Charles Robert Darwin (12. febrúar 180919. apríl 1882) var enskur náttúrufræðingur og jarðfræðingur sem er þekktastur framlög sín til þróunarlíffræði. Kenning hans um að allar tegundir lífvera hafi þróast út frá sameiginlegum forfeðrum er nú almennt viðurkennd sem grundvallarkenning í vísindum.[1] Ásamt Alfred Russel Wallace setti hann fram þá vísindakenningu að tegundarþróun stafaði af ferli sem hann nefndi náttúruval, þar sem lífsbaráttan hefur sömu áhrif og valræktun hefur í landbúnaði.[2] Darwin hefur verið lýst sem einum áhrifamesta manni mannkynssögunnar.[3] Hann hlaut þann heiður að vera jarðsettur í Westminster Abbey í London.[4]

Charles Darwin 51 árs; ljósmynd frá 1859 eða 1860.
1859 útgáfan af Uppruni tegundanna.

Darwin færði sannfærandi rök fyrir þróunarkenningu sinni í bókinni Um uppruna tegundanna árið 1859.[5][6] Á 8. áratug 19. aldar hafði vísindasamfélagið og meirihluti menntafólks fallist á að þróunin væri staðreynd. Samt héldu margir enn í aðrar kenningar sem litu á náttúruval sem aukaatriði í þróuninni, og það var ekki fyrr en með samruna þróunarkenninga á fyrri hluta 20. aldar að breiður stuðningur myndaðist við náttúruval sem undirstöðuafl þróunarinnar.[7][8] Uppgötvun Darwins er undirstaða allra lífvísinda og útskýrir líffjölbreytni.[9][10]

Áhugi Darwins á náttúrunni varð til þess að hann vanrækti læknanám við Edinborgarháskóla. Þess í stað aðstoðaði hann við rannsóknir á sjávarlindýrum. Náttúrufræðinám við Cambridge-háskóla (Christ's College, Cambridge) ýtti undir áhuga hans á náttúrufræði.[11] Eftir fimm ára ferðalag með skipinu Beagle varð hann viðurkenndur sem jarðfræðingur. Athuganir hans staðfestu kenningar Charles Lyell um hægfara breytingar og með bókinni The Voyage of the Beagle varð hann vinsæll rithöfundur.[12]

Darwin velti fyrir sér landfræðilegri dreifingu dýralífs og steingervinga sem hann safnaði í ferðinni. Hann hóf nákvæmar athuganir og byggði á þeim kenningu sína um náttúruval árið 1838.[13] Hann ræddi hugmyndir sínar við nokkra náttúrufræðinga, en þurfti tíma fyrir frekari rannsóknir, auk þess sem jarðfræðirannsóknirnar höfðu forgang.[14] Meðan hann var að skrifa um kenningu sína fékk hann senda ritgerð frá Alfred Russel Wallace þar sem sama hugmyndin kom fram. Þeir gáfu kenningar sínar út í sameiginlegu riti.[15] Darwin setti fram hugmyndina um þróun sem afleiðingu breytinga milli kynslóða sem grundvallarkenningu um aðgreiningu tegunda.[7] Árið 1871 rannsakaði hann þróun mannsins og kynval í bókinni The Descent of Man, and Selection in Relation to Sex. Hann fylgdi henni eftir með The Expression of the Emotions in Man and Animals (1872). Rannsóknir hans á jurtum komu út í mörgum bókum og í síðustu bók hans, The Formation of Vegetable Mould through the Action of Worms (1881), athugaði hann áhrif ánamaðka á jarðveg.[16][17]

Æska breyta

 
Charles Darwin, sjö ára. Olíumynd frá 1816.

Darwin fæddist í Shrewsbury í Englandi. Hann fæddist inn í ríka fjölskyldu en faðir hans var Robert Darwin einn hæst launaði héraðslæknir síns tíma. Afi hans var læknirinn, náttúrufræðingurinn og ljóðskáldið Erasmus Darwin sem hafði sett fram vísi að þróunarkenningu undir lok 18. aldar. Frá æsku hafði Darwin áhuga á lífríki jarðar og safnaði hann gjarnan fuglaeggjum, skeljum og ýmsum öðrum hlutum sem tengdust náttúrufræði. Darwin átti auðvelt með að læra en hafði ekki sérstaklega gaman af því, honum leiddist þó aldrei að stúdera náttúruna eða hluti sem tengdust henni. [3]

Hann stundaði nám í læknisfræði í Edinborg á árunum 18251827 og var það honum traustur grunnur í líffræðirannsóknum hans í framtíðinni. Hann gafst þó snemma upp á læknisfræðinni vegna þess að hann gat ekki verið viðstaddur aðgerðir sem framkvæmdar voru án deyfingar. Faðir hans sendi hann þá til Cambridge þar sem ætlunin var að hann lyki við B.A.-gráðu og lærði síðan til prests. Í Cambridge tók hann þátt í vísindatilraunum af miklum krafti og áhuga og kynntist við það mönnum eins og grasafræðingnum Steven Henslow og jarðfræðingnum Adam Sedgwick. Það var síðan Henslow sem mælti með Darwin í hnattsiglinguna með HMS Beagle, sem er talinn einn afdrifaríkasti viðburður í lífi Darwins.

