Giuseppe Conte

Giuseppe Conte (f. 8. ágúst 1964) er ítalskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem er 58. og núverandi forsætisráðherra Ítalíu. Hann tók við embætti þann 1. júní 2018.[1]

Giuseppe Conte
Giuseppe Conte Official.jpg
Forsætisráðherra Ítalíu
Núverandi
Tók við embætti
1. júní 2018
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. ágúst 1964 (1964-08-08) (55 ára)
Volturara Appula, Ítalíu
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiValentina Fico (skilin); Olivia Paladino
Börn1
BústaðurPalazzo Chigi, Róm
HáskóliSapienza-háskólinn
StarfLögfræðiprófessor, stjórnmálamaður
Undirskrift

Conte starfaði sem prófessor í einkarétti áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann var lítið þekktur þar til 21. maí 2018 en þá var stungið upp á honum sem forsætisráðherraefni samsteypustjórnar Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðurbandalagsins.[2] Í fyrstu neitaði Sergio Mattarella forseti Ítalíu að staðfesta þessa ríkisstjórn þar sem hann kunni ekki við val þeirra á evruandstæðingnum Paolo Savona sem fjármálaráðherra[3] Þann 31. maí var leyst úr ágreiningnum og Giovanni Tria var gerður að fjármálaráðherra. Conte sór embættiseið sem forsætisráðherra næsta dag.[4]

Ýmsir fjölmiðlar líta á ríkisstjórn Conte sem fyrstu popúlísku ríkisstjórn í Vestur-Evrópu.[5][6][7] Conte er annar maðurinn sem hefur gerst forsætisráðherra Ítalíu án fyrri reynslu í ríkisstjórnarstörfum á eftir Silvio Berlusconi. Hann er jafnframt fyrsti forsætisráðherrann frá Suður-Ítalíu síðan Ciriaco De Mita var ráðherra árið 1989.[8][9]

Þar sem Conte er ekki hátt settur í stjórnmálaflokkunum sem mynda ríkisstjórn hans voru persónuleg völd hans sem forsætisráðherra í fyrstu ríkisstjórn hans nokkuð takmörkuð. Formenn Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Norðurbandalagsins, Luigi Di Maio og Matteo Salvini, voru hver um sig ráðherra fjárhagsþróunar og innanríkisráðherra í ríkisstjórninni. Auk þess voru Di Maio og Salvini báðir varaforsætisráðherrar.

Þann 20. ágúst árið 2019 lýsti Conte því yfir að hann hygðist segja af sér sem forsætisráðherra.[10] Afsögn Conte kom í kjölfar þess að Salvini dró Norðurbandalagið úr ríkisstjórnarsamstarfinu með Fimmstjörnuhreyfingunni. Conte sakaði Salvini um að skapa stjórnarkreppu í eigin þágu til þess að reyna að auka fylgi flokks síns í nýjum kosningum.[11] Í stað þess að boða til nýrra kosninga ákváðu meðlimir Fimmstjörnuhreyfingarinnar hins vegar að mynda nýja ríkisstjórn í samstarfi við ítalska Demókrataflokkinn og settu það skilyrði að Conte, sem nýtur mikilla vinsælda meðal meðlima hreyfingarinnar, sitji áfram sem forsætisráðherra.[12][13]

TilvísanirBreyta

 1. "Raggiunto l'accordo per un governo M5S-Lega con Conte premier"
 2. „Novice to lead Italian populist cabinet“. 23. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018 – gegnum bbc.com.
 3. „Italian president faces impeachment call“. 28. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018 – gegnum www.bbc.com.
 4. „Giuramento governo: alle 16 Conte e i ministri al Quirinale“. Sótt 13. júlí 2018.
 5. "Italia primo governo populista in Europa occidentale". adnkronos.com. Sótt 13. júlí 2018.
 6. „Giuseppe Conte: Italy's next PM to form western Europe's first populist government“. Sótt 13. júlí 2018.
 7. „Opinion – The Populists Take Rome“. 24. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018 – gegnum NYTimes.com.
 8. „Da Renzi a Conte: ecco chi sono i presidenti del Consiglio non eletti in parlamento“. 25. maí 2018. Sótt 13. júlí 2018.
 9. „Da De Mita a Conte, l’incarico torna a sud di Roma dopo trent’anni“. Sótt 13. júlí 2018.
 10. „For­sæt­is­ráðherra Ítal­íu seg­ir af sér“. mbl.is. 20. ágúst 2019. Sótt 20. ágúst 2019.
 11. Margrét Helga Erlingsdóttir (20. ágúst 2019). „Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér“. Vísir. Sótt 20. ágúst 2019.
 12. „Ný ríkisstjórn komin á koppinn á Ítalíu“. Vísir. 3. september 2019. Sótt 3. september 2019.
 13. Kristján Róbert Kristjánsson (29. ágúst 2019). „Conte með umboð til stjórnarmyndunar“. RÚV. Sótt 3. september 2019.


Fyrirrennari:
Paolo Gentiloni
Forsætisráðherra Ítalíu
(1. júní 2018 – )
Eftirmaður:
Enn í embætti