Mario Draghi

59. forsætisráðherra Ítalíu

Mario Draghi (f. 3. september 1947) er ítalskur hagfræðingur og bankamaður sem var forsætisráðherra Ítalíu frá 13. febrúar 2021 til 22. október 2022. Hann var áður yfirmaður evrópska seðlabankans frá 2011 til 2019.

Mario Draghi
Forsætisráðherra Ítalíu
Í embætti
13. febrúar 2021 – 22. október 2022
ForsetiSergio Mattarella
ForveriGiuseppe Conte
EftirmaðurGiorgia Meloni
Seðlabankastjóri Evrópu
Í embætti
1. nóvember 2011 – 31. október 2019
ForveriJean-Claude Trichet
EftirmaðurChristine Lagarde
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. september 1947 (1947-09-03) (77 ára)
Róm, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiSerena Cappello (g. 1973)
Börn2
HáskóliSapienza-háskólinn í Róm
Tækniháskólinn í Massachusetts (PhD)
StarfHagfræðingur
Undirskrift

Draghi er útskrifaður með doktorsgráðu í hagfræði frá Tækniháskólanum í Massachusetts og hefur kennt fagið við Háskólann í Flórens. Draghi vann um stutt skeið hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs en var síðan í desember 2005 ráðinn sem seðlabankastjóri Ítalíu. Sem seðlabankastjóri þótti Draghi íhaldssamur og þótti betur fallinn til þess að stjórna að baki luktum dyrum en fyrir augum almennings.[1] Í nóvember árið 2011 var Draghi valinn til þess að taka við af Jean-Claude Trichet sem forstöðumaður Seðlabanka Evrópu. Þegar Draghi tók við því embætti stóð skuldakreppan í Evrópu yfir og því valt mikið á efnahagsstjórn hans við seðlabankann.[1]

Við upphaf stjórnartíðar sinnar við seðlabankann lýsti Draghi því yfir að hann myndi gera „hvað sem það kostaði“ til þess að koma í veg fyrir fall evrunnar.[2] Draghi hlaut mikið lof fyrir frammistöðu sína í embætti seðlabankastjóra og hefur honum jafnvel verið þakkað fyrir að bjarga evrusamstarfinu frá því að fara út um þúfur.[3] Í nóvember árið 2015 var Draghi talinn áhrifameiri en Janet Yellen, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, samkvæmt könnun sem gerð var af Barclays Plc., í gjaldeyrisviðskiptum milli dollara og evru, og var þetta í fyrsta sinn sem seðlabankastjóri Evrópu var talinn njóta meiri áhrifa en starfssystkini sitt í Bandaríkjunum.[4]

Eftir að Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sagði af sér í janúar árið 2021 bauð Sergio Mattarella Ítalíuforseti Draghi að mynda ópólitíska þjóðstjórn til þess að ljúka kjörtímabilinu. Talið var óheppilegt að rjúfa þing og kalla til nýrra kosninga í ljósi COVID-19-faraldursins og annarra yfirstandandi þjóðfélagsvandamála á Ítalíu.[3][5][6] Eftir stjórnarmyndunarviðræður við formenn stjórnmálaflokkanna á ítalska þinginu tókst Draghi að mynda þverpólitíska ríkisstjórn skipaða ráðherrum flestra helstu þingflokkanna, þar á meðal Fimmstjörnuhreyfingarinnar, Norðursambandsins og Lýðræðisflokksins.[7]

Draghi tilkynnti afsögn sína þann 14. júlí 2022 eftir að Fimmstjörnuhreyfingin neitaði að kjósa með traustsyfirlýsingu á stjórn hans.[8] Mattarella forseti neitaði hins vegar að samþykkja afsögn Draghi.[9] Þann 21. júlí staðfesti Draghi hins vegar endanlega afsögn sína eftir að lykilflokkar í stjórnarsamstarfinu sneru við honum baki. Hann gegndi áfram embætti forsætisráðherra fram að kosningum í september.[10]

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „„Súper-Mario" við þröskuldinn“. Viðskiptablaðið. 31. október 2011. Sótt 13. febrúar 2021.
  2. 'Whatever it takes' – a speech and its implications for the euro area“. www.kfw.de. Sótt 13. febrúar 2021.
  3. 3,0 3,1 Ævar Örn Jósepsson (3. febrúar 2021). „Ítalíuforseti vill að Mario Draghi leiði þjóðstjórn“. RÚV. Sótt 13. febrúar 2021.
  4. „Draghi áhrifameiri en Yellen“. Viðskiptablaðið. 6. nóvember 2015. Sótt 13. febrúar 2021.
  5. Jónas Atli Gunnarsson (3. febrúar 2021). „Mario Draghi fær stjórnarmyndunarumboð“. Kjarninn. Sótt 13. febrúar 2021.
  6. Atli Ísleifsson (3. febrúar 2021). „Draghi verði beðinn um að mynda nýja stjórn“. Vísir. Sótt 13. febrúar 2021.
  7. „Drag­hi verður for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu“. mbl.is. 12. febrúar 2021. Sótt 13. febrúar 2021.
  8. Ásgeir Tómasson (14. júlí 2022). „Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér“. RÚV. Sótt 14. júlí 2022.
  9. „Hafnaði afsögn forsætisráðherrans“. mbl.is. 14. júlí 2022. Sótt 17. júlí 2022.
  10. Ólafur Björn Sverrisson (21. júlí 2022). „Mario Draghi segir af sér“. Vísir. Sótt 24. september 2022.


Fyrirrennari:
Giuseppe Conte
Forsætisráðherra Ítalíu
(13. febrúar 202122. október 2022)
Eftirmaður:
Giorgia Meloni
Fyrirrennari:
Jean-Claude Trichet
Seðlabankastjóri Evrópu
(1. nóvember 201131. október 2019)
Eftirmaður:
Christine Lagarde