Ferðir með Beagle breyta

 
Ferðin með Beagle

Hann tók sér stöðu um borð sem ólaunaður vísindamaður til þess að rannsaka lífríki framandi slóða. Ferðin með skipinu hófst árið 1831 og endaði með að taka 5 ár, sigldu þeir meðal annars til stranda Suður-Ameríku, Tahítí, Nýja-Sjálands, Suður-Afríku og Galapagos eyjanna þar sem Darwin er talinn hafa gert sínar merkustu uppgötvanir. Darwin sagði síðar sjálfur að ferðin hefði verið einn mikilvægasti atburður lífs síns. Hann hóf ferðina ný útskrifaður úr háskóla 22 ára að aldri en þegar hann sneri aftur úr henni þá var hann orðinn virtur náttúrufræðingur og þekktur fyrir viðamikið safn af munum sem hann hafði safnað í ferðinni. Ferðin veitti honum mikla reynslu sem nýttist honum í rannsóknum sem hann framkvæmdi síðar. [18] Partur af rannsóknum hans tengdist meðal annars ræktun en hann hafði mikinn áhuga á því hvernig hægt var að rækta dýr líkt og hunda og dúfur. Á meðan á ferðinni stóð hélt hann sambandi við fjölskyldu og vini með bréfasendingum, en hann fékk jafnframt fréttir að heiman frá föður sínum og systrum.[19]

Darwin sendi í fyrstu heim jarðfræðiskýrslur sínar sem hjálpuðu mikið til við að útskýra þróun jarðfræðistöðu jarðarinnar. Hann trúði að heimurinn breyttist smám saman en ekki í stórum hamförum eins margir trúðu á þessum tíma.

Hann gerði einnig mikilvægar líffræðilegar uppgötvanir fljótlega þótt hann hafi ekki áttað sig á mikilvægi þeirra strax. Til dæmis fann hann steingervinga útdauðra tegunda og ævaforna kuðunga í hlíðum Andesfjallana. Hann vissi ekki hvernig þetta hefði komið til en var viss um að kenning FitzRoys um að þetta væru tegundir sem Nói hefði ekki komið fyrir í Örkinni sinni væri ekki sönn.

Síðari ár breyta

Eftir að hann kom heim frá heimsförinni með Beagle gaf hann út rit sín og rannsóknir sem hann gerði á The Beagle og gerði það hann frægan og vinsælan ferðahöfund. Hann starfaði eftir það í einrúmi heima hjá sér sem sjálfstæður vísindamaður, en það gátu fáir gátu gert á Viktoríutímum Englands. Robert faðir hans borgaði uppihald Charles og allan kostnað og því þurfti Charles aldrei að leita sér að launaðri vinnu.

Mikilvægasta kenning Darwins tengdist þó skorti, en það var kenningin um náttúruval. Þegar náttúruval er að verki fæðast fleiri einstaklingar en geta komist af og því lifa aðeins þeir hæfustu. Þeir fjölga sér og geta af sér fleiri „hæfa“ einstaklinga. Þróunarkenningin var upphaflega sett fram í fyrirlestri í Linné-félaginu í London árið 1858. Höfundar fyrirlestursins voru tveir, Charles Darwin og Alfred Russel Wallace (1823-1913) sem hafði komist að sömu niðurstöðum óháð Darwin. Árið eftir, 1859, gerði Darwin kenningunni betri skil með bókinni Uppruni tegundanna (On the Origin of Species).[20] Kenning hans um náttúruval og þróun olli miklu fjaðrafoki enda var kirkjan bálreið út í hann fyrir að kalla mannveruna apa. Það má teljast merkilegt að á þeim tíma sem kenning hans kom út þá fékk hún mikla umfjöllun í þjóðfélaginu en það má meðal annars rekja til minnkandi áhrifa kirkjunnar þegar kom að útgáfu bóka.

Innan við áratug seinna hafði ókyrrðin þó nánast gengið yfir og hann gaf út þrjú verk sem hjálpuðu við að leggja nýjan grunn í sálfræði. Það voru verkin Afkoma mannsins sem fjallaði um þá kenningu að öll persónueinkenni mannskepnunar og jafnvel háþróaða sálfræðilega hæfileika á borð við hugrekki, samúð, skynsemi og rökhugsun, mætti finna í frumformi sínu í öðrum dýrategundum. Því væri engin ástæða til að segja að maðurinn hafi ekki þróast í átt að núverandi mynd. Um látbrigði tilfinninga manna og dýra sagði síðan að dýr sýndu tilfinningar líkt og menn en aðeins með látbrigði og þessvegna gætu sálfræðingar rannsakað atferli dýra til þess að komast að sálfræðilegum upplýsingum um menn. Darwin hafði mikil áhrif á sálfræði með áherslu sinni á fjölbreytni einstaklinga og hvatti þannig menn enn frekar til þess að rannsaka einstaklinga og atferli þeirra í staðinn fyrir staðlaðar fjöldarannsóknir sem einbeittu sér, sér í lagi að meðaltölum og tölfræði sem á engan hátt endurspegla sálfræðilega starfsemi í mönnum.

