Mariano Rumor
Mariano Rumor (16. júní 1915 – 21. janúar 1990) var ítalskur stjórnmálamaður, meðlimur í Kristilega demókrataflokknum og forsætisráðherra Ítalíu nokkrum sinnum. Hann var frá Venetó á Norður-Ítalíu og hóf þátttöku í stjórnmálum sem þátttakandi í stjórnarskrárþinginu 1946 þegar ný stjórnarskrá Ítalíu var samin.
Rumori barðist einkum fyrir hagsmunum og auknum áhrifum kaþólsku kirkjunnar á stjórnmálasviðinu (sem var hluti af stefnu kirkjunnar eftir að Leó XIII páfi gaf út páfabréfið Rerum novarum 15. maí 1891). Hann var þekktur sem „pio Mariano“ („Mariano hinn trúaði“), en kirkjan hafði mikil áhrif á mikið fylgi flokksins í héraði Rumors. Hann þótti líka minna eilítið á prest, var hæglátur og lágmæltur.
1948 var hann kjörinn á þing. Hann varð aðstoðarráðherra 1958 og innanríkisráðherra árið 1961. Hann varð fyrst forsætisráðherra 1968 til 1970.
1972 varð hann aftur innanríkisráðherra og varð skotmark stjórnleysingja sem varpaði sprengju inn í lögreglustöðina í Mílanó þar sem hann var við minningarathöfn með þeim afleiðingum að fjórir létust. Síðar komu í ljós tengsl sprengjumannsins við nýfasista og blóðbaðið á lögreglustöðinni í Mílanó varð eitt af þeim dæmum sem menn nefndu um hryðjuverk hægrisinnaðra öfgahópa til að skapa ótta við kommúnista á blýárunum.
1973 til 1974 var Rumor aftur forsætisráðherra og leiddi tvær vinstri-miðjustjórnir. 1976 blandaðist hann í Lockheed-hneykslið. Hann reyndist síðar saklaus, en málið hafði mjög neikvæð áhrif á stjórnmálaferil hans. Innan hans eigin flokks og meðal þeirra sem studdu aukin áhrif kirkjunnar var honum ýtt til hliðar. 1979 var hann kjörinn í öldungadeildina.
Fyrirrennari: Giovanni Leone |
|
Eftirmaður: Emilio Colombo | |||
Fyrirrennari: Giulio Andreotti |
|
Eftirmaður: Aldo Moro |