dauðadæmdur. Ríkið og flokkurinn eru orðin eitt. Stalín mun kyrkja okkur alla. Hefnd er það eina sem hann þekkir – rýtingurinn í bakið.“[2]

Árið 1929 var Búkharín sviptur öllum opinberum störfum og rekinn úr Kommúnistaflokknum ásamt fleiri meðlimum „hægriandstöðunnar“ sem hann leiddi. Stalín gagnrýndi „rotið frjálslyndi“ Búkharíns og hamraði á því að ef stefna Búkharíns yrði ofan á myndi flokkurinn gefast upp fyrir kapítalistaöflum.[2]

Handtaka og aftaka Búkharíns

breyta
 
Búkharín ásamt Aleksej Rykov stuttu fyrir réttarhöld þeirra árið 1938.

Eftir að hreinsanir Stalíns hófust var Búkharín handtekinn í mars 1937 og sakaður um að hafa tekið þátt í samsæri til að myrða Lenín og grafa undan starfi hans ásamt Trotskíj og bresku leyniþjónustunni.[2] Búkharín var meðal sakborninga í Moskvuréttarhöldunum sem haldin voru næsta ár en almennt er litið á þau sem sýndarréttarhöld gegn pólitískum andstæðingum Stalíns. Opinberi ákærandinn, Andrej Vyshínskíj, bar Búkharín þungum sökum, meðal annars um að reyna að eyðileggja iðnað og landbúnað Sovétríkjanna, sundurlima ríkið og reyna að hrifsa til sín völdin til að endurreisa auðvaldsskipulag í landinu.[5]

Þegar Búkharín var yfirheyrður játaði hann sök sína afdráttarlaust og sagðist bera ábyrgð á athöfnum fylgismanna sinna hvort sem hann vissi af þeim eða ekki. Hann greindi frá efnahagsstefnu sinni og hvernig hann hefði hvarflað frá flokkslínunni. Meðal annars fór hann yfir efasemdir sínar um uppbyggingu Stalíns á þungaiðnaði og um samyrkjuvæðingu Stalíns. Í lokaávarpi sínu hafnaði Búkharín því þó að hann hefði nokkurn tímann verið njósnari eða skemmdarverkamaður eða hefði haft í huga að myrða Lenín.[5]

Búkharín var að endingu sakfelldur, dæmdur til dauða og tekinn af lífi af skotsveit. Stuttu fyrir aftöku sína hafði Búkharín skrifað nokkurs konar erfðaskrá sem hann fól eiginkonu sinni, Önnu Míkhaílovnu Larínu, að leggja á minnið. Í erfðaskránni skoraði Búkharín á næstu kynslóðir sovéskra valdamanna að veita sér uppreist æru.[2]

Sovésk stjórnvöld hófu að endurhæfa ímynd Búkharíns á stjórnartíð Míkhaíls Gorbatsjov á níunda áratugnum. Árið 1988, á hundrað ára afmæli Búkharíns, var loks opinberlega viðurkennt að hann hefði verið saklaus af ákærunum og honum var veitt uppreist æru ásamt 18 öðrum gömlum bolsévikum sem höfðu verið drepnir á tíma hreinsana Stalíns.[2]

Skrif Laxness um Búkharín

breyta

Halldór Laxness, sem þá var sannfærður stalínisti, var viðstaddur réttarhöld Búkharíns árið 1938 og skrifaði um þau í bók sinni, Gerska æfintýrinu. Hann lýsti Búkharín á eftirfarandi máta í bókinni:

Lítill, álútur, sköllóttur, skólakennaralegur grúskari, allur dreginn upp í odd á mefistófelíska vísu, hvast nef, ydd eyru, oddbogadregnar augabrúnir, napóleonstoppur, með fræðisetningarnar eins og nokkurs konar viðauka við nagtennur, þannig kom hann mér fyrir sjónir. Rödd hans hafði mjög fullan hljóm, sónkendan, djúpan, en stundum líkt og undir dymbli. Hann sá skörpu auga, mjög fylgnu. Svampkenndri, altuppsvelgjandi athygli fylgdi hann hverju smáatriði, án þess að láta nokkuð skjótast fram hjá sér, æfinlega viðbúinn til andófs, óþreytandi skilmingamaður fram til síðustu stundar.[6]

Í frásögn sinni efaðist Laxness hvorki um sekt Búkharíns né um réttmæti málsmeðferðarinnar gegn honum, auk þess sem hann endurtók orðræðu sovéskra stjórnvalda þar sem Búkharín var líkt við meindýr.[7]

Í ritinu Skáldatíma árið 1963 sagðist Laxness sjá eftir því hvernig hann hefði skrifað um Búkharín, en þá höfðu sovésk stjórnvöld viðurkennt að játning Búkharíns í réttarhöldunum hefði verið þvinguð fram með pyntingum og hótunum gegn fjölskyldu hans.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Knútur Arngrímsson (1. apríl 1938). „Nýjasta „hreingerning" Stalíns“. Þjóðin. bls. 62-68.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 „Búkarín“. Morgunblaðið. 28. febrúar 1988. bls. 32-33.
  3. „Bucharin — 100 ár“. Réttur. 1. apríl 1988. bls. 84-85.
  4. Einar Olgeirsson (1. júlí 1978). „Nikolai I. Bucharin 90 ár“. Réttur. bls. 174-175.
  5. 5,0 5,1 Sir Fitzroy Maclean (4. júní 1988). „Ógnarréttarhöldin yfir Búkharín“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 4-5.
  6. Halldór Kiljan Laxness (1938). Gerska æfintýrið. Reykjavík: Bókaútgáfa Heimskringlu. bls. 79-80.
  7. Jón Ólafsson (2009). „Áróðursmaðurinn hittir sjálfan sig. Laxness um Laxness í Sovétríkjunum“. Andóf, ágreiningur og áróður: Greinar um heimspeki (PDF). Reykjavík: Háskólinn á Bifröst. bls. 206. ISBN 978-9979-9883-4-2.
  8. Andrés Kristjánsson (19. nóvember 1963). „„Var þetta kannski ekki skáldleg tíð?". Tíminn. bls. 9; 13.