Almenn áhrif Darwins urðu þó sérstaklega mikil hjá breskum og amerískum sálfræðingum, sem einbeittu sér aðallega að atferli og hegðun og mælingum. Af mönnum sem Darwin hafði áhrif á má nefna William James, James Angell, John Dewey, Edward Thorndike og Robert Woodworth.

Hann giftist frænku sinn Emmu Wedgwood árið 1839. Þau eignuðust 10 börn og gengu í gegnum þá sorg að missa þrjú þeirra. Eitt andaðist við fæðingu, annað lést fyrir tveggja ára aldur en það þriðja lést á tíunda aldursári. Það var í raun grimm áminning um hvernig lífið gengi í raun fyrir sig en eins og kenning hans hélt fram að aðeins þeir hæfustu lifa af.

Charles Robert Darwin lést 19. apríl 1882. Innan fárra stunda bárust fréttirnar um lát hans til Lundúna og var ákveðið að hann skyldi jarðsettur í Westminster Abbey eins og mörg stórmenni Breta, þar á meðal Isaac Newton um það bil hálfri annarri öld fyrr.

Stuttu eftir dauða Darwins kom fram í sviðsljósið skóli af félagslegum darwinisma sem dró boðskap sinn aðallega frá hugsuninni um að „hinir hæfustu komist af“. Fylgismenn félagslegs darwinisma töldu þannig að ef hver og einn berðist aðeins fyrir sjálfan sig myndi félagsheildinn herðast og verða sterkari. Þessar hugmyndir samræmast á engan hátt hugsunarhætti Darwins.

Tilvísanir breyta

  1. Coyne, Jerry A. (2009). Why Evolution is True. Viking. bls. 8–11. ISBN 978-0-670-02053-9.
  2. Larson 2004, bls. 79–111
  3. „Special feature: Darwin 200“. New Scientist. Afrit af uppruna á 11. febrúar 2011. Sótt 2. apríl 2011.
  4. Leff 2000, Darwin's Burial
  5. Coyne, Jerry A. (2009). Why Evolution is True. Oxford: Oxford University Press. bls. 17. ISBN 978-0-19-923084-6. „In The Origin, Darwin provided an alternative hypothesis for the development, diversification, and design of life. Much of that book presents evidence that not only supports evolution but at the same time refutes creationism. In Darwin's day, the evidence for his theories was compelling but not completely decisive.“
  6. Glass, Bentley (1959). Forerunners of Darwin. Baltimore, MD: Johns Hopkins University Press. bls. iv. ISBN 978-0-8018-0222-5. „Darwin's solution is a magnificent synthesis of evidence...a synthesis...compelling in honesty and comprehensiveness“
  7. 7,0 7,1 van Wyhe 2008
  8. Bowler 2003, bls. 178–179, 338, 347
  9. The Complete Works of Darwin Online – Biography. Geymt 7 janúar 2007 í Wayback Machine darwin-online.org.uk. Retrieved 2006-12-15
    Dobzhansky 1973
  10. Joseph Carroll segir í inngangi að endurútgáfu þekktustu bókar Darwins að hún sé eitt af tveimur eða þremur mikilvægustu verkum allra tíma - ein af þeim bókum sem hefur valdið grundvallarbreytingu á því hvernig við lítum á heiminn. Carroll, Joseph, ritstjóri (2003). On the origin of species by means of natural selection. Peterborough, Ontario: Broadview. bls. 15. ISBN 978-1-55111-337-1.
  11. Leff 2000, About Charles Darwin
  12. Desmond & Moore 1991, bls. 210, 284–285
  13. Desmond & Moore 1991, bls. 263–274
  14. van Wyhe 2007, bls. 184, 187
  15. Beddall, B. G. (1968). „Wallace, Darwin, and the Theory of Natural Selection“. Journal of the History of Biology. 1 (2): 261–323. doi:10.1007/BF00351923. S2CID 81107747.
  16. Freeman 1977
  17. „AboutDarwin.com – All of Darwin's Books“. www.aboutdarwin.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. apríl 2016. Sótt 30. mars 2016.
  18. [1]
  19. [2] Geymt 18 janúar 2012 í Wayback Machine
  20. Er rétt að Darwin hafi dregið kenningu sína til baka vegna eigin trúarskoðana?

Heimildir breyta

Tengt efni breyta

 
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni