Mary Anning (21. maí 17999. mars 1847) var breskur steingervingasafnari og steingervingafræðingur. Hún varð heimsþekkt fyrir ýmsa mikilvæga fundi steingervinga í sjávarsetlögum frá júra tímabilinu í Lyme Regis í Dorset. Hún leitaði að steingervingum við ströndina að vetrarlagi sem komu í ljós þegar skriður féllu og áður en sjórinn eyddi þeim. Það var hættulegt og árið 1833 bjargaðist hún naumlega en hundur hennar Tray dó þegar skriða féll.

Mary Anning með hundi sínum Tray, málað fyrir 1842.

Æviágrip

breyta

Hún var tólf ára þegar hún ásamt bróður sínum fann fyrstu tvo steingervinga af svaneðlu sem fundust, fyrstu pterosaur beinagrindina sem fannst utan Þýskalands og nokkra steingervinga af fiskum. Athuganir hennar skiptu miklu máli í uppgötvunum varðandi steingervinga. Hún var af fátæku fólki, faðir hennar var húsgagnasmiður sem dó þegar hún var 11 ára. Faðir hennar drýgði tekjurnar með því að leita að steingervingum í sjávarsetlögum nálægt bænum og selja til ferðamanna. Mary var ein af tíu systkinum en aðeins hún og bróðir hennar Jósep náðu fullorðinsaldri. Hún var skírð í höfuð systur sinnar Mary sem dó fjögurra ára gömul af völdum brunasára. Þegar hún var fimmtán mánaða þá hélt nágrannakona á henni undir álmtré og stóðu tvær aðrar konur við með henni við tréð og voru þær að horfa á skemmtidagskrá. Eldingu laust niður í tréð og létust allar konurnar en áhorfendur hlupu með barnið heim þar sem hún var sett í bað með heitu vatni. Læknirinn á staðnum sagði þetta kraftaverk og fjölskylda hennar sagði að fyrir hefði hún verið veiklulegt barn en eftir að eldingunni laust niður hafi hún dafnað vel. Eftir þetta mun samfélagið hafa útskýrt hvaðan hú hefði forvitni hennar, gáfur og hve athugul og árvökul hún var með því að vísa í þetta atvik úr bernsku hennar.

Mary lærði að lesa og skrifa í sunnudagaskóla. Presturinn í sókninni hennar var áhugamaður um sköpunarsöguna og hvatti nemendur til að lesa hina nýju fræðigrein jarðfræði.

 
Blue Lias-klettaveggur í Lyme Regis, Dorset.
 
Júraströndin við Charmouth í Dorset, þar sem sumar af uppgötvunum Anning hjónanna áttu sér stað.

Á síðari hluta 19. aldar var Lyme Regis vinsæll strandbær fyrir yfirstéttar- og millistéttarfólk, sérstaklega eftir 1792 eftir að franska stjórnarbyltingin braust út og ferðir til Frakklands urðu hættulegar fyrir breska yfirstétt. Algengt var áður en Mary fæddist að bæjarbúar drýgðu tekjurnar með því að selja baðstrandargestum minjagripi sem þá voru kallaðir „curios“. Það voru steingervingar sem kallaðir voru litríkum og seljandi nöfnum eins og snákasteinar (ammonítar), djöflafingur (belemnites) og verteber (vertebrae) og voru slíkir gripir stundum sagðir hafa lækningamátt og kyngikraft. Steingervingasöfnun var í tísku á seinni hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar og þróaðist úr að vera sögusöfnun í að verða að vísindum þegar skilningur jókst á mikilvægi steingervinga í jarðfræði og líffræði. Steingervingarnir komu úr sjávarklöppum kringum Lyme, jarðfræðimyndun sem þekkt er sem Blue Lias. Þessi jarðfræðimyndun er úr lögum af kalksteini og flögubergi sem hafa lagst niður sem set á grunnum sjávarbotni snemma á júratímabilinu (fyrir um 210–195 milljón árum) og eru einn af þeim stöðum á Bretlandseyjum þar sem steingervingar eru algengastir. Það er sérstaklega að vetrarlagi sem steingervingar koma í ljós þegar hrynur úr klöppunum.

Richard faðir Mary og Jóseps fór með þau að leita að steingervingum og þau settu það sem þau fundu á borð fyrir utan heimili sitt og seldu ferðamönnum. Þau tilheyrðu ekki ensku biskupakirkjunni. Þegar faðir þeirra dó þá héldu systkinin áfram að safna steingervingum og selja þá saman á borði þar sem vagnar stoppaði við krá. Fyrsti þekkti steingervingafundur þeirra var 1811 þegar Mary var aðeins tólf ára gömul. Jósep gróf þá upp fjögurra feta flugeðlubein. Mary fann afganginn af beinagrindinni nokkrum mánuðum seinna og lávarðurinn af Colway sem var nálægt Lyme Regis greiddi fjölskyldunni £23 fyrir beinagrindina og seldi áfram til þekkts safnara sem sýndi gripinn í London. Þessi fundur vakti mikla athygli vegna þess að á þessum tíma trúðu flestir sköpunuarsögu Biblíunnar og gengu út frá því að jörðin væri aðeins nokkuð þúsund ára gömul en þessi fundur vakti spurningar um sögu lífsins á jörðu og jörðina sjálfa. Steingervingurinn var seldur fyrir £45 og fimm skildinga á uppboði í maí 1819 sem „steingervingakrókódíll“ til fræðimanns við British Museum sem þá hafði þegar stungið upp á nafninu Ichthyosaurus.

