Sýndarréttarhöld
Sýndarréttarhöld eru réttarhöld þar sem ákvörðunin um sekt eða sakleysi sakbornings hafa verið ákveðin fyrirfram. Slík réttarhöld eru oft fyrirferðamikil í fjölmiðlum og gjarnan af pólitískum toga, það er að segja, að baki þeim liggur annað og meira en grunur um að framinn hafi verið tiltekinn glæpur. Að baki getur legið vilji til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga og að útbúa víti til varnaðar fyrir aðra.
Meðal þekktustu sýndarréttarhalda sögunnar eru Moskvuréttarhöldin svokölluðu, einnig kennd við Stalín, á tímum hreinsananna miklu undir lok fjórða áratugarins í Sovétríkjunum (sem Halldór Laxness varð vitni að).[1] Í kjölfar hreinsana Stalíns fylgdu sambærileg sýndarréttarhöld og hreinsanir víðsvegar austan Járntjaldsins. Í Albaníu var Koçi Xoxe, fyrrverandi innanríkis- og varnarmálaráðherra tekinn af lífi í maí 1949 og í Búlgaríu var Traycho Kostov, fyrrverandi formaður Kommúnistaflokks Búlgaríu, tekinn af lífi í desember sama ár. Í Rúmeníu var Lucrețiu Pătrășcanu, stjórnmálamaður, handtekinn í apríl 1948 og tekinn af lífi 1954, Ana Pauker, fyrrverandi utanríkisráðherra Rúmeníu, var handtekin í febrúar 1953 og tekin af lífi 1960 og Vasile Luca, náinn samstarfsmaður hennar og fyrrverandi fjármálaráðherra Rúmeníu, var dæmdur í lífstíðarfangelsi og dó í fangelsinu 1963. Í Ungverjalandi var László Rajk, fyrrverandi innan- og utanríkisráðherra, tekinn af lífi í október 1949. Í Tékkóslóvakíu var Rudolf Slánský, formaður Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu, tekinn af lífi í desember 1952 eftir sýndarréttarhöld í Prag.
Dreyfus-málið er annað frægt dæmi, sem kom upp í Frakklandi undir lok 19. aldar, í þetta sinn dæmi um gyðingahatur. Réttarhöldin yfir Saccho og Vanzetti eru þekkt í Bandaríkjunum yfir tveimur ítölskum innflytjendum sem báðir voru stjórnleysingjar og voru teknir af lífi í ágúst 1927 eftir að hafa verið fundnir sekir um að hafa framið morð á meðan ráni stóð. Eftir á að hyggja er talið ljóst að mennirnir hafi verði sakfelldir og teknir af lífi vegna fordóma gegn stjórnmálaskoðunum þeirra.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Laxness við sýndarréttarhöld í Moskvu“. 26. september 2007.