Molly móðir Mary stýrði viðskiptum fjölskyldunnar með steingervinga eftir að Richard lést. Jósep fór til náms hjá húsgagnabólstrara og hafði minni tíma til að safna steingervingum en var þá með þangað til 1825. Einn af viðskiptavinum fjölskyldunnar var efnaður safnari Thomas James Birch að nafni. Honum rann til rifja fátækt fjölskyldunnar sem hafði þrátt fyrir að hafa gert stórkostlegar uppgötvanir í meira en ár var þannig stödd að þau urðu að selja frá sér húsgögn til að borga leigu. Hann ákvað að bjóða upp til að styðja þau fjárhagslega þá steingervinga sem hann hafi keypti af þeim. Uppboðið var haldið í Bullocks í London 15. maí 1820 og það gaf £400. Ekki er ljóst hve mikinn hluta þeirrar upphæðar fór til fjölskyldunnar en þetta uppboð mun þó hafa tryggt fjárhagslega afkomu og einnig aukið hróður þeirra meðal fræðimanna í jarðvísindum, til uppboðsins komu menn bæði frá París og Vín.

Mary hélt áfram að safna og selja steingervinga. Aðalbirgðir hennar voru hrygglausir steingervingar eins og ammonítar og belemnite skeljar sem voru algengar á svæðinu og seldust fyrir nokkra skildinga. Steingerð hryggdýr eins og ichthyosaur beinagrindur seldust fyrir miklu meira en voru sjaldgæfar.

Þann 10. desember 1823 fann hún fyrsta heila Plesiosaurus steingervinginn og árið 1828 fann hún fyrsta eintakið af steingervingi flugskriðdýrs sem British Museum eignaðist og var það kallað Pterodactylus en var kallað fljúgandi dreki þegar það var fyrst sýnt á safninu. Hún fann fiskabeinagrind Squaloraja árið 1829. Mary las allar vísindagreinar um steingervinga sem hún fékk aðgang að og var oft lengi að afrita og handskrifa upp greinar. Þegar hún var 27 ára árið 1826 þá hafði hún safnað nógu miklu fé til að kaupa heimili með búðargluggum fyrir verslun sína Anning's Fossil Depot. Margir safnarar komu frá meginlandi Evrópu og Ameríku að heimsækja Mary.

Þegar tímar liðu fram jókst sjálftraust Mary og trú á eigin þekkingu og árið 1839 skrifaði hún vísindariti þar sem hún efaðist um að nýfundinn steingervingur af fornhákarli væri ný tegund þar sem hún hefði mörgum árum áður fundið hákarlasteingervinga með bæði bognar og beinar tennur. Úrdráttur úr þessu bréfi eru einu skrif Mary sem birtust í vísindatímariti á meðan hún lifði.

Mary var kona úr alþýðusétt og fyrir utan fræðasamfélag. Konur höfðu ekki kosningarétt, gátu ekki gengt embættum eða farið í háskóla. Þó að Mary vissi meira um steingervinga en ríku safnaranir sem hún seldi gripi til þá voru það alltaf karlkyns jarðfræðingar sem birtu vísindalegar lýsingar á eintökunum sem hún fann og þeir létu oft hjá líðast að geta hennar. Hún tók það nærri sér og fannst þekking hennar og hæfi hafa verið notuð í annarra þágu þar sem hún lagði til innihaldið en þeir fengu heiðurinn.

Margir jarðfræðingar heimsóttu hana til að safna steingervingum og rökræða um líffræðilega byggingu og greiningu.

Mary stakk upp á við fræðimanninn Buckland að skrýtnir hlutir sem kallaðir voru bezoar-steinar væri steingerður saur úr ichthyosaurs eða plesiosaurs. Buckland nefndi þessa hluti coprolites.

Mary aðstoðaði stundum jarðfræðinginn Thomas Hawkins við að safna ichthyosaur steingervingum í Lyme í kringum 1830. Hún tók vel eftir að hann hafði tilhneigingu til að fegra og laga til það sem hann fann og láta það sýnast meira. Hún segir í bréfi að hann sé svo mikill ákafamaður að hann geri hluti eins og hann ímyndi sér að þeir ættu að vera, ekki eins og þeir fundust. Nokkrum árum seinna varð mikið almennt hneyklismál þegar upp komst að Hawkins þessi hafði bætt inn gervibeinum í ichthyosaur beinagrindur til að þær virtust heillegri og seinna sent til bresku stjórnarinnar sem keypti þær fyrir safn British Museum án þess að geta þessarra „lagfæringa“ sinna.

Tenglar

breyta